VALMYND ×

Gestakennari frá Ungverjalandi

Í haust kom til okkar gestakennarinn Gergely Nádori frá Ungverjalandi. Ég kynntist Gergely þegar ég var Scientix sendiherra á íslandi. Hann sýndi því áhuga að koma til Íslands og Suðureyrar og vera hér og kynnast því hvernig við störfuðum og einnig sýna okkur eitt og annað hefðum við áhuga á því. Úr varð að Gergely kom hingað í september og var hjá okkur í þrjár vikur.
Gergely er virtur kennari í Ungverjalandi. Hefur hann hlotið ýmis verðlaun og hefur verið leiðandi í forritunar- og náttúrufræðikennslu þar. Nemendur hans hafa t.d. unnið First Lego League keppnina. Hann er að vinna með micro bit með ínum nemendum og sýndi m.a. nemendum okkar hvernig á að forrita á micro bit, sem er einmitt verið að gefa nemendum í 6. og 7. bekk núna.
Hann krufði fisk með nemendum og fór með þeim að skoða lónið, þau tóku sýni og skoðuðu ýmsar lífverur sem þar eru. Einnig fór góður tími í að ræða Ungverjaland og Búdapest, heimaborg Gergely sem nemendur sýndu mikinn áhuga.
Gergely hafði orð á því að nemendur okkar og Súgfirðingar almennt væru opnir og skemmtilegir, viljugir til þess að ræða við hann og hefðu góða enskukunnáttu. Hann fór í heimsóknir til Þingeyrar, Flateyrar og í menntaskólann og var mjög hrifinn.
Gergely sagði sjálfur að hann hefði verið kennari í yfir 20 ár og hafði áhuga á að skoða eitthvað allt annað en það sem hann hafði séð. Hann kemur úr 600 nemenda skóla í 2 milljóna manna borg og því var það úrvals tækifæri fyrir hann að fá að koma hingað í okkar litla þorp og skóla og sjá hvernig við gerðum hlutina. Það kom honum ánægjulega á óvart hvað skólinn okkar var afslappaður. Hvað nemendur væru duglegir og vinnusamir og að starfsfólk talaði ekki til nemenda með bannorðum og regluáminningum heldur ræddi frekar við þá. Hann tók t.d. eftir því að það virðist ekki vera regla á því hvar hjólum er lagt á skólalóðinni. Honum fannst það þó lítil fórn samanber hversu góður andi væri í skólanum og hversu heilsusamlegt andrúmsloft ríkti milli nemenda og kennara.
Gergely þakkar nemendum, starfsfólki og íbúum kærlega fyrir sig og vonast til að geta heimsótt okkur aftur í framtíðinni.
Við þökkum Gergely kærlega fyrir komuna og bjóðum hann velkominn hvenær sem er aftur til okkar. Fyrir áhugasama er hægt að skoða viðtal við Gergely vegna heimsóknar sinnar hingað sem er búið að fá yfir 7.400 like hér (hægt er að skilja það nokkuð vel með google translate). Einnig má skoða nokkrar myndir sem teknar voru meðan hann var hérna, hér.