VALMYND ×

Sigur í Vestfjarðarriðli Skólahreystis

Við æfingar á árinu áttuðum við okkur strax á því að við vorum með fullt af duglegum og flottum stelpum en vantaði stráka til að keppa í Skólahreysti. Undirritaður fór í heimsókn á unglingastigið í Súðavík og tók eftir því að þar voru ekkert nema strákar og örfáar stelpur. Í kjölfarið var því ákveðið í samráði stjórenda skólana að í ár yrðu Grunnskólinn á Suðureyri og Súðavíkurskóli með sameiginelgt lið.

 

Við Hera, Hjördís og Þórunn héldu af stað til Reykjavíkur í hádeginu á þriðjudaginn. Komið var við í Súðavík og þeir Flóki, Gabríel og Ragnar slógust í för ásamt Karlottu sem hefur séð um þjálfun þar. Sameiginlegt lið var því sameinað og haldið suður. Við komum við og fengum okkur salat áður en gist var í þessu líka fína glæsihýsi í Kópavogi.

 

Miðvikudagurinn var tekinn snemma. Það stóð til að allir væru komnir niður í morgunmat kl 09:00 en þar sem allir voru vaknaðir borðuðum við morgunmat upp úr 08:00. Væntanlega einhver spenna í mannskapnum. Hafragrautur og ávextir  fyrst og svo gripum við ávaxtaþeyting og súkkulaði á leiðinni í TM Höllina í Garðabæ.

 

Hópurinn fékk góðan tíma til að skoða sig um brautina og æfingarnar. Skráði sig inn og teknar voru myndir af þeim. Spennan var í hámarki kl 13:00 þegar keppnin hófst en með okkur í riðli voru Grunnskólinn á Ísafirði, Grunnskólinn í Bolungarvík og Patreksskóli.

 

Flóki stóð sig mjög vel og vann bæði upphífingar og dýfur. Hjördís vann armbeygjur en náði sér ekki alveg á strik í hanginu. Við vorum eigi að síður efst með 13,5 stig, stigi á undan næsta liði. Þá var bara hraðabrautin eftir og ljóst að það lið sem ynni hraðabrautina yrði líklegast sigurvegari keppninnar. Hera og Ragnar stóðu sig stórkostlega og komu í mark á besta tíma ekki bara riðilsins heldur dagsins.

 

Þegar niðurstöðurnar birtust voru komnar 10 refsisekúndur á okkar fólk en eftir samræður við dómara þar sem við þjálfararnir sýndum þeim meðal annars myndband sem við höfðum tekið til að sanna mál okkar, voru refsisekúndurnar fjarlægðar og sameiginlegt lið Grunnskólans á Suðureyri og Súðavíkurskóla stóð uppi sem sigurvegari í hraðabraut og sigurvegari Vestfjarðariðils Skólahreystis 2018.

 

Við þökkum Bolvíkingum, Ísfirðingum og Patreksfirðingum fyrir góða keppni. Þessir skólar og stuðningsmenn þeirra voru sér og sínum skólum til sóma í keppninni. Þetta er í fyrsta skipti sem lið frá Suðureyri eða Súðavík vinnur Vestfjarðariðilinn. Hópurinn fagnaði mikið og innilega. Ennþá í sigurvímu héldum við heim á leið. Stoppuðum á leiðinni og fengum okkur kjúkling og kleinuhring.

 

Úrslit Skólahreystis 2018 verða í beinni útsendingu á rúv miðvikudaginn 2. maí. Við hvetjum þó alla þá sem hafa tök á að koma í Laugardagshöllina og hvetja þennan glæsilega hóp áfram.

 

Hér má skoða myndir frá keppninni og hér er facebook síða skólans, en þar eru myndbönd tekin í keppninni