VALMYND ×

Fréttir

Sumarfrí hjá nemendum

Hér má sjá okkar glæsilegu útskriftarnemendur með umsjónarkennaranum sínum.
Hér má sjá okkar glæsilegu útskriftarnemendur með umsjónarkennaranum sínum.

Síðasti skóladagur nemenda var í gær. Þá fengu nemendur í 1.-9. bekk vitnisburði sína hjá umsjónarkennurum. Þeir voru einnig minntir á mikilvægi þess að vera duglegir að lesa og hreyfa sig í sumar. Þið foreldrar verðið að hjálpa þeim við að viðhalda þeim árangri og framförum sem þeir hafa náð í vetur með því að vera duglegir að minna á lesturinn.  Það er líka mikilvægt að muna að vera í samskiptum við aðra því annars er hætta á að maður einangrist og tíminn verði lengi að líða. 

Nemendur 10.bekkjar komu svo með foreldrum sínum síðdegis, tóku við sínum vitnisburði og kvöddu starfsfólk skólans. Það er mikil eftirsjá fyrir okkur að svona heilsteyptum og duglegum ungmennum úr skólanum en þetta er lífsins gangur og við óskum þeim alls hins besta á komandi tímum.

Þessi vetur hefur um svo margt verið óvenjulegur í skólastarfinu, það gildir bæði um skólabyrjunina. Þá fóru fyrstu tvær vikurnar hjá starfsfólkinu að mestu í að færa til dót og þrífa eftir framkvæmdir sumarsins sem voru bæði óvæntar og mjög umfangsmiklar.

Svo dundi á okkur hvert óveðrið á fætur öðru og oft varð lítið úr skólastarfi vegna þess. Þegar fór að vora tóku við sóttvarnir vegna Covid-19 og í apríl var svo skólinn lokaður í 8 daga vegna þess.

Nemendur og starfmenn sýndu ótrúlega aðlögunarhæfni í þessum skrýtnu kringumstæðum og er það aðdáunarvert.

Við eigum enn uppi í erminni myndbönd sem aðeins er verið að vinna í sem munu birtast hér síðunni um leið og þau eru tilbúin og mun koma tilkynning um það á facebook síðu skólans og svo minni ég að enn er talsvert af óskilamunum í skólanum.

Njjótið sumarsins.

Kveðja frá starfsfólkinu í skólanum

Skólaslit á morgun

Á morgun slítum við þessu skólaári formlega. Nemendur 1.-9.bekkjar koma og fá sinn vitnisburð kl.10:00 og útskriftarnemendurnir okkar koma svo með gestum sínum kl.17:30, kveðja skólann og starfsmennina og fá sinn vitnisburð.

 

Fréttir vikunnar 25.-29.maí

Að skoða hjól
Að skoða hjól
1 af 8

Það er skrýtið að hugsa til þess að síðasta heila vika skólaársins er nú liðin. Það var margt í gangi hjá okkur eins og venjulega. 9. og 10.bekkur lögðu af stað í skólaferðalagið snemma á mánudagsmorgun, þau fóru með Bryndís í ferð um Suðurland og koma heim í dag. Við eigum von á frekari fréttum af ferðum þeirra í næstu viku.

Við fengum heimsókn frá Einari Mikael töframanni sem sýndi töfrabrögð og kenndi okkur nokkur trix, en til stendur að hann kenni unglingunum í Fablab smiðjunni næsta vetur. Eins og sjá má af meðfylgjandi myndum voru nemendur mjög áhugasamir.

Yngsta stig fór í sinn árlega vorleiðangur með elsta hópi leikskólans. Að þessu sinni fóru þau til Súðavíkur og heimsóttu Melrakkasetrið og súkkulaðiverksmiðjuna Sætt og salt. Krökkunum fannst mjög gaman að skoða sýninguna í Melrakkasetrinu en upp úr stóð þó að hafa fengið súkkulaði að smakka.

