VALMYND ×

Fréttir

Hlutverk foreldra og skóla

Ágætu foreldrar

Það hefur verið staðfest í mörgum rannsóknum á skólastarfi að þátttaka foreldra og áhugi þeirra á námi hefur veruleg áhrif á gengi barna í skóla.  Samstarf heimila og skóla er því ekki bara til gagns fyrir skólann heldur skiptir það jafnvel meira máli fyrir nemendur.  Við höfum rætt talsvert um möguleika okkar á samstarfi og þar er að mörgu að hyggja.  En samstarf þýðir að báðir aðilar koma með sín sjónarhorn að borðinu og byggja svo samvinnuna á því sem þeir eiga sameiginlegt og sammála um að verði að gagni.  Til að samvinna foreldra og skóla hér á Suðureyri verði sem gagnlegust fyrir nemendur er mikilvægt fyrir okkur að tala saman og þekkja þau hlutverk sem við gegnum.  Starfsmenn skólans geta ekki, einir og sér, ákvarðað hlutverk foreldra hvað varðar skólagöngu barna, það þurfa foreldrar að gera með okkur.   Til að skilgreina þá samvinnufleti sem gagnlegastir geta orðið ætlum við að bjóða ykkur til sameiginlegs fundar þar sem við vinnum saman að því að skilgreina hlutverk foreldra og skóla þegar kemur að skólagöngu.  Fundurinn verður haldinn þann 29.febrúar frá kl. 17:00 - 19:00 og biðjum við ykkur að taka þennan tíma frá, því mikilvægt er að sjónarmið allra foreldra heyrist í þessari vinnu.  Unnið verður með þjóðfundarsniði og túlkað í það minnsta á pólsku og tælensku.

Danskennsla og fleira

Fyrsti danstíminn hjá yngstu deild.
Fyrsti danstíminn hjá yngstu deild.

Starfið þessa vikuna hefur nokkuð litast af forföllum starfsmanna en við reynum þó ávalt að láta þau koma sem minnst niður á kennslu nemenda, undantekning frá því eru tímar eldri nemenda sem eru á dagskrá eftir hádegi.  Þá tíma mönnum við ekki heldur sendum nemendur heim.

Í þessari viku hófst danskennsla hjá okkur.  Allir hópar fá einn tíma á viku, á miðvikudögum, næstu vikur og allt til loka febrúarmánaðar.  Nemendur voru glaðir bæði glaðir og spenntir í fyrsta tímanum ein sog sjá má að meðfylgjandi mynd.

Í næstu viku hefjast foreldrakannanir Skólapúlsins, þið munið fá sendan hlekk á könnun sem þið eruð beðin um að svara.  Það er mikilvægt fyrir okkur að fá góða þátttöku svo niðurstöðurnar verði marktækar.

Svo minni ég enn og aftur á lesturinn, mjög mikilvægt er að allir lesi heima í að minnsta kosti 15 mínútur á dag fimm sinnum í viku. Það kemur alveg fyrir okkur að gleyma að skrifa á lestrarmiðann en við segjum nemendum að það eigi samt sem áður alltaf að lesa.  Það er nefnilega með lesturinn eins og hverja aðra íþrótt að æfingin skapar meistarann.

 

Fréttir eftir fyrstu skólavikuna á árinu 2019

Skólastarfið fer vel af stað þó að nokkurrar þreytu hafi gætt meðal nemenda fyrstu dagana.  Það er alltaf erfitt að koma sér af stað eftir langt frí. 

Fjórir nemendur frá okkur tóku þátt í nemendaþingi sem boðað var til af hálfu Skólaskrifstofunnar á Ísafirði á fimmtudaginn og voru þeir sjálfum sér, foreldrum sínum og skólanum til mikils sóma.

Nemendur á miðstigi eru duglegir í forritunartímum eins og sjá má á þessum hlekk hér vekur ,,Dash” litli, sem meðal annars er hægt að láta segja smávegis, mikla lukku. https://www.youtube.com/watch?v=_rnhMvdHDbA Nemendur gleyma sér oft við þessa vinnu og eru hér talsvert lengur en stundataflan segir til um.  Það finnst okkur skemmtilegt því þá eru þeir að læra vegna eigin áhuga. 

Allar líkur benda til að flest störf sem nemendur okkar munu vinna við í framtíðinni verði tæknivædd á einhvern hátt svo við verðum að kenna þeim að umgangast þennan heim.  Það má samt sem áður ekki sleppa þeim óbeisluðum í hann, því þarna eins og annarsstaðar þurfa þeir leiðsögn fullorðinna.  Samkvæmt spám verða samskiptafærni, skapandi hugsun og tæknifærni þeir eiginleikar sem verðmætastir verða taldir hjá vinnuafli framtíðar. 

