Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 3. ágúst 2018

Nýtt skólaár að hefjast

Ágætu Súgfirðingar

Mér hefur verið falið það hlutverk að leiða skólann ykkar í vetur meðan Þormóður er í leyfi.  Skólinn er ein af mikilvægustu stofnunum hvers samfélags því þar fer fram menntun og félagsmótun unga fólksins.  Ég mun leggja mig fram um að gera það sem ég get til að starfið í skólanum vaxi og dafni í sátt við samfélagið.  Hlutverk okkar allra er að hjálpa börnum og unglingum að byggja upp verkfæri til að takast á við framtíð sem við vitum ekki hvernig verður.  Þess vegna þurfum við að hjálpast að við að skapa samfélag sem einkennist af hæfilegri blöndu af metnaði og umhyggju, aga og frelsi, sköpun og leiðbeiningum svo krakkarnir hafi getu til að takast á við þau verkefni sem lífið mun krefjast af þeim.  Ég hlakka til samstarfs við ykkur öll, nemendur, foreldra, starfsmenn og aðra íbúa, því skólinn þarf að vinna með samfélaginu og samfélagið með skólanum. 

Ég er komin til starfa og ef einhver vill koma við til skrafs og ráðgerða er það velkomið.

Kveðja

Jóna Benediktsdóttir

Þormóður Logi Björnsson Þormóður Logi Björnsson | föstudagurinn 29. júní 2018

Fésbókinni lokað

Vegna nýra persónuverndarlaga þarf að loka fésbókarsíðu skólans. Facebook er einstaklega góð leið til að koma fréttum á framfæri og þökkum við góðar undirtektir á síðunni.

Því miður er facebook ekki tilbúið til að samþykkja þá skilmála sem fylgja nýrri Evrópulöggjöf er varðar persónuvernd.

Nýr skólastjóri mun svo ákveði hvort eða hvernig skólinn kemur að facebook.

Þormóður Logi Björnsson Þormóður Logi Björnsson | miðvikudagurinn 13. júní 2018

Sumarlestur

Við hvetjum foreldra til að halda við lestrinum í sumarfríinu.

,,Þetta langa frí er eflaust mörgum kærkomið en það er hins vegar vel rannsakað að sumarfrí nemenda hefur í för með sér ákveðna afturför fyrir nám þar sem fyrri þekking og færni gleymist vegna þess að henni er ekki haldið við yfir sumartímann. Þetta eru svokölluð sumaráhrif. Hvað lestrarfærni varðar getur þessi afturför numið einum til þremur mánuðum á hverju sumri og hjá barni í 6. bekk, sem aldrei hefur lesið yfir sumartímann, getur uppsöfnuð afturför numið einu og hálfu skólaári."

Bréf varðandi sumarlestur frá menntamálastofnun má lesa hér. Og hér má finna sumarlestrardagatal fyrir þá sem hafa áhuga.

Bryndís Ásta Birgisdóttir Bryndís Ásta Birgisdóttir | föstudagurinn 8. júní 2018

Vorferðalag

1 af 2

Dagana 28. maí - 1. júní fóru 9. og 10. bekkur í vorferðalag. Við héldum til í sumarbústað á Flúðum og fórum í dagsferðir um Suðurlandið og líka til Vestmannaeyja. Við skoðuðum að sjálfsögðu Gullfoss, Geysi og Þingvelli eins og hinir ferðamennirnir sem voru staddir á Suðurlandinu.

Einnig fórum við á söfn og urðu fyrir valinu Eldfjallasetrið á Hovlsvelli, Eldheymar í Vestmannaeyjum, orkusýningin í Ljósafossstöð og Draugasetrið á Stokkseyri. Þetta voru allt mjög skemmtileg og gagnvirk söfn sem við mælum með að fólk skoði.

Mikið rok var flesta dagana þarna á Suðurlandinu og voru það viðbrigði fyrir okkur sem komum úr logninu hér á Suðureyri.

Þormóður Logi Björnsson Þormóður Logi Björnsson | þriðjudagurinn 5. júní 2018

Skólaslit 2018

1 af 4

Grunnskólanum á Suðureyri var slitið skólaárið 2017 - 2018 í dag. Við buðum einnig nemendur í 1. bekk á næsta skólaári velkomin. Nemendur í 1. - 7. bekk komu á skólaslit klukkan 11:00 en nemendur í 8. - 10. bekk klukkan 17:30.

Við þökkum öllum nemendum, foreldrum, aðstandendum og öðrum velunnurum fyrir viðburðaríkt og skemmtilegt skólaár. 10. bekkur fær sérstakar þakkir og óskir um velgengni og hamingju í því sem þau taka sér fyrir hendur.

Hér er hægt að skoða myndir frá deginum.


Takk öllsömul fyrir frábært skólaár!

Þormóður Logi Björnsson Þormóður Logi Björnsson | mánudagurinn 4. júní 2018

Vorhátíð

Í dag fór fram vorhátíð skólans. Við vorum sannarlega heppin með veðrið sem lék við okkur jafnvel þó sólinn hafi bara aðeins kíkt í heimsókn örstutt. Nemendum var skipt upp í aldursblandaða hópa og tóku þátt í ratleik. Sigurliðið náði að svara öllu rétt. Að ratleik loknum fóru nemendur í sund og gæddu sér svo á hamborgurum áður en haldið var heim.


