VALMYND ×

Fréttir vikunnar 12.-16.okt

Leikið með fallhlíf
Leikið með fallhlíf
1 af 5

Þessir dásamlegu haustdagar stytta svo sannarlega veturinn sem okkur finnst vera nýbyrjaður og samt er komið að haustfríinu.

Nemendur hafa að vanda verið að fást við eitt og annað, nemendur miðstigs hafa verið að vinna eftirlíkingu af víkingarefli í samfélagsfræðinni og hluti af þeirri vinnu er nú tilbúinn. Þetta hefur bæði krafist þess að þeir áttuðu sig á lífsháttum fólks á söguöld og gætu sýnt samvinnu við að koma henni á blað.

Við höfum æft okkur í tæknimálum og kennari sem var heima vegna flensueinkenna kenndi að heiman frá sér einn dag, nemendur voru í sinni skólastofu og allir með kennarann á skjánum og það gekk mjög vel. Nú eru bæði nemendur unglinga- og miðstigs búnir að prófa sig áfram með vinnu í zoom og ef til þess þarf að koma að nemendur, einn eða fleiri, þurfa að vera heima vegna sóttvarnaráðstafana erum við tilbúin í fjarkennslu.

Það eru breytingar í starfsmannamálum hjá okkur um þessar mundir, hún Aldís hefur lokið störfum hjá okkur, við þökkum henni kærlega fyrir góð störf undanfarin ár. Við hennar kennslu taka þau Ólöf Birna og Einar Mikael Sverrisson. Einar er nýr hjá okkur og við bjóðum hann velkominn til samstarfsins.

Í dag stóð til að við færum á hina hefðbundnu ,,Öðruvísileika“ sem að þessu sinni áttu að vera á Þingeyri. Það var auðvitað ekki hægt vegna sóttvarnaráðstafana og þess í stað héldum við okkar eigin ,,Kórónuleika“ þar sem nemendur fóru á milli stöðva og tóku þátt í margskonar leikjum og það verður að segjast að hin íslenska glíma sló í gegn hjá mörgum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hafið það gott um helgina og munið að það er hvorki skóli á föstudag né mánudag.

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.