Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 26. febrúar 2021

Fréttir vikunnar 22.-26.febrúar 2021

Í þessari viku fóru fram foreldraviðtöl þar sem nemendur sýndu foreldrum sínum verkefnin sín. Við lögðum áherslu á að nemendur veldu eitthvað sem þeir væru stoltir af og ræddu líka um það sem þeim finnst erfitt ef um eitthvað slíkt væri að ræða. Viðtölin fóru fram á zoom þar sem nemendur buðu foreldrum sínum á fundi og deildu með þeim efni af ipödunum sínum. Tæknileg vandamál komu því miður upp í sumum viðtölum en þau er hægt að leysa þar sem nú er búið að aflétta takmörkunum á heimsóknum í skólann og því hægt að fá foreldra í skólann til að skoða verkefnin með kökkunum. Þeir fundir verða boðaðir í næstu viku.

Okkur langar að vera fær um að leyfa nemendum að kynnast tækninni og því sem hún býður upp á því þar liggur framtíðin. Við fjárfestum nýlega í þrívíddardóti sem við bindum vonir við opni nýja möguleika í kennslu, en fyrst þurfum við auðvitað að gefa okkur smá tíma til að læra að nota þetta.  Á þessum hlekk má sjá starfsmann í fyrstu tilraun. https://www.youtube.com/watch?v=CAyDxrImB64

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

 

 

 

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 12. febrúar 2021

Fréttir vikunnar 8.-12.febrúar 2021

Nemendur velja greinar í snjóþrúgur
Nemendur velja greinar í snjóþrúgur
1 af 2

Nemendur mið- og unglingastigs eru núna, og næstu þrjár vikur, að vinna útiverkefni á þriðjudögum og föstudögum.  Skipt er í fjóra hópa sem fást við sömu verkefni, en í ólíkri röð og gerðar eru misjafnar kröfur til nemenda eftir aldri og þroska. Verkefnin sem verið er að fást við eru meðal annars útieldun, snjóþrúgugerð, persónusköpun úr greinum úr skóginum og kortalestur sem felur í sér fjársjóðsleit þar sem nemendur finna viðfangsefni tengd ólíkum trúarbrögðum.  Með þessu verkefni tengjum við saman fjölmargar námsgreinar um leið og nemendur fara um heimabyggðina og læra um umhverfi sitt.

Skólablaðið kom út í vikunni, nemendur unglingastigs hafa gengið í hús og selt og ef einhver missti af þeim má senda skilaboð á Bryndísi og fá eintak.

Næsta vika verður óhefðbundin, á miðvikudag er öskudagur og vegna covid verður margt með öðru sniði en venjulega. Við höfum verið í samstarfi við Stefni og Foreldrafélagið um dagskrá þennan dag. Hefðbundin kennsla verður til klukkan 11:00. Þá ætlum við að vera með ball í íþróttahúsinu þar sem ,,kötturinn verður sleginn úr tunnunni“.  Ballinu lýkur kl 12:10 en þá ætla samstarfsaðilar okkar að bjóða öllum nemendum upp á pitsu og ís í eftirmat svo ekki þarf að koma með hádegisnesti þennan dag.  Eftir hádegið verður svo hver kennari með sínum hópi samkvæmt stundaskrá.  Við vonum að sem flestir mæti í búning á öskudaginn en biðjum foreldra að gæta þess að fylgihlutir sem flokkast sem vopn séu geymdir heima.

Á fimmtudag er svo starfsdagur, þá munum við vinna að skipulagi og áætlanagerð og á föstudag er svo vetrarfrí.  Þannig að í næstu viku eru aðeins þrír skóladagar hjá nemendum.

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 5. febrúar 2021

Fréttir vikunnar 1.-5.febrúar 2021

1 af 9

Hápunktur þessarar viku var hjá okkur í dag. Við héldum nemendaþing þar sem nemendur 3.-10.bekkjar fengu fyrst fræðsluerindi frá Björgu Sveinbjörnsdóttur um jafnrétti og fjölluðu í framhaldinu um fimm spurningar sem varða það málefni.  Eitt aðalefni í erindi Bjargar var að það er fólk sem breytir heiminum, allar kynslóðir breyta einhverju og það er mikilvægt að gera sér grein fyrir hverju maður vill breyta.  Nemendur frá Grunnskóla Önundarfjarðar voru með okkur í þessari vinnu og Önfirðingar úr 1.og2.bekk voru í heimsókn hjá okkar 1. og 2.bekk meðan á þinginu stóð.

