Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 12. október 2018

Fréttir vikunnar 8.-12.október 2018

Þessi vika hefur verið nokkuð róleg hjá okkur í skólanum.  Sundkennsla er þó hafin og raskar hún venjubundinni stundatöflu nokkuð.  Það verður líka sund mánudaginn 15.okt. og svo byrjum við aftur þriðjudaginn 23.október.  Eins og núna munu nemendur þá fara í sund á hverjum degi.

Við fengum erlenda gesti á miðvikudaginn, en þá komu kennararnir frá Grikklandi, Búlgaríu, Hollandi og Svíþjóð sem við munum verða í samstarfi við næstu tvö árin, í Erasmusverkefninu, í heimsókn.  Þeir skoðuð skólann og fannst mikið til um hvað aðstaðan hér er almennt góð.  Svo fóru þeir í ,, Seafood trail” gönguna og voru yfir sig ánægðir.

Í dag fóru svo nemendur unglingastigsins yfir á Þingeyri á fyrirlestur hjá Siggu Dögg, kynfræðingi og vonandi koma allir fróðari heim.

Við erum búin að fá fyrstu niðurstöður okkar úr lesfimi þetta árið.  Þar sjáum við hvernig okkar krakkar standa miðað við landsmeðaltal.  Við erum hærri en landsmeðaltal í einum árgangi, á landsmeðaltali eða alveg við það í fjórum árgöngum en undir því í fimm árgöngum.  Það er margsannað að æfingin skapar meistarann og það á við í lestrinum eins og í öllu öðru.  Mig langar því að biðja ykkur, ágætu foreldrar, að muna eftir að hlusta á krakkana ykkar lesa í að minnsta kosti 15 mínútur á hverjum virkum degi.  

Ég minni svo að lokum á að enn vantar okkur fjóra fulltrúa í stjórn foreldrafélagins.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 5. október 2018

Öðruvísi-leikarnir

1 af 3

Í dag voru ,,Öðruvísi-leikarnir” haldnir í Grunnskólanum á Suðureyri.  Öðruvísi-leikarnir er árviss samkoma nemenda í 1.-7.bekk í minni skólunum á norðanverðum Vestfjörðum  og eru hugsaðir sem mótvægi við stóru íþróttahátíðina í Bolungarvík og til að gefa krökkunum tækifæri á að kynnast milli skóla.  Skólarnir skiptast á að halda leikana og í ár var það Grunnskólinn á Suðureyri sem sá um skipulagningu.  Farið var í leiki, unnin stöðvavinna og endað með grillveislu.  Svona leikjadagur hefur margvíslegt gildi.  Nemendur vinna saman í hópum að verkefnum sem reyna á fjölbreytta hæfni og með krökkum sem þeir þekkja oft lítið. Við slíkt reynir á sveiganleika, samvinnu og samskiptafærni.  Eldri nemendur taka ábyrgð á leikjastöðvum og aðstoða þá yngri eftir þörfum og fá við það tækifæri til nýta eigið frumkvæði og sýna hjálpsemi.  Að mínu mati eru þetta gildi sem mikilvægt er að rækta alla daga og eitt það besta sem við getum sent nemendur með út í lífið er að vera sveigjanlegir, samvinnufúsir, hjálpsamir og færir um að sýna frumkvæði.  Í lok dagsins heyrði ég stúlku sem var í pylsuröðinni segja:,,Vá, ég eignaðist þrjá nýja vini í dag”.  Þetta var eitt af þeim atvikum sem fær kennarann til að brosa út að eyrum og hugsa ,,sannarlega höfum við gert gagn í dag”. Takk fyrir frábæran dag nemendur og starfsmenn.

Í næstu viku verður svo sund hjá öllum nemendum á hverjum degi.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | fimmtudagurinn 4. október 2018

Foreldrafélag og skólaráð

Vel gekk að fá fulltrúa í skólaráð og nú vantar okkur aðeins fulltrúa samfélagsins og samkvæmt reglugerð á ráðið að gera tillögu um hann á fyrsta fundi.