Loka ,,föstudagsverkefni“ var í gangi hjá okkur miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Vinnan við það gekk vonum framar og nemendum hefur farið mikið fram í sjálfstæði í vinnubrögðum í vetur. Þá eru þeir einnig orðnir áræðnari við ýmiskonar tilraunir og öruggari við að kynna verkefnin sín.  Að þessu sinni voru nokkrir nemendur að afla sér upplýsinga um mótorcross og þá vildi svo til að Edda Björk kennari hafði góð tengsl við áhugamenn um það og fékk þá hingað til okkar til að sýn hjól og búnað.  Það vakti mikla lukku.  Skil á verkefnunum verða á þriðjudaginn og við ráðgerum að taka skilin upp og gera þau sýnileg á heimasíðu skólans.

Í dag var síðasti vinnudagur hennar Emiliu í mötuneytinu hjá okkur og þökkum við henni kærlega fyrir að hafa hugsað svona vel um okkur. Gangi þér vel á nýjum vettvangi Emilia.

Síðasti skóladagur þessa skólaárs er þriðjudaginn 2.júní. Þá byrjum við á að skila lokaverkefnum, gerum svo ráð fyrir að fara í gróðursetningu og eftir það í leiki. Klukkan 12:00 munum við svo grilla pylsur fyrir nemendur og að því loknu fara þeir heim.

Miðvikudaginn 3.júní er starfsdagur og þá leggja starfsmenn lokahönd á vitnisburði nemenda og fleira.

Fimmtudaginn 4.júní eru svo skólaslit. Þau verða með óvenjulegum hætti í ár þar sem enn er mælt með að gæta varúðar vegna smithættu. Nemendur í 1.-9.bekk koma í skólann klukkan 10:00 og fá sinn vitnisburð. Nemendum 10.bekkjar er boðið í skólann síðdegis ásamt forráðamönnum þar sem þeir verða formlega útskrifaðir úr grunnskóla. Nánari tímasetning á því verður ljós á mánudaginn.

Fréttir vikunnar 18.-22.maí

Sundkennsla

Sundkennslan í vikunni gekk mjög vel og er hún Guðríður sundkennari hæst ánægð með frammistöðu nemenda, framkomu þeirra og vilja til að taka leiðsögn. Það verður svo líka sund á mánudag og þriðjudag.

Stelpur og tækni

Við fengum boð um að taka þátt í ráðstefnu frá Háskólanum í Reykjavík. Ráðstefnan nefndist ,,Stelpur og tækni“ og var ætluð stelpum í 10.bekk og hefur verið haldin árum saman fyrir Reykjavíkurskólana en var núna rafræn vegna Covid-19 og þá ákváðu aðstandendur hennar að bjóða hana um allt landið.  Þar sem okkar stelpur eru ekki það margar buðum við 9.bekk að vera með að þessu sinni. Stelpurnar fengu kynningu á umhverfi Háskólans í Reykjavík og svo kynningu á vefsíðugerð og tónlistarforritun. Þetta var bæði skemmtileg og lærdómsrík tilbreyting og vonandi koma fleiri svona tækifæri upp í hendurnar á okkur.

,,Föstudagsverkefni í næstu viku“

Föstudagsverkefnin hafa verið mjög vinsæl hjá okkur og nemendur hafa yfirleitt verið duglegir að vinna við þau. Í næstu viku verður lokaverkefni og fá krakkarnir fjóra tíma á miðvikudegi, fimmtudegi og föstudegi til að vinna við verkefnið að þessu sinni, alls 12 tíma. Kynning verður síðan 2.júní, við hefðum viljað bjóða ykkur að koma og vera með okkur þá en þar sem það enn mælt með að takmarka heimsóknir fullorðinna í skólann langar okkur til að taka kynningarnar upp og gera þær aðgengilegar fyrir ykkur.  Eitt af markmiðum þessara verkefna er að efla vitund nemenda um eigið nám, sjálfstæði og ábyrgðartilfinningu fyrir framförum. Í þeim tilgangi báðum við nú alla nemendur að skilgreina eigin markmið með verkefninu og setja niður leiðir fyrirfram. Þetta reyndist mörgum nemendum erfitt og því má búast við smá mótlæti í næstu viku. Við teljum þetta nauðsynlegt framfaraskref og vitum að þegar það hefur verið unnið einu sinni verður það mun léttara næst