Nemendur komu okkur skemmtilega á óvart með einlægum hugmyndum sínum um málefnið og margt af því sem þeir höfðu fram að færa var hreinlega magnað og enn og aftur sýndi það sig að ,,börn vita sínu viti“.  Þá var líka ákaflega gaman að sjá hversu góðir og hjálpsamir eldri nemendur eru við þá yngri, til dæmis með því veita þeim tækifæri til að taka þátt í kynningum og hvetja þá til að lesa hluta af niðurstöðum hópanna. 

Framtíðin er sannarlega björt með þetta unga fólk sem hluta af samfélaginu.

Hér koma örfá sýnishorn af því sem nemendur nefndu í dag þið munið sjá meira af því í næstu viku.

  • 1) Hvað getur skólinn ykkar gert til að auka líkur á jafnrétti?

Tala um vandamálin og segja okkur hvernig við getum breytt þeim og verið sanngjörn

  • 2) Hvað geta foreldrar gert til að auka líkur á jafnrétti?

Fræða börnin sín um réttindi þeirra og ekki flokka leik og athafnir í kynbundna flokkar

  • 3) Hvað getið þið sjálf gert til að auka líkur á jafnrétti?

Láta alla vitað að þeir skipti máli og eiga rétt á að lifa eðlilegu lífi

 

Í lok dagsins skelltum við okkur svo í bingó, enda vinna morgunsins búin að vera mjög krefjandi.

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 29. janúar 2021

Fréttir vikunnar 25.-29.janúar 2021

Hér má sjá nýja skólastjórann
Hér má sjá nýja skólastjórann
1 af 2

Í dag voru skil á áhugasviðsverkefninu sem nemendur eru búnir að vera að vinna að undanfarnar vikur. Umfjöllunarefni þeirra voru margbreytileg enda máttu nemendur velja viðfangsefni núna. Það voru tekin fyrir efni eins og norðurljós, átröskun, fyndnar staðreyndir um hunda, Manchester United, 1.apríl, Appoló geimflugarnar, bölvun Chucky, draugar, sólmyrkvi, bandarískur fótbolti og heimskautarefurinn svo eitthvað sé nefnt. 

Skilin voru fjölbreytt og skemmtileg og nemendum er að fara mikið fram í að koma efni frá sér á skipulagðan hátt.  Vinnusemi þeirra við verkefnin hefur líka lagast mikið og ef ekki væri um samkomutakmarkanir að ræða myndum við bjóða ykkur á kynningu og vonandi getum við gert það fyrir vorið. Við höfum líka útbúið sérstaka heimasíðu þar sem við söfnum öllum verkefnum nemenda og erum að velta fyrir okkur hvort hægt er með einhverjum ráðum að opna hana án þess að það stangist á við persónuverndarlög.  Um helgina mun birtast grein í veftímaritinu Skólaþræðir um verkefnið okkar og henni verður deilt inn á facebooksíðu skólans svo þið getið lesið hana þaðan.

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 22. janúar 2021

Fréttir vikunnar 18.-22.jan 2021

Nýju tölvurnar bornar upp
Nýju tölvurnar bornar upp
1 af 4

Að þessu sinni getum við sagt frá því að nú er búið að endurnýja tölvukost skólans að mestu leyti. Til þessa hafa flest tækin hjá okkur verið svokallaðir ,,cero clientar“ sem eru ekki raunverulegar tölvur, á þeim var ekki myndavél og mjög erfitt að sýna myndbönd sem eru stór þáttur í kennsluefni nútímans. Þeim hefur nú verið skipt út og erum við komin með nýjar vélar sem eru með flestu því sem venjuleg heimilistölva hefur og þetta verður mikill munur hjá okkur. Það vantar að vísu ennþá nokkra skjái en við bíðum þolinmóð eftir þeim. 

Nú er búið að lestrarprófa alla nemendur með janúarprófi Lesferlis og foreldrar eiga von á niðurstöðum í næstu viku. Það er gaman að sjá að flestum hefur farið vel fram.  Einnig má rifja upp að öllum nemendum á mið- og yngsta stigi fór aftur yfir sumarmánuðina svo það er alveg augljóst að þegar nemendur lesa ekki fimm sinnum í viku fer þeim aftur. Við vonum að þið foreldrar vinnið áfram af kappi með okkur í þessu því það skiptir verulegu máli fyrir öll börn að geta lesið með sæmilegum hraða og skilningi.

Með þessari frétt fylgja einnig myndir af stærðfræðivinnu yngsta stigs og þar má sjá að stærðfræðivinna í skólanum snýst um ótal margt fleira en að vinna með tölur á blaði.  Stærðfræði er svo margt meira en það og finnst í flestu sem við gerum með einum eða öðrum hætti.