Af foreldrafélaginu er það að frétta að einn stjórnarmaður úr núverandi stjórn er tilbúinn að halda áfram.  Það er hún Ólöf Birna.  Okkur vantar því fjóra foreldra sem eru tilbúnir að koma í þetta verkefni með henni.  Þetta er ekki mjög mikil vinna en mjög mikilvæg fyrir nemendur og samfélagið.  Það væri frábært að fá sjálfboðaliða í þetta.

Kveðja
Jóna

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | fimmtudagurinn 4. október 2018

Sundkennsla


Nú horfa mál til betri vegar með sundkennsluna og hefst hún á mánudaginn.  Kennt verður dagana 8.-12. október og svo 23.-26.október.  Allir hópar fara í sund á hverjum degi.  Þessa daga verða því ekki aðrar íþróttir.  Í vikunni þarna á milli langar okkur að hafa útiíþróttir ef veður verður sæmilegt en geta farið inn ef það verður leiðinlegt.
Kveðja
Jóna

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 28. september 2018

Helstu fréttir liðinnar viku

Nemendur saman í leik.
Nemendur saman í leik.
1 af 3

Á þriðjudaginn kom Þorgrímur Þráinsson rithöfundur og fótboltakeppi í heimsókn til okkar.  Þá komu líka til okkar nemendur frá Þingeyri og Flateyri.  Þorgrímur var með fyrirlestur sem tengist lífsleikni fyrir unglinga og skapandi skrifum fyrir miðstig.  Meðan Þorgrímur var með unglingana var miðstigið allt saman í leikjum með Óskari og svo öfugt.  Þarna fór saman hin besta skemmtun og fræðsla.  Á þriðjudag og miðvikudag voru svo haustfundir foreldra og þakka ég ykkur, ágætu foreldrar, kærlega fyrir góða mætingu og þátttöku í umræðum.  Þegar börnin okkar upplifa að við stöndum saman um nám þeirra og uppeldi gengur okkur best.  Á fimmtudag og föstudag þreyttu svo nemendur 4.bekkjar sín samræmdu próf og allir lögðu sig fram og gerðu sitt besta.  Á fimmtudaginn skelltum við okkur líka í Norræna skólahlaupið.  Nemendur skólans hlupu samtals 252 kílómetra, eða 6,2 kílómetra á hvern nemanda.  Það er aldeilis vel af sér vikið.

Næsta vika verður ekki viðburðalaus frekar en aðrar.  Á mánudaginn er yngsta stigi boðið á óperu um Gilitrutt í Edinborgarhúsinu.  Á miðvikudag er starfsdagur hjá okkur og frí hjá nemendum og á föstudaginn verða svo ,,öðruvísileikarnir”.  Þá koma nemendur frá Þingeyri, Flateyri og Súðavík og við verðum með sameiginlega dagskrá sem endar með grillveislu klukkan 12:00.  Það væri frábært ef einhverjir foreldrar gætu komið og aðstoðað okkur við það.

Nokkrar myndir frá vikunni fylgja hér með.

Nú erum við búin að finna sundkennara og verður kennsla vikurnar 8.-12.okt og 23.-26.okt.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | miðvikudagurinn 26. september 2018

Á morgun, fimmtudaginn 27.september

Ef veður leyfir ætlum við að skella okkur í Norræna skólahlaupið klukkan 10 í fyrramálið.  Allir sem  vilja eru velkomnir með og boðið verður upp á hreyfingu við allra hæfi.  Að hlaupinu loknu munum við bjóða upp á ávexti.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 21. september 2018

Í vikulokin

Það koma líklega aldrei alveg hversdagslegar vikur í skólanum.  7. bekkur tók sín samræmdu próf í þessari viku og hver svo sem niðurstaðan verður get ég sagt með sanni að allir vönduðu sig og gerðu sitt besta. 

