VALMYND ×

Fréttir

Vegna óveðurs 10.des 2019

Almannavarnir mælast til þess að börnum sé haldið heima í dag, ef hægt er. Gert er ráð fyrir að veður versni til muna þegar líða fer á morguninn og þá gæti orðið erfitt að koma börnum heim. Við biðjum ykkur að tilkynna annað hvort á netfangið jonab@isafjordur.is eða facebooksíðu skólans ef þið getið haft börnin heima.

Skólinn verður opinn en það verður ekki hefðbundin kennsla þar sem við vitum nú þegar af mörgum sem verða heima.

Kveðja

Jóna

Matseðill 9-13.desember

Mánudagur

Kjöt- og grænmetisúpa, nýbakað brauð

Þriðjudagur

Fiskur í raspi, kartöflur, salat og sósa

Miðvikudagur

Kjuklingaleggir, ofnbakaðar grænmeti ásamt kartöflum, sósa, salat

Fimmtudagur

Hakkabuff í brúnni sósu, kartöflumús, salat

Föstudagur

Soðinn fiskur, soðnar kartöflur og grænmeti

 

Vegna slæmrar veðurspár

Afar slæm veðurspá er nú fyrir morgundaginn og jafnvel fram á miðvikudag.  Ísafjarðarbær hefur gefið út vinnureglur vegna lokana stofnana í slíkum tilvikum og þar kemur fram að halda skal opnu til hins ítrasta þó að starfsemi skerðist vegna ófærðar. Undantekning frá þessu er ef almannavarnir gefa út tilkynningu eða tilmæli um að loka skuli stofnunum.  Við gerum því ráð fyrir að skólinn verði opinn en foreldrar eru beðir um að gæta fyllsta öryggis þegar þeir taka ákvörðun um hvort þeir senda börnin skólann og láta okkur vita um ákvörðun sína ef mögulegt er. Nemendur fá ekki fjarvist ef þeir eru heima vegna veðurs við svona aðstæður.  Ég hvet ykkur til að fylgjast með á vef Veðurstofunnar https://www.vedur.is/vidvaranir.

Kveðja

Jóna

Fréttir vikunnar 2.-6.desember 2019

Nemendur læra um sögu Suðureyrar
Nemendur læra um sögu Suðureyrar
1 af 5

Skólaárið er rétt byrjað og samt kominn desember. Við erum aðeins farin að finna fyrir jólaspenningi í skólanum en reynum af mætti að hafa dagana sem venjulegasta út næstu viku en eftir það skellur jólagleðin á.

Á þriðjudaginn var nemendum á unglingastigi boðið á kynningu á vegum Klofnings á sögu Suðureyrar. Þar kynnti Eyþór Eðvarðsson söguna allt frá landnámi og til okkar daga. Þetta var mjög fróðlegt og krakkarnir voru áhugasamir og lærðu margt nýtt.  Eyþór færði skólanum einnig fleiri steina að gjöf frá Guðmundi Júlíussyni, það var Weronika Anikiej sem tók við gjöfinni fyrir hönd skólans. 

Nú þá héldu unglingarnir einnig spilakvöld þar sem yngri og eldri nemendur spiluðu saman og þar var mikil gleði eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Í söngstundinni æfum við nú jólalögin og ég minni á að það eru allir velkomnir að syngja með okkur á miðvikudögum klukkan 11:20.

Miðstigið kláraði sitt lestrarátak í dag, þau ætluðu að lesa í að lágmarki 5040 mínútur á þremur vikum. Það tókst, þau lásu 5120 mínútur samtals. Það gera um 21 mínútu á barn á dag. Það lásu þó ekki allir jafnt og sumir lásu mjög lítið þannig að við sjáum að það er hægt að gera betur. Færni í lestri byggir að mestu leyti á þjálfun hjá flestum nemendum. Það getur þó verið miserfitt fyrir nemendur að ná tökum á lestrinum en í þessu eins og öllu öðru er mikilvægt að hafa í huga að ,,æfingin skapar meistarann“ og aukaæfing gerir enn betur.

Kveðja

Jóna

Matseðill 2-6.desember

Mánudagur

Skyr með rjóma, aðalbláber, flatkökur með hangikjöti

Þriðjudagur

Lambasnitsel, kartöflur, sósa, grænmeti

Miðvikudagur

Sóðinn fiskur, kartöflur, grænmeti

Fimmtudagur

Hakk og spagetti, salat

Föstudagur

Fiskréttur og meðlæti

Vikan 25.-29.nóv

1 af 2

Djákninn á Myrká

Nemendur 3.-6.bekkjar fóru á sýninguna Djákninn á Myrká, eftir Helga Guðmundsson, á fimmtudaginn. Tónlistarhópurinn Djákninn flutti verkið, sýningin var á vegum verkefnisins ,,List fyrir alla“ sem er ætlað til að miðla listviðburðum um allt land. Þetta verk fékk fyrstu verðlaun í samkeppni um barnaverk á Norrænum músíkdögum í Finnlandi árið 2013.

 

Opinn dagur

Á mánudaginn verður með við svokallaðan opinn dag í skólanum. Þá bjóðum við gesti og gangandi sérstaklega velkomna til að kíkja á hvað við erum að vinna. Allt verður bara með venjulegum hætti í skólanum en það er líka áhugavert að sjá það.  Vonandi sjá einhverjir sér fært að koma og líta við spjalla.