Við erum byrjuð að skipuleggja skóladagatal næsta vetrar því nú langar okkur að fara af stað með samvinnuverkefni milli allra skóla á norðanverðum Vestfjörðum sem felst í að innleiða það sem kallað er leiðsagnarnám. Ef af verður mun það krefjast þess að sem flestir starfsdagar skólanna séu sameiginlegir og til að það megi verða þurfa allir að gefa eitthvað eftir af sínum óskum.  Leiðsagnarnám felur í sér að efla ábyrgð nemenda á eigin námi með því að hvetja þá sífellt til að hugleiða eigin framfarir og hvaða tækni þeir geta notað til að læra hluti. Gera þá meðvitaða um hvað þarf til að læra og byggja upp hugarfar vaxtar þannig að nemendur skiljið að tilsögn til þeirra og leiðréttingar eru ekki gerðar til að setja út á þá heldur til að veita þeim tækifæri til að gera betur.

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 15. janúar 2021

Fréttir vikunnar 11.-15.janúar 2021

1 af 2

Skólastarfið hefur gengið mjög vel þessa viku og veðrið leikið við okkur.  Nemendur hafa verið að fást við fjölbreytt viðfangsefni sem öll miða þó að því að efla þroska þeirra og veita þeim tækifæri til að læra eitthvað nýtt. 

Á öllum skólastigum leggjum við megináherslu á uppbyggingu orðaforða og skilning á tungumálinu, en reynum að gera það sem mest í gegnum leiki eða verkefni þar sem sköpun og leikgleði fá að njóta sín.  Með þessari frétt fylgja myndir af vinnu yngsta stigs þar sem annars vegar verið var að finna orð sem hafa stafinn ,,l“ í sér og hinsvegar að reyna að flokka orð í falleg og ljót. 

Miðstigið er að vinna mikið með kurteisi þessa dagana og hvað hægt er að gera til að námsaðstæður nemenda verði sem allra bestar. Þar fóru fram samræður um hvað bæði kennarar og nemendur gætu gert til að auka líkur á vinnufriði svo hægt væri að ná betri árangri.  Þetta er umræða sem stöðugt þarf að vera í gangi til að nemendur skilji að þeir sjálfir eru aðal hreyfiaflið í uppbyggingu námsumhverfis.  Við vitum að þið foreldrar og velunnarar skólans aðstoðið okkur í báðum þessum verkefnum því ykkar þáttur í uppeldi og mótun viðhorfa barna ykkar er auðvitað risastór.

Í næstu viku eigum við von á uppfærslu tölvubúnaðarins í skólanum og munum við þá losna við ,,ceroclientana“ sem við höfum verið með í stað raunverulegra tölva og hlökkum við mikið til þess.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í skólanum

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 8. janúar 2021

Fréttir vikunnar 4.-8.janúar 2021

Sameiginleg bókahilla
Sameiginleg bókahilla
1 af 2

Gleðilegt nýtt ár ágætu lesendur

Þessi fyrsta vika okkar hefur gengið glimrandi vel. Mánudaginn 4.jan. vann starfsfólk að innra mati á skólastarfinu. Í þeirri vinnu leggjum við drög að áhersluatriðum komandi mánaða og næsta skólaárs á grundvelli þeirra áhrifa sem við sjáum af núverandi verkefnum.  Við munum halda áfram að leggja áherslu á uppbyggingu orðaforða hjá öllum nemendum og það gerum við helst í gegnum lestur, samræður og almenna vinnu með samhengi tungumálsins.  Þá ætlum við einnig að leggja enn meiri áherslu á almenna kurteisi þar sem rannsóknir sýna bein tengsl milli þess að vera fær um- og hafa vilja til að sýna kurteisi og almennrar vellíðunar.

Þá var einnig tekin ákvörðun um að undirbúa ekki hefðbundna árshátíð á þessu skólaári. Það gerum við í ljósi frétta af bólusetningum þar sem við teljum ólíklegt að leyfi verði komið fyrir stórum samkomum í lok mars. Ef það breytist munum við rigga upp einhverri skemmtun fyrir foreldra og aðra velunnara okkar.

Eftir að nemendur hófu skólagöngu þann 5.jan. hefur allt gengið sinn vanagang, það tók smá tíma fyrir marga að komast í gang aftur en í dag eru allir komnir í vinnugír og ákveðnir í að leggja sig vel fram á nýju ári.  Eins og áður sagði er lestur eitt af okkar áhersluverkefnum og í vikunni settum við upp bókahillu þar sem við söfnum í titlum þeirra bóka sem við lesum.  Hugmyndin er svo að veita viðurkenningu þegar búið er að fylla í ákveðnar hillur. Þetta er 100% samvinnuverkefni því bækur eru ekki merktar einstaklingum enda gengur okkur mun betur þegar við hjálpumst að heldur en þegar við erum í samkeppni.

