Viðbragðsáætlun Grunnskólans á Suðureyri vegna eineltismála

Í Grunnskólanum á Suðureyri er lögð áhersla á að byggja upp góð samskipti hjá nemendum og efla félagslegan þroska þeirra. Til öryggis hafa verið settar reglur um hvernig fara skuli með samskiptavanda sem er af því tagi að flokka megi hann sem einelti. Mikilvægt er að allir starfsmenn og nemendur séu meðvitaðir um hvað einelti er, hvernig það birtist og hvernig unnið er með eineltismál í skólanum. Helstu verkferlar eru skrýðir hér að neðan en alltaf þarf að vinna hvert mál á sérstaklega.

Einelti er ekki liðið undir neinum kringumstæðum og flokkast sem brot á skólareglum.

Hvað er einelti? Einelti er endurtekið neikvætt atferli sem felur í sér niðurlægingu, áreiti eða ofbeldi af einhverju tagi gagnvart einstaklingi eða litlum hópi. Ef upp kemur hegðunarvandi sem fellur undir skilgreiningu á einelti fer í gang ferli sem byggt er meðal annars á Skildi sem er áætlun Grunnskólans í Sandgerði til að takast á við einelti.

Einstaklingsviðtöl við þolanda eineltis

Umsjónarkennari ræðir einslega við nemandann á rólegum stað. Aðrir nemendur eiga ekki að hafa vitneskju um þetta viðtal. Umsjónarkennari biður þolanda (og forráðamenn) um allar staðreyndir (hverjir, hvar, hve oft, hve lengi). Umsjónarkennari ásamt samstarfsmönnum gerir áætlun um hvernig hægt er að bregðast við. Þolandi fær allar upplýsingar um það hvað umsjónarkennari hyggst gera til að binda endi á eineltið. Umsjónarkennari segir þolanda að ekki séu gefnar upplýsingar um að hann hafi sagt frá (og umsjónarkennari má ekki brjóta þann trúnað). Umsjónarkennari biður þolanda (og forráðamenn) um að segja umsvifalaust frá öllum nýjum tilraunum til eineltis. Umsjónarkennari kemur á ákveðnu samskiptaformi á milli forráðamanna og umsjónarkennara um gang mála meðan unnið er með eineltið. Leysist málið ekki með þessum aðgerðum vísar umsjónarkennari málinu til nemendaverndarráðs.

Nemendaverndarráð tekur málið upp og leitar aðstoðar sérfræðinga ef málið leysist ekki. Það mikilvægasta í viðtali við þolanda er að gera viðkomandi grein fyrir því að einelti er ekki liðið í Grunnskólanum á Suðureyri og hann hafi fullan stuðning starfsfólks. Einnig að hann geti fengið aðstoð frá námsráðgjafa eða hjúkrunarfræðingi. Hughreysta skal þolanda og upplýsa hann um ferlið sem fer af stað og gera honum ljóst hversu mikilvægt er að hann segi frá ef eineltið heldur áfram.

Einstaklingsviðtal við geranda eineltis eftir að grunur hefur verið staðfestur

Umsjónarkennari sem nú hefur vitneskju um hver/hverjir eru gerandi/gerendur ræðir við hann/þá í einrúmi ásamt foreldrum. Þurft getur að hafa einhvern annan fullorðinn með (t.d. námsráðgjafa eða skólastjóra) eftir atvikum hverju sinni. Umsjónarkennari ætti að ræða fyrst við þann sem er leiðtogi í eineltinu (þannig er það oftast að einhver er leiðtoginn) og síðan koll af kolli. Hafa skal sem allra stystan tíma milli viðtala. Umsjónarkennari gerir geranda/gerendum það ljóst að einelti er ekki liðið í skólanum og fer með honum/þeim yfir sáttmála skólans um samskipti og skólareglur. Umsjónarkennari segir að margir héðan og þaðan hafi sagt frá því að þolandi verði fyrir áreitni. Gott að vera með sögur um þetta ákveðna einelti til staðfestingar og biður um tillögur til lausnar. Leysist málið ekki með þessum aðgerðum vísar umsjónarkennari málinu til nemendaverndarráðs. Nemendaverndarráð tekur málið upp og leitar aðstoðar sérfræðinga ef málið leysist ekki. Það mikilvægasta í viðtali við gerendur er að sýna gerendum fram á að staða málsins sé þekkt. Að boðskapurinn um að það eigi að hætta eineltinu sé settur fram af alvöru og ákveðni. Að þeim sé sagt frá því að fylgst verði með frekari þróun málsins og því fylgt eftir. Að þeim sé sagt að það hafi neikvæðar afleiðingar í för með sér ef eineltið hættir ekki strax.

Skrá skal alla fundi sem haldnir eru vegna eineltismála og geyma skjöl í skjalamöppu nemenda.

« 2021 »
« Október »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Vefumsjón