Fréttir vikunnar 11.-15.maí

Þessa vikuna hefur flest verið með venjulegu sniði í skólanum. Við reynum að halda hefðbundinni dagskrá eins og hægt þó að það sé oft erfitt þegar fer að vora.  Veðrið hefur verið þannig að undanförnu að nemendur og starfsmenn hálfpartinn gleyma því að skólaárið sé að verða búið.  Kannanir hafa verið hjá nemendum í nokkrum fögum en við leggjum þó megin áherslu á að námsmat endurspegli vinnu nemenda en sé ekki byggt á staðreyndaþekkingu.  Í næstu viku verður kennt samkvæmt stundatöflu og við minnum á að 22.maí verður skóladagur.

Miðstigið var með uppskeruhátíð vegna lestrarátaks í dag. Nemendur höfðu fengið að velja milli nokkurra atriða til skemmtunar og niðurstaðan var að fá að fara í íþróttasalinn í leiki. Edda bætti svo við skúffuköku sem hún notaði til að kenna þeim orðatiltækið ,,rúsínan í pylsuendanum“. Gaman væri ef foreldrar spyrðu nú börnin sín hvað það þýðir.

Sundkennsla

Sundlaugin verður opin í næstu viku og við höfum fengið sama sundkennara og í haust til að taka þá tíma sem hægt er. Við ætluðum að vera löngu byrjuð og því verður um nokkra skerðingu að ræða hjá nemendum. Kennslan er skipulögð í samráði við kennarann og þess gætt að þeir sem þurfa mest á kennslu að halda fái flesta tíma. Unglingastigið fær aðeins einn tíma, enda metur kennarinn það þannig að þeir nemendur séu allir mjög vel syndir, áherslan verður því á nemendur af mið-og yngsta stigi og best er að þeir komi með sundföt alla næstu viku og mánudag og þriðjudag 25. og 26. maí.

Fréttir frá foreldrafélagi

Vegna aðstæðna hefur verið ákveðið að fresta aðalfundi foreldrafélagsins fram í september.

Matseðill 11-15.maí

Mánudagur

Hakk- og grænemtisúpa, brauð

Þriðjudagur

Soðinn fiskur, kartöflur, grænmeti, rugbrauð

Miðvikudagur

Lambagúlas, hrísgrjón, salat

Fimmtudagur

Hakk og spagettí, salat

Föstudagur

Fiskur í raspi, kartöflur, grænmeti

 

Vikan 4.-8.maí

Verkefni að eigin vali
Verkefni að eigin vali
1 af 5

Veðrið hefur leikið við okkur þessa viku og við höfum nýtt það vel til útiveru. Allir hópar hafa verið í útivinnu í 40-60 mínútur á dag og þess gætt vandlega að þeir hittist ekki. En nú líður vonandi að lokum takmarkana á skólastarfi vegna sóttvarna og  gerum við ráð fyrir hefðbundinni stundatöflu hjá öllum á mánudaginn. Íþróttir verða þó áfram úti og ekki er hægt að fara í sturtu.

Miðstigið hefur haldið sínu striki í föstudagsverkefni undanfarnar vikur og með þessari frétt fylgja nokkrar myndir af vinnulagi þeirra við það.  Á fimmtudaginn horfðu yngstu nemendurnir okkar á beina útsendingu frá skólatónleikum Sinfónínuhljómsveitar Íslands og greinilega mátti sjá að þeir höfðu mjög gaman af.

Breytingar á skóladagatali

22.maí er skráður starfsdagur á skóladagatalinu okkar, en í ljósi þess hvernig aðstæður hafa þróast síðustu vikur höfum við ákveðið að breyta honum í nemendadag. Það verður því skóli hjá nemendum 22.maí.

