VALMYND ×

Fréttir vikunnar 26.-30. okt. 2020

Bekkjarsáttmáli elsta stigs
Bekkjarsáttmáli elsta stigs
1 af 3

Vinna með samskipti er rauður þráður í öllu skólastarfi. Með þessari frétt fylgja meðal annars myndir af bekkjarsáttmálum elsta stigs og miðstigs. Það sem er svo skemmtilegt við bekkjarsáttmálavinnuna er að í henni kemur vel fram að nemendur vita alveg hvernig þeir vilja vera og hvernig þeir vilja hafa skólastarfið, þeim tekst bara ekki alltaf að fara eftir því. En fyrsta skrefið er að skilgreina fyrir sjálfum sér hvernig maður vill vera og hafa hlutina og svo þarf maður að æfa sig og fá ábendingar bæði þegar tekst vel og illa.

Það styttist nú bæði í lestrarhátíðina okkar og í foreldraviðtölin. Samkomutakmarkanir og sóttvarnir hafa sett heilmikið strik í allt samstarf hjá okkur það sem af er þessu skólaári og við höfum verið að leita leiða til að finna lausnir á því. Við gerum ekki ráð fyrir að búið verði að létta þessum takmörkunum í þriðju viku nóvember þegar bæði lestrarhátíðin og foreldraviðtölin eru á dagskrá. Við erum orðin vön að nota forritið zoom við ýmsar aðstæður og ætlum að gera tilraun með að nota það til að bjóða ykkur til þátttöku í þessum viðburðum. Varðandi lestrarhátíðina munum við biðja þá sem vilja fylgjast með upplestrinum að senda okkur póst með nokkurra daga fyrirvara og þeir fá þá síðan póst til baka frá okkur með hlekk til að smella á til að fylgjast með í beinni útsendingu. Varðandi foreldraviðtölin munu þau fara fram með sama hætti, það er hvert foreldri fær hlekk frá okkur sem það smellir á og þá mun opnast fundur.  Í báðum tilvikum munum við senda fundarboðin með skömmum fyrirvara svo við biðjum ykkur að fylgjast vel með þessu þegar nær dregur.

Skólavefurinn var að setja í loftið síðu til að aðstoða krakka með pólskan bakgrunn við að ná betri tökum á íslensku, hlekkur á síðuna er hér https://nytt.skolavefurinn.is/namsgrein/islenska-bekkir/nybua/laerum-islensku-polska

Nýja trommusettið okkar var tekið í notkun í dag og er þetta allt annað líf bæði fyrir nemendur og starfsmenn og gerir einnig kleift að færa trommukennsluna á hærra plan því nú verður hægt að tromma með lögum.  Við þökkum Klofningi og  Kvenfélaginu Ársól kærlega fyrir að styðja þetta verkefni og allan annan stuðning í gegnum tíðina.

Nú rétt í þessu var ríkisstjórnin að kynna hertar sóttvarnareglur. Ljóst er að þær munu hafa áhrif á skólastarfið þar sem boðaðar eru takmarkanir sem eiga að gilda fyrir alla fædda eftir 2015. Ráðamenn gefa sér helgina til að vinna reglugerð sem við eigum að fara eftir.  Miðað við það sem við þó vitum gerum við ráð fyrir að þurfa að endurskipuleggja stundatöflur nemenda og verðum því með skipulagsdag á mánudaginn. Sem sagt ekki skóli hjá nemendum á mánudaginn.

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.