VALMYND ×

Síðasta vika fyrir jól

Þessi vika var í styttra lagi hjá okkur og að mestu notuð í margskonar jólaundirbúning.  Verkefnin sem nemendur vinna eru þó ekki aðeins ætluð til skemmtunar heldur hafa þau yfirleitt annan tilgang líka.  Á mánudag og þriðjudag voru jólasmiðjur þar sem nemendur unnu margvísleg verkefni sem tilheyra hand-og myndmennt í námskrá, myndasýnishorn af þeirri vinnu fylgja þesari frétt.  Þegar skrifað er á jólakort þarf að stafsetja rétt og æfa sig að beygja samsett nöfn sem reynist mörgum erfitt.  Nemendur á unglingastigi skrifuðu á jólakort til samstarfsskóla okkar í Evrópu og þá reyndi á enskukunnáttuna.  Nemendur á miðstigi forrituðu gluggaskreytingu sem mun loga í jólafríinu, meðan batteríin endast.  Yngsta stigið æfði hefðbundinn helgileik, það getur verið mjög krefjandi að vita hvenær maður á að koma inn, hvenær maður á að tala og hvenær maður má alls ekki tala og þá reynir á einbeitingu og samvinnu.

Í dag voru svo litlu jólin, nemendur komu prúðbúnir í skólann klukkan 9:00 og áttu góða samverustund.

Ég læt hér fylgja litla hugleiðingu frá Stefáni frá Hvítadal sem minnir okkur á hve jólin eru- og hafa verið um langa hríð – mikilvægur hluti af minningum barna.

               Þau lýsa fegurst

               Er lækkar sól

               Í blámaheiði

               mín bernsku jól.

Skóli hefst svo samkvæmt stundaskrá þann 7.janúar 2019.

Eigið góðar stundir um hátíðarnar.