VALMYND ×

Öðruvísi-leikarnir

1 af 3

Í dag voru ,,Öðruvísi-leikarnir” haldnir í Grunnskólanum á Suðureyri.  Öðruvísi-leikarnir er árviss samkoma nemenda í 1.-7.bekk í minni skólunum á norðanverðum Vestfjörðum  og eru hugsaðir sem mótvægi við stóru íþróttahátíðina í Bolungarvík og til að gefa krökkunum tækifæri á að kynnast milli skóla.  Skólarnir skiptast á að halda leikana og í ár var það Grunnskólinn á Suðureyri sem sá um skipulagningu.  Farið var í leiki, unnin stöðvavinna og endað með grillveislu.  Svona leikjadagur hefur margvíslegt gildi.  Nemendur vinna saman í hópum að verkefnum sem reyna á fjölbreytta hæfni og með krökkum sem þeir þekkja oft lítið. Við slíkt reynir á sveiganleika, samvinnu og samskiptafærni.  Eldri nemendur taka ábyrgð á leikjastöðvum og aðstoða þá yngri eftir þörfum og fá við það tækifæri til nýta eigið frumkvæði og sýna hjálpsemi.  Að mínu mati eru þetta gildi sem mikilvægt er að rækta alla daga og eitt það besta sem við getum sent nemendur með út í lífið er að vera sveigjanlegir, samvinnufúsir, hjálpsamir og færir um að sýna frumkvæði.  Í lok dagsins heyrði ég stúlku sem var í pylsuröðinni segja:,,Vá, ég eignaðist þrjá nýja vini í dag”.  Þetta var eitt af þeim atvikum sem fær kennarann til að brosa út að eyrum og hugsa ,,sannarlega höfum við gert gagn í dag”. Takk fyrir frábæran dag nemendur og starfsmenn.

Í næstu viku verður svo sund hjá öllum nemendum á hverjum degi.