 

Foreldrafundurinn og viðtölin

Glærurnar um nestið og fleira frá Salóme, næringarfræðingi eru komnar á heimasíðuna undir http://grsud.isafjordur.is/skrar/skra/33/ þá eru starfsáætlun og skólanámskrá ársins einnig komnar inn á síðuna og viðburðadagatal síðunnar hefur verið virkjað að nýju.

Ég vil minna þá sem eiga eftir að svara könnuninni um foreldraviðtölin á að gera það, hlekkur var sendur í mentorpósti á miðvikudaginn. Það tekur aðeins eina til tvær mínútur að svara og niðurstöðurnar yrðu marktækari ef við fengjum fleiri svör.

Starfsfólk skólans lagðist yfir tillögur foreldrafundarins 13.nóv og gerði samantekt á því sem þar kom fram um skilgreiningar og sýnist okkur hægt að ná þessu saman í textann sem fylgir sem myndir með þessari frétt.

Fréttir vikunnar 18.-22. nóv

Vikan litaðist talsvert af því að nú voru foreldraviðtöl á dagskrá hjá okkur og að þessu sinni með alveg nýju sniði. Nemendur voru á ábyrgðarhlutverki og völdu hvað þeir vildu sýna foreldrum sínum af þeim verkefnum sem þeir hafa verið að vinna í vetur og tóku einnig sjálfir ákvörðun um annað sem þeir vildu ræða. Þetta var í fyrsta skipti sem við reynum þetta og við þurfum að sjálfsögðu að æfa okkur til að geta verið viss um að allir þeir þættir sem við viljum ná fram með þessu komi í ljós. Við erum sannfærð um að þetta fyrirkomulag auki tilfinningu nemenda fyrir eigin ábyrgð og geri þá meðvitaðri um mikilvægi þess að vera virkur þátttakandi í samfélagi því með því er hægt að hafa áhrif.  Okkur langar einnig að vita hvernig ykkur leist á þetta og því fenguð þið sendan í tölvupósti hlekk á könnun með tveimur spurningum sem okkur þætti vænt um ef þið gæfuð ykkur tíma til að svara

Ef þið eruð í einhverjum vandræðum með mentor er best að koma bara við hér í skólanum og við leiðbeinum ykkur. Ef það vantar bara nýtt lykilorð get ég látið senda ykkur það í tölvupósti.

Í næstu viku gerum við ráð fyrir að nemendur 3.-6.bekkjar fari á leiksýningu á ísafirði á fimmtudag, það er verkið Djákninn á Myrká sem þeim býðst að þessu sinni.

Kveðja

Jóna

Matseðill 18-22.nóvember

Mánudagur

Grjónagrautur, slátur, brauð með osti

Þriðjudagur

Fiskréttur, salat

Miðvikudagur

HAMBORGARI og kartöflubátar

Fimmtudagur

Hakkabuff, kartöflumús, grænmeti

Föstudagur

Soðinn fiskur, soðnar kartöflur og grænmeti

Fréttir vikunnar 11.-15.nóvember

1 af 3

Í skólanum gengur allt sinn vanagang þessa dagana. Við vinnum á hverjum degi að því að efla orðaforða og reyna að skapa hæfilega metnaðarfullt námsumhverfi fyrir nemendur. Á þriðjudaginn var foreldrafundur þar sem flutt voru fræðsluerindi um svefn og næringu og svo var unnið með einkunnarorð skólans ,,ástundun, árangur, ánægja“. Við álítum að þessi einkunnarorð geti orðið okkur hjálpleg í vinnunni með nemendum en til þess þurfum við að hafa á þeim sameiginlegan skilning og vita hvað við viljum gera með þau. Við munum vinna nánar úr tillögum foreldra og birta þær svo hér á fréttasíðunni.

Í dag var svo Lestrarhátíðin okkar. Nemendur höfðu æft ýmiskonar upplestur sem þeir fluttu fyrir foreldra og gesti og unglingarnir buðu upp á vöfflur með rjóma. Það er mjög hvetjandi fyrir unga lesara að hafa áheyrendur að því sem þeir lesa og við þökkum öllum sem komu fyrir þátttökuna.

Í næstu viku verða svo foreldraviðtöl. Að þessu sinni ætlum við að reyna að nýta þau líka til að efla ábyrgð nemenda á eigin námi með því að nemendur sjálfir velja hvað af því sem þeir hafa unnið að í vetur þeir vilja sýna foreldrum sínum. Þetta er tilraunaverkefni hjá okkur og eins og í öllum slíkum verkefnum þarf ekki að búast við að það verði fullkomið í fyrsta sinn en við erum spennt fyrir því að vera með eitt svona viðtal á hverju ári.  Nemendur hafa fengið tímasetningar á viðtölunum sínum með sér heim.

Matseðill 11-15.nóvember

Mánudagur

Pólskt tómatsúpa með hrisgrjóni og pasta, ávextir

Þriðjudagur

Fiskur í raspi, kartöflur, salat, ávextir

Miðvikudagur

Chilli con carne, hrísgrjón, salat, ávextir

Fimmtudagur

Kjötfarsbollur, soðnar kartöflur og hvitkál, ávextir

Föstudagur

Sóðinn fiskur, kartöflur, gulrætur, ávextir