Ég minni ykkur enn og aftur á að vera dugleg við að hjálpa krökkunum við heimalesturinn, nú eru lestrarpróf frá Menntamálastofnun í næstu viku og niðurstöður þeirra getum við notað til að bera okkur saman við nemendur annars staðar á landinu.  Sá samaburður hefur ekki verið okkur nógu hagstæður til þessa og vonandi vinnum við á núna.

Kveðja

Jóna

Velkomin aftur skólann

Skóli hófst í morgun að loknu jólafríi og eins og áður leggjum við mikla áherslu á lesturinn.  Í morgun kynntum við nýja lestrarátkaið hans Ævars vísindamanns fyrir nemendum og margir eru spenntir fyrir þátttöku.  Það er hægt að fá miða í skólanum og það má líka skila þeim til mín og ég mun senda alla miðana sem hafa borist við lok átaksins.  Það er til mikils að vinna því Ævar mun draga nokkra þátttakendur úr sendum miðum og þeir sem eru svo heppnir verða sögupersónur í næstu bók hans.

Hér er hlekkur með reglunum

https://www.visindamadur.com/copy-of-lestraratakid-2017-2018

Rétt er að benda á núna gefst foreldrum einnig tækifæri til að taka þátt.

Hér er svo kynning frá vísindamanninum sjálfum.

https://www.youtube.com/watch?v=0WEcY7NiTew#action=share

Kveðja

Jóna

Jól og áramót

Ágætu foreldrar

Í okkar huga tilheyra jól og áramót mestu hátíðisdögum ársins.  Flestir eiga frí frá vinnu og leggja sig fram um að njóta daganna með vinum og ættingjum. Hvernig sem skipulag og hefðir hátíðarinnar eru hjá okkur er gott að muna að samvera er það mikilvægasta  sem við getum gefið börnunum okkar.  Það að taka frá tíma til að spila og leika saman skapar börnunum dýrmætar minningar sem þau búa að alla ævi og leggur grunn að því að færa fjársjóði reynslu og þekkingar milli kynslóða. 

Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og hlakka til að hitta nemendur hressa og káta mánudaginn 7.janúar.

Síðasta vika fyrir jól

Þessi vika var í styttra lagi hjá okkur og að mestu notuð í margskonar jólaundirbúning.  Verkefnin sem nemendur vinna eru þó ekki aðeins ætluð til skemmtunar heldur hafa þau yfirleitt annan tilgang líka.  Á mánudag og þriðjudag voru jólasmiðjur þar sem nemendur unnu margvísleg verkefni sem tilheyra hand-og myndmennt í námskrá, myndasýnishorn af þeirri vinnu fylgja þesari frétt.  Þegar skrifað er á jólakort þarf að stafsetja rétt og æfa sig að beygja samsett nöfn sem reynist mörgum erfitt.  Nemendur á unglingastigi skrifuðu á jólakort til samstarfsskóla okkar í Evrópu og þá reyndi á enskukunnáttuna.  Nemendur á miðstigi forrituðu gluggaskreytingu sem mun loga í jólafríinu, meðan batteríin endast.  Yngsta stigið æfði hefðbundinn helgileik, það getur verið mjög krefjandi að vita hvenær maður á að koma inn, hvenær maður á að tala og hvenær maður má alls ekki tala og þá reynir á einbeitingu og samvinnu.

Í dag voru svo litlu jólin, nemendur komu prúðbúnir í skólann klukkan 9:00 og áttu góða samverustund.

Ég læt hér fylgja litla hugleiðingu frá Stefáni frá Hvítadal sem minnir okkur á hve jólin eru- og hafa verið um langa hríð – mikilvægur hluti af minningum barna.

               Þau lýsa fegurst

               Er lækkar sól

               Í blámaheiði

               mín bernsku jól.

Skóli hefst svo samkvæmt stundaskrá þann 7.janúar 2019.

Eigið góðar stundir um hátíðarnar.

Fréttir vikunnar 10.-14.desember 2018.

Jólatré úr jafnarma þíhyrningum
Jólatré úr jafnarma þíhyrningum
1 af 5

Starfið í þessari viku hefur litast nokkuð af jólaundirbúningi þó að við reynum að vera lágstemmd og halda væntingum í lágmarki í þeim efnum til að auka ekki á spennuna sem oft skapast hjá krökkum á þessum árstíma.  Nokkrar myndir af viðfangsefnum síðustu daga fylgja með þessari frétt. Hið árlega föndur foreldrafélagsins var haldið á þriðjudaginn og var það vel sótt.  Nemendur á unglingastigi bökuðu smákökur og seldu og mæltist það svo vel fyrir að fengu færri en vildu.  Rétt er að geta þess að ágóðinn rennur í ferðasjóð nemenda.  Í dag héldu svo Sara og nemendur Tónlistarskólans aukatónleika fyrir okkur sem enduðu með samsöng á jólalögum.

