VALMYND ×

Fréttir vikunnar 23.-27.nóv

Okkur er farið að leiðast mjög að geta ekki boðið foreldrum í skólann á ýmsa viðburði og gerðum því tilraun með að bjóða gestum á lestrarhátíðina okkar gegnum fjarfund á zoom á mánudagsmorgun. Krökkunum fannst þetta svolítið skrýtið en þeir stóðu sig mjög vel og við vonum að þeir sem hlustuðu hafi haft gaman af. Börnunum finnst alltaf mjög spennandi að sýna foreldrum sínum það sem þeir eru að vinna að í skólanum og ef samkomutakmörkunum fer ekki að létta gerum við kannski fleiri svona tilraunir.

 Niðurstöður nemendaþings frá 20.nóvember liggja nú fyrir. Nemendur lýstu skoðun sinni á hvað væri mikilvægast að læra í skólanum og flest af því sem þeir nefndu skipar þegar stóran sess í skólastarfinu, eina undantekningin er heimilisfræði, en 50% nemenda finnst hún mjög mikilvæg. Það er ekki alveg einfalt fyrir okkur að auka kennslu í heimilisfræði þar sem við erum bundin af ákvæðum viðmiðunarstundaskrár sem segir til um hversu margir tímar eiga að vera í hverri námsgrein. En okkur datt í hug að foreldrum gæti þótt þetta áhugavert og þeir væru kannski til að hafa þetta í huga við skipulag heimilisstarfa.  Nemendur nefndu nokkur viðfangsefni sem þeir vilja fá að læra um í skólanum en eru ekki með skipulögðum hætti á dagskrá grunnskóla. Við höfum tekið listann saman og stefnum á þemadaga á næsta ári þar sem hægt verður að velja um 5-6 vinsælustu viðfangsefnin sem þarna voru nefnd.  Þá var einnig talsvert rætt um samskipti og ósk nemenda til starfsfólks hefur verið hengd upp á kaffistofu og óskir þeirra til foreldra eru:

Foreldrar eiga að hjálpa okkur með námsefnið og vita hvað er í gangi í skólanum, þeir eiga líka að hjálpa manni með annað sem mann vantar. Þeir eiga að spyrja og taka eftir hvernig okkur líður og styðja börnin sín.

 Á miðvikudaginn vorum við með fræðslufund fyrir starfsfólk um samskipti við fjöl- og tvítyngda foreldra, skólastarf í fjölmenningarumhverfi og pólska skólamenningu. Þetta er partur af þróunarverkefninu okkar og vonandi getum við tekið upp þráðinn með foreldrum þarf sem horfið var frá vegna covid í fyrra vor, við bíðum spennt eftir því. Þær Kriselle og Magdalena sem voru með fræðsluna núna sendu okkur glærur sem eru ætlaðar foreldrum, þær hafa verið vistaðar á heimasíðunni undir ,,skrár“ og heita verkfærakista fyrir foreldra.