VALMYND ×

Vikan 13.-17.maí

430 Fest Grunnskólans á Suðureyri
430 Fest Grunnskólans á Suðureyri
1 af 5

Fréttir vikunnar 13.-17.maí

Það er nú farið að styttast í sumarleyfi hjá okkur og margir orðnir óþreyjufullir eftir að skóla ljúki.  Lögboðinn útivistartími er orðinn lengri og á björtum vorkvöldum getur verið freistandi að vera lengi úti, en það skilar sér yfirleitt í mikilli þreytu næsta morgun.  Við höfum reynt að nýta góða veðrið til margskonar útiverkefna eins og meðfylgjandi myndir bera með sér.  Þessi verkefni reyna yfirleitt á mörg markmið skólastarfsins og tengjast bæði námsgreinum og félagsþroska, því það að vinna saman er eitt af því mikilvægasta sem við kennum krökkum þegar til framtíðar er litið. 

Unglingarnir héldu sitt árlega 430 Fest og fengu til góðan stuðning frá mörgum fyrirtækjum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.  Ballið var frekar fámennt en þeir sem komu voru glaðir og það var dansað út í eitt. 

Nemendur í 7.-9. bekk fengu heim með sér valblað vegna valgreina næsta vetrar.  Eins og áður hafði komið fram leggjum við upp með að hluti valgreinanna, eða fjórar stundir á viku, fari fram í Grunnskólanum á Ísafirði næsta vetur.  Með því móti teljum við að við náum að bjóða nemendum fjölbreytt námsumhverfi þar sem kennarar með sérhæfingu kenna sínar greinar, eins og hægt er að gera í stórum skólum, en jafnfram að veita þeim það aðhald og umhyggju sem felst í að fá að stunda almennt nám í litlum skóla eins og skólinn okkar er.  Hugmyndin er að fá það besta sem hægt er út úr báðum kerfum fyrir nemendurna.  Við vitum að fyrir suma er þetta stressandi en teljum að kostirnir séu ótvíræðir.  Blaðinu á að skila í skólann í síðasta lagi 22.maí. 

Nemendur á miðstigi hafa undanfarnar vikur verið að vinna að ferðaþjónustuverkefni og nú eru að koma uppskerudagar.  Þeir bjóða ykkur til ferðakynninga í skólanum fimmtudaginn 23.maí kl.16.30.  Þá fáið þið að sjá hvað þeir hafa lagt mikið á sig við að læra landafræði um leið og þeir kynna ákveðin lönd.