Hér er hægt að skoða myndir sem voru teknar í dag. Við minnum svo á skólaslitin á morgun :)

Þormóður Logi Björnsson Þormóður Logi Björnsson | fimmtudagurinn 31. maí 2018

Umferðardagur

Við héldum áfram í vorþema í dag, en við erum að leggja áherslu á útiveru þessa síðustu heilu viku skólans. Nemendur voru í aldursblönduðum hópum í gönguferðum, náttúruskoðun, leikjum og spilum. Frá 07:40 til 14:00 fóru allir nemendur á umferðamælingarstöð þar sem þeir mældu hraða á bílum sem óku framhjá skólanum. Sérútbúin veggspjöld þar sem ökumönnum var hrósað fyrir réttan hraða eða bent á að þeir aki of hratt var svo veifað eftir því hver hraði bílana var.


Hápunktur dagsins var heimsókn tveggja lögregluþjóna, sem ræddu um umferðaröryggi, skoðuðu aksturshraðaskrá nemenda og sýndu nemendum nýja lögreglubílinn og þau verkfæri sem lögreglan notast við.


Það voru 166 ökumenn sem áttu leið framhjá nemendum í dag. Af þeim óku 79 undir hámarkshraða 30 km/klst. 49 ökumenn voru á eða við hámarkshraða en 38 ökumenn óku of hratt. Af þessum 38 voru 21 sem óku á yfir 40 km/klst. hraða og 4 á yfir 50 km/klst. hraða. Sá sem ók hraðast var á 58 km/klst. hraða.


Nemendur og starfsfólk Grunnskólans á Suðureyri þakkar lögreglunni kærlega fyrir komuna, auk þess þökkum við flestum ökumönnum fyrir tillitssemina og bendum þeim sem aka allt of hratt á að hámarkshraðinn í þorpinu er 30 km/klst. m.a. vegna þess að hér eru börn á leik. Flýtum okkur hægt og virðum hámarkshraðan!

Hér er hægt að skoða myndir frá deginum.

Vilborg Ása Bjarnadóttir Vilborg Ása Bjarnadóttir | miðvikudagurinn 30. maí 2018

Vorferðin

Í dag fóru nemendur í 1. - 4. bekk ásamt elstu nememendum leikskólans Tjarnarbæ í hina árlegu vorferð. Að þessu sinni var farið til Flateyrar að skoða dúkkusafnið, útsýnisskífuna við varnargarðinn og hoppað aðeins á ærslabelgnum. Síðan var farið að Þórustöðum, lömbin skoðuð og nemendum var boðið að fara á hestbak. Það voru þó ekki allir til í það. Þetta var skemmtilegur dagur og allir kátir í lok dags. 

Sara Hrund Signýjardóttir Sara Hrund Signýjardóttir | miðvikudagurinn 30. maí 2018

Ferð í Litla Bæ í Skötufirði

Nemendur á miðstigi og í 8.bekk fóru í Litla Bæ í Skötufirði í morgun í boði hjónanna Sædísar Ólafar Þórsdóttur og Gunnars Inga Hrafnssonar. 

Ferðinni var fyrst heitið í Raggagarð í Súðavík þar sem krakkarnir nýttu tækfærið og skelltu sér í aparóluna, hringekjunar og kastalann. Þar næst var farið á Kambsnes og útsýnið skoðað rækilega, teknar myndar og steinum kastað í allar áttir. Svo var haldið í Skötufjörð að skoða seli. Krakkarnir skemmtu sér hið besta við að klappa og ná athygli þeirra, telja og hoppa á milli steina. Að lokum var farið í Litla Bæ þar sem krakkarnir fengu skoðunarferð um bæinn, fræðslu um sögu þess og ábúendur og lærðu að strokka smjör. Krakkarnir gæddu sér svo á flatkökum með nýgerðu smjöri. Því næst fengu allir nýbakaðar vöfflur með heimagerðri sultu, rjóma og glassúr og heitt kakó. Öll fóru þau því södd og sæl frá Litla Bæ og mun fróðari um svæðið. 

Við þökkum Sædísi og Gunnari hjartanlega fyrir ferðina og allan þann fróðleik sem fylgdi með.

 

Þormóður Logi Björnsson Þormóður Logi Björnsson | þriðjudagurinn 29. maí 2018

Vorhreinsun

Í dag fór fram vorhreinsun skólans. Nemendur fóru yfir skólalóðina og nágrenni hennar og plokkuðu rusl. Miðstigið tók tjörnina sérstaklega og mættu einhverjir í vöðlum á meðan aðrir voru í stígvélum eða fóru berfættir eftir ruslinu í tjörninni. Nemendur biðja alla um að huga að okkar fallega umhverfi og henda rusli í ruslatunnur. Ekki út í náttúruna.

Hér má skoða myndir frá plokkinu.

Eldri færslur

« 2018 »
« ágúst »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Vefumsjón