Með þessari frétt fylgir einnig mynd frá fyrsta náttúrufræðiverkefni vorannar hjá miðstigi, nemendur fóru út og náðu snjó sem þeir bræddu og fylgdust með hvernig rúmmál hans minnkaði eftir því sem hitinn óx.

Að lokum ítrekum við svo óskir okkar um aðstoð við að koma upp búningasafni í skólanum.

Í vinnu nemenda við áhugasviðsverkefnin eru oftar en ekki teknir upp ýmiskonar leikþættir og nú langar okkur til að koma okkur upp ,,búningasafni“ í skólanum. Það er að koma okkur upp safni af húfum, höttum, veskjum og jafnvel hárkollum og öðru sem nota má til að búa sér til fjölbreytt gervi.  Við yrðum þakklát ef þið eigið eitthvað slíkt sem þið væruð til í að gefa okkur.

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

 

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 18. desember 2020

Jólakveðja

Hurðaskreyting með qr kóða
Hurðaskreyting með qr kóða
1 af 5

Þessi vika hefur einkennst af jólastússi og gaman hefur verið að sjá hversu hugmyndaríkir kennararnir eru að finna verkefni sem tengjast bæði námsgreinum grunnskólans og jólunum.  Í áhugasviðsverkefninu var unnið með þemað ,,jólamyndir“ og út frá því skreyttu nemendur hurðar skólans. Þeir lærðu jafnframt að setja inn qr kóða með upplýsingum eins og sjá má á einni af myndunum sem fylgja þessari frétt. Ef tekin er mynd af kóðanum fást upplýsingar um út frá hvaða bíómynd útfærslan er og hvaða stærðfræði kom við sögu við gerð skreytingarinnar.

Í dag héldum við litlu jólin með óvenjulegu sniði sem kennir okkur um leið að það er alveg hægt að víkja frá hefðum og það getur bara verið skemmtilegt þegar fólki tekst að gera það besta úr því sem hægt er eins og við teljum að hafi verið gert hér í dag. Allir lögðu sig fram um að gera daginn skemmtilegan, við fengum óvænta heimsókn frá jólasveinunum frá Þingeyri, heimajólasveinarnir létu einnig sjá sig og gáfu krökkunum mandarínur, nemendur skiptust á pökkum og kennararnir lásu sögur og sungu með hópunum sínum. Svo fengu allir að prófa sleða jólasveinsins sem búinn er að vera í smíðum hjá fablab-hópnum undanfarnar vikur. Þau hafa að vísu notið góðrar aðstoðar sem sýnir einmitt hvað hægt er að gera þegar allir hjálpast að.

Skólablaðið verður væntanlega selt í byrjun næstu viku.

Við óskum ykkur góðrar hátíðar og vonum að allir hafi það sem best.

Skólinn hefst aftur þriðjudaginn 5.janúar samkvæmt stundaskrá.

Bestu jólakveðjur frá starfsfólkinu í skólanum.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | laugardagurinn 12. desember 2020

Fréttir vikunnar 7.-11.desember

Ævar Þór les fyrir nemendur
Ævar Þór les fyrir nemendur
1 af 3

Þessi vika var um margt viðburðarík hjá okkur og sum verkefni hennar sýndu okkur með áþreifanlegum hætti að þó að maður búi landfræðilega séð á enda veraldar þarf það ekki að trufla það að maður geti haft samskipti við fólk víða að og notið menningarviðburða, jafnvel þó að þeir séu langt í burtu. 

Við fengum upplestur frá Ævari vísindamanni, hann las fyrir miðstigið úr bókinni sinni ,,Þín eigin undirdjúp“. Krakkarnir voru áhugasamir og spurðu margra spurninga, þetta var kannski ekki eins og að fá rithöfund í eigin persónu á staðinn en kostaði líka bara brotabrot af því sem það hefði kostað og var mjög skemmtilegt.

Svo fylgir með þessari frétt mynd af miðstiginu þar sem krakkarnir voru að gæða sér á pitsusnúðum sem þeir bökuðu með kennaranum sínum í viðurkenningarskyni fyrir góða ástundun í lestrarátaki síðustu vikna. 

