VALMYND ×

Fréttir vikunnar 19.-23 apríl 2021

Algeng öpp sem nemendur nota
Algeng öpp sem nemendur nota

Þessi vika stutt hjá nemendum, aðeins þrír dagar en það var nú samt góður gangur í málum.

Nemendur 5.bekkjar byrjuðu vikuna á fræðslufyrirlestri frá VÁ Vest um notkun samfélagsmiðla. Það er aldrei of oft talað um notkun þeirra við nemendur og mikilvægt að foreldrar ræði einnig um hvaða hegðun er viðeigandi þar eins og annars staðar. Þá bauðst foreldrum einnig fræðslufundur um sama mál að kvöldi mánudags. Við sem sinnum uppeldi verðum að vera meðvituð um hvað börnin okkar gera á internetinu, við mælum með því að foreldrar skoði reglulega síma nemenda og séu virkir á samfélagsmiðlum ef börnin þeirra eru það. Það verða allir foreldrar að vita hvaða öpp börnin þeirra eru að nota og þekkja helstu virkni þeirra.  Í þessum heimi eru ótal hættur sem börn geta komið sér í með sakleysislegum viðbrögðum og eins senda þau hvert öðru oft skilaboð með orðum sem þau myndu aldrei nota við aðra og lenda svo í vandræðum vegna þeirra. Góð regla er að gera ekkert á samfélagsmiðlum sem þú vilt ekki að ,,amma þín og afi“ frétti af því ömmur og afar nútímans eru einmitt oft mjög virk í þessari notkun.

Sundkennslan hófst á mánudag og sundkennarinn, hún Guðríður Sigurðardóttir er mjög ánægð með framkomu nemenda og færni þeirra í sundi.

Í dag, fimmtudag, var svo starfsdagur í skólanum sem við notuðum til að vinna með innra mat í skólastarfi sem er eitt af verkunum sem allir skólar eiga að vinna og á því grundvallast svo starfsmarkmið næsta skólaárs.  Við þáðum einnig veitingar frá Kvenfélaginu Ársól sem við þökkum fyrir.

Við höfum tekið upp aftur liðinn ,,Orð vikunnar" í síðustu viku var að orðið ,,árrisull" sem nemendur komu með tillögur að hvað þýddu. Einn var með það rétt en önnur góð tillaga var ,, að vakna blautur". Það gefur auga leið að orðið árrisull hlýtur að hafa eitthvað með vatnssull að gera.

Við höfum enn einu sinni fært foreldrafræðsluna til og nú til 18.maí. Vonandi getum við verið með þetta þá en ef ekki færist hún fram á næsta haust.

Á morgun er svo vetrarfrísdagur hjá nemendum og svo skóli næst á mánudag.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í skólanum