VALMYND ×

Fréttir vikunnar 6.-10.maí

Númi og Stefán tala saman
Númi og Stefán tala saman
1 af 6

Mánudaginn 6 maí var aðalfundur foreldrafélags Grunnskólans á Suðureyri. Á dagskrá var erindi frá skólastjóra, almenn fundarstörf og önnur mál.

Jóna talaði um verkefnin sem verða farið í á næsta skólaári, meiri samþættingu námsgreina, aukna vinnu í heimanámi og fræðslufundi fyrir kennara.  Einnig um möguleika á að hafa viðbótarkennslu í íslensku þegar annarri kennslu er lokið.  Jóna ræddi líka um tilfinningar barnanna varðandi afmælisboð og hversu mikils virði þau eru fyrir nemendur og bað foreldra að gera það sem þeir gætu til að koma í veg fyrir að einhverjum nemendum liði illa vegna þess að þeim væri ekki boðið í afmæli.  Frá foreldrum sem mættu á fundinn komu þær athugasemdir að gott er að leyfa börnunum að ráða hverjum er boðið en það sé alltaf á valdi foreldra hverjum sé ekki boðið, þannig það sé foreldrið sem passi að ekki sé verið að skilja út undan. Einnig kom sú athugasemd að það er líka leiðinlegt fyrir þau börn sem ekki fá að bjóða í afmælið sitt, hvað þeim líður í raun illa með það.

Farið var yfir ársreikning félagsins og skoðað hvaðan peningarnir voru að koma og í hvað var verið að nýta peningana. Ólöf hættir í stjórn, Lilja heldur áfram þar sem Gunnhildur flutti í burtu í vetur. Nýjar í sjtórn eru þær Monika Tyszkiewicz og Katarzyna Maliszewska, eru þær boðnar velkomnar til starfa á meðan Ólöfu er þakkað fyrir sitt framlag.

Ekki voru nein önnur mál tekin fyrir á fundinum.

Önnur verkefni þessarar viku í skólanum voru þau helst að við fengum brúðuleikhús sýningu um ofbeldi gegn börnum frá Vitundarvakningu gegn kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi á börnum sem er samstarfsverkefni Velferðarráðuneytis og Barnaverndarstofu. Sýningin er ætluð yngri nemendum og hjá okkur horfðu allir nemendur í 1.-4. bekk á hana að þessu sinni.  Bréf hefur verið sent heim til foreldra vegna þessa.

Nemendur á unglingastigi hafa verið að ljúka við glærusýningu um greinar 16-21 í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjoðanna, sýningin og vinnan þeirra verður kynnt í Ersamus+ heimsókninni til Svíþjóðar nú í lok maí. Nemendur yngsta- og miðstigs unnu saman með málshætti í vikunni og lauk þeirri vinnu með sameiginlegri flokkun og pælingum um merkingu málsháttanna.  Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var mikil gleði í þessari samvinnu enda sérlega skemmtilegt fyrir nemendur að fá tækifæri til að vinna saman óháð aldri.

Þá tel ég rétt að geta þess að fræðslunefnd hefur lagt til við bæjarstjórn að undirrituð verði ráðin áfram sem skólastjóri hér við grunnskólann.

Kveðja

Jóna