Mér finnst afskaplega gaman að sjá hvað krakkarnir hér á Suðureyri leika sér skemmtilega saman í skotbolta í frímínútum þó að auðvitað komi stundum hnökrar í þann leik eins og annan.  Annan leik sem ég sá í fyrsta skipti á skólalóðinni í dag og kalla ,,hanaslag" ræddi ég um við krakkana.  Sá leikur gengur út á að hlaupa hver á annan, helst þar til annar aðilinn fellur.  Ég tók þá einhliða ákvörðun að banna slíka ofbeldisleiki á skólatíma og hef látið krakkana vita af því.

Í næstu viku verða foreldrafundir á þriðjudag og miðvikudag.  Okkur langar til að ræða við ykkur um ýmsa þætti er snúa að skólagöngu barna og samstarfi heimila og skóla.  Á þriðjudaginn eigum við líka von á Þorgrími Þráinssyni rithöfundi sem verður með innlegg fyrir unglingastig og miðstig og þá fáum við jafnframt heimsóknir frá krökkunum á Flateyri og Þingeyri sem verða með okkur í þessu.  4.bekkur fer svo í samræmt próf á fimmtudag og föstudag svo það er alltaf nóg að gera hjá okkur.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 21. september 2018

Litaþemavika nemendaráðs

Vikuna 24. – 28. september er nemendaráðið með litaþemaviku.

Mánudagur:  Bleikur

þriðjudagur:  Grænn

miðvikudagur: Blár

fimmtudagur: Rauður

föstudagur: Svartur og hvítur.     

Vonandi sjáum við sem flesta taka þátt.

Kveðja, nemendaráðið

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | þriðjudagurinn 18. september 2018

Samræmd próf og fleira

1 af 3

Í þessari viku og þeirri næstu verða haldin samræmd próf í stærðfræðui og íslensku í 4. og 7. bekk á Íslandi.  Þessi próf eru hugsuð til að meta stöðu nemenda og framfarir miðað við landsmeðaltal í afmörkuðum þáttum þessara námsgreina.  Þó að samræmd próf séu ekki algildur mælikvarði á gæði skólastarfs ber samt að taka þau alvarlega þar sem þau meta tiltekna þætti og gefa ákveðnar vísbendingar um hvernig skólum gengur að stuðla að framförum hjá nemendum sínum í þessum þáttum.  Við höfum verið að undirbúa nemendur með ýmsum hætti fyrir prófatökuna.  Þeir hafa fengið að reyna sig við gömul próf og gera tilraun með prófaðstæðurnar svo hægt sé að takmarka það sem mun koma þeim á óvart.  Ykkar hlutverk, ágætu foreldrar, er að gæta þess enn betur en venjulega að börnin komi vel úthvíld og með gott nesti og séu þannig betur í stakk búin til að gera sitt besta þessa daga.  

En skólastarfið snýst um fleira en samræmd próf.  Haustdagarnir hafa verið nýttir til margvíslegra tilrauna, bæði úti og inni, í náttúrufræði og fleiri greinum.  með þessari frétt fylgja myndir af nemendum elstu deildar að rannsaka kertaloga.

Sara Hrund Signýjardóttir Sara Hrund Signýjardóttir | fimmtudagurinn 13. september 2018

Ruslatínslugöngutúr

Nemendur úr 7.- 10.bekk fóru í morgunsárið í ruslatínslugöngutúr. Gengið var framhjá Íslandssögu sem leið lá að nýju búðinni, út á Eyrargötu og til baka um Aðalgötu. Göngutúrinn tók ekki nema um 30 mínútur, en magnið af rusli sem fannst á leiðinni var með ólíkindum. Mest var um sígarettustubba og umbúðir utan af matvöru ýmiskonar. 

Markmiðið með slíkum göngum er að vekja áhuga og athygli nemenda á umhverfinu, rusli og umgengni mannsins við náttúruna. 

Meðfylgjandi mynd sýnir brot af því rusli sem tínt var. 

Eldri færslur

« 2018 »
« Október »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      
Vefumsjón