VALMYND ×

Vikan 26.-30.nóvember

Þessi vika hefur verið óvenju tíðindalítil hjá okkur og flestir dagar einkennst af hefðbundnu skólastarfi.  Lestrarhátíðinni er nú formlega lokið hjá okkur og við þökkum öllum þeim sem hjálpuðu okkur með hana, þeim sem komu og hlustuðu á atriði nemenda og þeim sem komu og lásu.  Þó að þeirri dagskrá sé lokið eruð þið alltaf velkomin í skólann til að lesa fyrir nemendur, bara að gera boð á undan sér.  Það er ákaflega mikilvægt að nemendur hafi góðar fyrirmyndir hvað lestrarvenjur varðar, eins og í öðru, og þar er hlutverk foreldra veigamest.  Ef krakkarnir sjá ykkur lesa eru meiri líkur á að þeir velji að taka sér bók í hönd þegar tími gefst til og ef þeir heyra umræður um bækur aukast líkurnar enn meira.  Það er fínt að hafa þetta í huga núna þegar jólabókavertíðin er í hámarki.  Ég vil líka nota tækifærið og minna á mikilvægi heimalesturs, 15 mínútur á dag er lágmark.  Fyrir yngri nemendur er nauðsynlegt að fullorðinn hlusti og það er hvetjandi og gott fyrir alla. 

Í næstu viku verður kominn desember og skólastarfið fer að bera þess merki, lesefni tengist jólum og  það verður meira um ýmskonar föndur.