VALMYND ×

Fréttir vikunnar 4.-8.nóvember

Lesfimi og námsárangur

Nú erum við komin með niðurstöður bæði úr samræmdum prófum og fyrstu lesfimiprófum Menntamálastofnunar. Heildar árangur okkar nemenda á þessum prófum er ekki eins góður og við viljum hafa hann þannig að ljóst er að við þurfum að sameinast um að huga vandlega að því hvaða leiðir við getum notað til að bæta úr þessu.  Lestrargeta nemenda í okkar skóla er almennt talsvert fyrir neðan landsmeðaltal og þar sem lestur er einn af lykilþáttunum í öðru námi teljum við mikilvægt að byrja þar.  Ég ítreka því mikilvægi þess að nemendur lesi heima í það minnsta fimm sinnum í viku og að þið, ágætu foreldrar hlustið á þá og jafnvel spyrjið þá út úr því sem þeir lásu. Í skólanum leggjum við áherslu á að allir lesi á hverjum degi en við höfum ekki tækifæri til að hlusta á alla nemendur í 15 mínútur á dag sem er sá tími sem sérfræðingar segja að sé nauðsynlegur til að ná árangri og festa hann þannig að lestur verði sjálfkrafa ferli.

Hrekkjavökuball

Nemendur unglingastigs héldu hrekkjavökuball á þriðjudaginn. Flestir mætti í búningum og eldri nemendur stýrðu dansi og leikjum langt fram á kvöld. Nokkrar myndir af gleðinni fylgja með þessari frétt.

Nemendaþing

Í dag vorum við svo með annað nemendaþing ársins, umræðuefnið að þessu sinni var hvað hægt væri að gera til að fyrirbyggja einelti. Nemendur ræddu saman í hópum bæði um skilgreiningar á einelti og um hvað starfsfólk og nemendur gætu gert til að vinna gegn einelti. Flest af því sem nemendur nefndu snerist um viðbrögð við einelti en minna um hvað hver og einn gæti gert til að fyrirbyggja einelti. Það er vísbending fyrir okkur um að við ættum að vinna markvissar að því að fræða nemendur um gagnsemi jákvæðra og góðra samskipta í þessu efni.

Foreldraviðtöl

Dagana 14.- 19. nóvember verða foreldraviðtöl í skólanum. Að þessu sinni ætlum við að vera með viðtölin með breyttu sniði, svokölluð nemendastýrð foreldraviðtöl. Nemendur munu velja hvað þeir vilja sýna foreldrum sínum og hverju þeir vilja segja frá. Kennarar aðstoða nemendur við að undirbúa fundina. Nemendur og foreldrar fá úthlutað tíma þar sem þeir koma saman í skólann, kennarinn verður við í kennslustofunni til að svara spurningum sem upp kunna að koma en áherslan er á að nemendur útskýri fyrir foreldrum sínum hvað þeir eru að læra og hvernig þeir sinna náminu. Þetta er liður í því að efla ábyrgðartilfinningu nemenda fyrir eigin námi og vonandi leið til að auka skilning þeirra á mikilvægi þess að leggja sig ávalt fram um að sinna verkum sínum vel.  Kennarar eru byrjaðir að undirbúa nemendur og það verður spennandi að sjá hvað þeir ákveða að sýna foreldrum sínum. Foreldrar fá fundarboð með tímasetningu fljótlega.

Að lokum

Almennur foreldrafundur verður haldinn í skólanum miðvikudaginn 13.nóvember. Á dagskrá verða tvö stutt en mikilvæg fræðsluerindi, veitingar og svo samræður um einkunnarorð skólans. Fundurinn verður frá kl.17:00 – 19:00. Túlkað verður á pólsku og taílensku og vonandi líka á ensku. Vonandi sjá allir sér fært að mæta því þátttaka ykkar í skólastarfinu skiptir miklu máli fyrir nemendur.