Á föstudaginn var svo unglingastigið þátttakandi í fjölþjóðlegri ráðstefnu um mannréttindi í tengslum við Erasmus+ verkefnið okkar. Þetta var síðasti hluti þeirrar vinnu og þessi partur var skipulagður af okkur hér á Íslandi og við stýrðum þessari ráðstefnu.  Nemendur frá samstarfslöndunum áttu að að heimsækja okkur í þessari lotu en auðvitað var það ekki hægt.  Krakkarnir gerðu í staðinn flott myndband af áhugaverðum stöðum á Íslandi undir tónlist frá Mugison til að sýna þeim sem ekki fengu að koma í heimsókn.  Í verkefnavinnunni lögðum við áherslu á hvað einstaklingar gætu gert til að vinna með því að mannréttindi séu virt og fengum meðal annars fyrirlestra frá Amnesty International.  Krakkarnir voru búnir að kynna sér málefni íbúa Chagoseyja og greina hvernig nánast allar greinar Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna voru brotnar af Bretum þegar þeir voru fluttir burt frá heimkynnum sínum í kringum 1970.  Nemendur okkar gerðu líka samantekt yfir hvað þeir eru búnir að læra í allri þessari mannréttindavinnu sem við höfum verið í síðustu tvö ár. Hlekkur á myndbandið með þeirri samantekt er hér https://youtu.be/pfq1xE5GG7Y

Næsta vika

Næsta vika er síðasta skólavikan fyrir jólafrí.  Vegna sóttvarnafyrirmæla munum við ekki vera með venjulega jóladagskrá að þessu sinni. Skóladagarnir verða að mestu hefðbundnir mánudag til fimmtudags þó að eitthvað verði gert af jólaföndri og við reynum að hafa dagskránna létta.  Á föstudaginn eru svo litlu jólin í skólanum. Þá er skóli frá klukkan 9:00 -11:30 og ekki hádegismatur í skólanum.  Þá er gert ráð fyrir að nemendur komi prúðbúnir í skólann og kennararnir sjá um að dagskráin verði bæði hátíðleg og skemmtileg. Við höldum í þá hefð að hafa pakkaleik á litlu jólunum, allir nemendur eru beðnir að koma með litla gjöf í skólann þann dag, hún má ekki kosta meira en 1000 krónur. Nemendur draga svo um hver fær hvaða gjöf. 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 4. desember 2020

Fréttir vikunnar 30.nóv-4.des. 2020

Allir spenntir yfir jóladagatali Samgöngustofu.
Allir spenntir yfir jóladagatali Samgöngustofu.
1 af 2

Nú í upphafi aðventu er rétt að nefna aftur að eins og áður munum við leggja áherslu á að hafa jólaundirbúning í skólanum lágstemmdan. Mörg börn eru spennt og við viljum ekki auka á spenninginn að óþörfu. Það mun samt verða smá föndur og sungin jólalög og litlu jólin verða á sínum stað þó að þau verði með breyttu sniði þetta árið vegna sóttvarnafyrirmæla.  Þá er líka rétt að geta þess að Ísafjarðarbær, eins og flest sveitarfélög, hefur sett saman verklagsreglur vegna þeirra sem ferðast til útlanda um jólin og þær voru sendar til foreldra í tölvupósti nú rétt í þessu.

Í þessari viku lauk formlegu lestarátaki miðstigsins.  Þar kepptust nemendur við að lesa sem flestar mínútur á heilum mánuði.  Alls lásu nemendur 16 231 mínútur aukalega þennan mánuð og sá sem las mest las 4900 mínútur eða tæplega 82 klukkustundir.  Veitt voru heildarverðlaun fyrir bekkinn sem mun fara í margskonar skemmtilega dagskrá í næstu viku vegna þessa og svo einstaklingsverðlaun fyrir bestu ástundunina. 

Yngsta stigið tekur þátt í jóladagatali Samgöngustofu með kennaranum sínum á virkum dögum og það væri nú gaman ef einhverjir gætu tekið þátt um helgar líkar og svo fengu  nemendur 3. og 4. bekkjar eldvarnafræðslu frá Slökkviliði Ísafjarðarbæjar í dag

Hlekkur á dagatalið er hér Jóladagatal Samgöngustofu (umferd.is)

Búningasafn

Í vinnu nemenda við áhugasviðsverkefnin eru oftar en ekki teknir upp ýmiskonar leikþættir og nú langar okkur til að koma okkur upp ,,búningasafni“ í skólanum. Það er að koma okkur upp safni af húfum, höttum, veskjum og jafnvel hárkollum og öðru sem nota má til að búa sér til fjölbreytt gervi.  Við yrðum þakklát ef þið eigið eitthvað slíkt sem þið væruð til í að gefa okkur.

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

Eldri færslur

« 2021 »
« Febrúar »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28            
Vefumsjón