VALMYND ×

Fréttir vikunnar 7.-11.sept 2020

Frá danssýningu á mánudag
Frá danssýningu á mánudag

Það er alltaf eitthvað í gangi hjá okkur og í þessari viku var nemendum boðið á danssýningu í tengslum við verkefnið List fyrir alla. Að þessu sinni var um að ræða sýningu á nútímadansi og á eftir fengu nemendur stutta kennslustund með listamönnunum. Þar sem við vorum hvort sem er komin á Ísafjörð með allan skólann fórum við líka í heimsókn á Bæjarbókasafnið þar sem nemendur fengu kynningu á starfssemi bóksafnsins og að lokum fórum við á ljósmyndasýninguna ,,Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ í Edinborgarhúsinu svo þetta var sannkölluð menningarferð hjá okkur.

Þessa viku höfum við verið að koma nemendum miðstigs einum af öðrum inn í mentor og virkja lykilorðin þeirra. Þar inn setjum við bæði áætlanir og mat á verkefnum og því er mikilvægt að foreldrar virki sinn aðgang líka svo þeir geti fylgst með og aðstoðað eftir þörfum. Ef vandræði eru með það erum við alltaf tilbúin til að aðstoða, þeir sem merktu við á blaðinu í síðustu viku fá hringingu frá okkur og við mælum okkur mót til að græja þetta og aðstoða fólk við að komast af stað og ef fleiri vilja aðstoð er bara að hafa samband.

Nokkur veikindi hafa verið að hrjá nemendur þessa vikuna og við minnum á tilmæli sóttvarnaryfirvalda um að þeir sem eru með kvef, hálsbólgu, hita eða önnur flensulík einkenni haldi sig heima þar til einkenni eru að fullu gengin yfir, hvort sem þeir fara í covid - test eða ekki. Þetta er gert til að minnka líkur á smithættu og á við um börn jafnt og fullorðna.

Í næstu viku eru svo aðeins fjórir skóladagar hjá nemendum þar sem sameiginlegu starfsdagur litlu skólanna á norðanverðum Vestfjörðum verður haldinn föstudaginn 18.september. Þar mun starfsfólk fá fræðslu um jafnréttiskennslu, kynjafræðslu og fleira.

Bestu kveðjur frá okkur í skólanum

Jóna