Fréttir vikunnar 27.apríl – 1.maí

Miðstig fór í ruslahreinsun á skólalóðinni og í tjörninni,
Miðstig fór í ruslahreinsun á skólalóðinni og í tjörninni,
1 af 2

Mikið var nú gott að fá nemendur aftur í skólann eftir þriggja vikna fjarveru, sem samanstóð af páskafríi og lokun vegna sóttvarna.  Starfið hefur ekki getað verið alveg samkvæmt stundaskrá hjá okkur þessa viku þar sem við erum enn að passa að nemendur og starfsfólk blandist ekki á milli hópa, en þetta hefur samt sem áður gengið furðu vel og við höfum nýtt góða veðrið til margskonar útikennslu eins og meðfylgjandi myndir sýna. Í næstu viku verður dagskráin með sama hætti og í þessari en svo gerum við ráð fyrir að geta horfið aftur til hefðbundinnar stundatöflu etir 11. maí þegar vonandi verður slakað á sóttvörnum. Þangað til biðjum við ykkur um að muna að ekki er mælt með því að börn leiki við aðra en bekkjarfélaga og þá sem þau eru í daglegri umgengni við. 

Við erum að byrja að skipuleggja starf næsta vetrar og gerum ráð fyrir talsverðum breytingum á uppsetningu á stundatöflu nemenda. Í fyrsta lagi mun skóladagurinn að öllum líkindum lengjast nokkuð hjá öllum nemendum, þó fyrst og fremst þeim yngstu. Það hugsum við okkur að gera til að veita þeim lengri tíma í íslensku málumhverfi þannig að betur gangi að læra tungumálið og fyrir þá sem eru í góðum málum hvað það varðar verður þessi viðbót vonandi til þess að þeir verða enn betri. Ef þetta gengur eftir munu fyrstu 20 mínútur hvers skóladags alltaf verða notaðar til yndislesturs. Eins erum við að skoða hvort hægt er að færa verkgreinar á miðstigi og ,,föstudagsverkefni“ til í töflu þannig að þessir tímar verði eftir hádegið. Það er reynsla okkar að nemendur eigi erfiðara með að einbeita sér að bóknámi þegar líða fer á daginn og því viljum við prófa að gera þetta svona.  Þetta er þó allt enn í skoðun en vonandi getum við verið með þetta tilbúið áður en skóla lýkur í vor.

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

Í næstu viku

Eins og staðan er núna vitum við ekki betur en að við megum hefja skólastarf í næstu viku. Það verða þó ennþá sömu takmarkanir og við vorum með fyrir páskafrí. Það er nemendur ljúka skóladegi um hádegi, ekki má nota búningsklefa og kennarar og nemendur fara ekki á milli hópa. Þetta þýðir að unglingastigið mætir kl. 8:10 og nemendur fara á ólíkum tímum í frímínútur. Eins og fyrir páska bjóðum við nemendum inn einum og einum í einu eftir því sem þeir koma í skólann að morgni og gætum þess að nemendur úr ólíkum hópum séu ekki í anddyrinu á sama tíma. Við erum ekki laus úr sóttvarnaaðstæðum og verðum að halda þetta út aðeins lengur. 

Við höfum vonandi öll lært heilmikið í þessum skrýtnu aðstæðum og við í skólanum hlökkum til að hitta krakkana á mándagsmorgun.

Gleðilegt sumar

Snjórinn er nú óðum að bráðna á skólalóðinni og sumardagurinn fyrsti er á morgun. Eftir helgi gerum við ráð fyrir að geta byrjað með skólastarfið alveg eins og það var í síðustu vikunni fyrir páska. það er skóli frá 8 (8:10) til 12.30 (12:40) hjá nemendum. Við munum áfram gæta þess að nemendur blandist ekki milli hópa og þar sem allir verða búnir um hádegisbil þarf ekki mat. Eftir 4.maí vonumst við svo til að geta farið í gang með allt með hefðbundnum hætti. En þangað til verðum við öll að muna eftir að passa okkur, sóttvarnatímabilinu er ekki lokið og það er mjög mikilvægt að halda það út.

Bestu kveðjur og gleðilegt sumar