VALMYND ×

Síðasta vika janúar

Hér er sköpunargleðin alls ráðandi
Hér er sköpunargleðin alls ráðandi

Á næsta mánudag verður kominn febrúar og skólaárið meira en hálfnað og áður en við vitum af verður það búið.

Við erum nú að ljúka við að kanna orðaforðaþekkingu og málskilning allra nemenda með prófi sem kallast ,,Milli mála" og er hannað til að meta kunnáttu nemenda sem eru að læra skólamálið sem annað tungumál. Við ákváðum að leggja þetta próf fyrir alla nemendur til að fá tölulegar upplýsingar um orðaforðaþekkingu þeirra. Niðurstöðurnar verða kynntar í foreldraviðtölunum í febrúar. 

Unglingarnir fóru aftur í umferðarfræðslu á Ísafjörð í dag og munu fara aftur næsta föstudag. Þeir láta vel af fræðslunni og vonumst við til að þetta muni gagnast þeim vel.

Okkur finnst við nú vera að ná tökum á verkefninu sem við köllum ,,föstudagsverkefni". Nemendur eru farnir að skilja betur til hvers er ætlast af þeim og leggja meiri vinnu í verkefnin sín og gleði orðin meira áberandi. Þeir eru einnig farnir að skipuleggja tíma sinn betur og eru oft búnir að skipuleggja tvo föstudaga fram í tímann. Til að ramma verkefnið aðeins betur inn settum við nú skilyrði að öll verkefnin yrðu að innihalda í það minnsta eitt verk sem tengdist íslensku, eitt semtengdist stærðfræði og eitt sem tengdist erlendu tungumáli. Þá höfum við nú einnig sett viðmið vegna verkefnisins upp á vegg og kynnt þau fyrir nemendum svo þeir vita nákvæmlega hvað þeir þurfa að gera til að fá góða einkunn fyrir verkefnið sitt. Á þriðjudaginn verðum við svo með ráðgjafa úr Reykjavík sem er að aðstoða okkur við þetta verkefni.