Í næstu viku verður venjulegur skóladagur mánudag, þriðjudag og miðvikudag.  Á mánudag og þriðjudag verða sérstakar jólasmiðjur frá kl.9:40 – 12:25.  Ef einhverjir foreldrar eiga heimangengt á þessum tíma lofum við því að það verður gaman að koma í heimsókn til okkar.  Á fimmtudaginn er svo síðasti starfsdagur fyrir jól og þá verða hin hefðbundnu ,,litlu jól” í skólanum.  Þá hefst skóli kl.9:00 og lýkur um kl.11:30.  Gert er ráð fyrir að nemendur skiptist á litlum pökkum, hver nemandi kemur með einn pakka sem má að hámarki kosta 700 krónur.  Pakkarnir eru svo settir í púkk, sem skipt er með því að allir draga einn pakka.  Þetta er alltaf mjög spennandi og skemmtilegt.

Fréttir vikunnar 3.-7. desember 2018

Elstu og yngstu nemendur skólans hjálpast að við jólakortagerð.
Elstu og yngstu nemendur skólans hjálpast að við jólakortagerð.
1 af 3

Þessi vika hefur gengið vel fyrir sig, rétt eins og allar aðrar það sem af er hausti.  Snjórinn hefur verið endalaus uppspretta leikja og búið er að gera mikil mannvirki á skólalóðinni. Skólaráð fundaði í vikunni og í kjölfarið verða ábendingar sendar til tæknideildar Ísafjarðarbæjar og eftir áramót verður væntanlega gerð skoðanakönnun um vilja foreldra í tengslum við tómstundastarf. Við höfum verið með danskan sendikennara í heimsókn og tækifærið hefur meðal annars verið nýtt til að æfa danska framburðinn, skoða hvað við kunnum mörg tungumál þegar við leggjum öll saman og læra lög á dönsku eins og sjá má á þessum hlekk hér https://www.youtube.com/watch?v=4VFyhPeAxsw .  Að öðru leyti litast viðfangsefnin þessa dagana nokkuð af jólaundirbúningi.  Í ritun eru nemendur til dæmis að æfa sig að beygja samsett nöfn rétt meðan þeir skrifa á jólakort til samnemenda sinna.  5. og 6. bekkur notuðu microbit-tölvurnar til að forrita skemmtilega jólakveðju og festu hana svo á spjald í smíðatíma.  Í næstu viku verður hefðbundin dagskrá hjá okkur en í þeirri þar-næstu verðum við með jólaþema sem lýkur með litlu jólunum þann 20.des.

Vikan 26.-30.nóvember

Þessi vika hefur verið óvenju tíðindalítil hjá okkur og flestir dagar einkennst af hefðbundnu skólastarfi.  Lestrarhátíðinni er nú formlega lokið hjá okkur og við þökkum öllum þeim sem hjálpuðu okkur með hana, þeim sem komu og hlustuðu á atriði nemenda og þeim sem komu og lásu.  Þó að þeirri dagskrá sé lokið eruð þið alltaf velkomin í skólann til að lesa fyrir nemendur, bara að gera boð á undan sér.  Það er ákaflega mikilvægt að nemendur hafi góðar fyrirmyndir hvað lestrarvenjur varðar, eins og í öðru, og þar er hlutverk foreldra veigamest.  Ef krakkarnir sjá ykkur lesa eru meiri líkur á að þeir velji að taka sér bók í hönd þegar tími gefst til og ef þeir heyra umræður um bækur aukast líkurnar enn meira.  Það er fínt að hafa þetta í huga núna þegar jólabókavertíðin er í hámarki.  Ég vil líka nota tækifærið og minna á mikilvægi heimalesturs, 15 mínútur á dag er lágmark.  Fyrir yngri nemendur er nauðsynlegt að fullorðinn hlusti og það er hvetjandi og gott fyrir alla. 

Í næstu viku verður kominn desember og skólastarfið fer að bera þess merki, lesefni tengist jólum og  það verður meira um ýmskonar föndur. 

Samstarf við Íslandssögu og fleira

1 af 7

Þessa vikuna bar hæst hjá okkur samstarf við Íslandssögu, en fyrirtækið bauð nemendum mið- og elsta stigs í heimsókn í vikunni.  Þetta var sannkölluð fræðsluheimsókn því nemendur fengu bæði fyrirlestur um starfssemi fyrirtækisins og skoðunarferð um vinnsluna.  Að heimsókninni lokinni fékk náttúrfræðikennarinn, hann Jóhannes, ýmsar fiskitegundir með sér í skólann til að leyfa krökkunum að rannsaka þá frekar. Við þökkum kærlega fyrir þetta boð og höfðinglegar móttökur.  Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum skín vinnugleðin af nemendum í rannsóknarvinnunni.  Heimboð af þessu tagi gera okkur kleift að auka fjölbreytni í skólastarfinu. 

Við fengum líka nokkra gesti sem lásu fyrir nemendur og þökkum þeim kærlega fyrir komuna og framlag þeirra til skólastarfins, það er ákaflega mikilvægt að nemendur sjái að fleiri lesa en bara þeir sem eru í skóla.