VALMYND ×

Vikan 28.janúar-1.febrúar

1 af 3

Það hefur verið góður vinnufriður hjá okkur alla þessa viku. Nemendur eru almennt duglegir og leggja sig fram um að gera sitt besta.  Við höfum verið að vinna með ,,orð vikunnar“ undanfarnar vikur sem felst í því að við setjum upp orð sem ekki er öllum tamt og óskum eftir tillögum að merkingu þess.  Það má nota hjálpargögn en fyrir það fær maður færri stig.  Í þessari viku vorum við með orðið ,,rotinpúrrulegur“ og fengum nokkrar skemmtilegar skýringar og einn nemandi var með það rétt.  Í næstu viku fer orðið ,,kraðak“ á töfluna hjá okkur og ef þið viljið leggja börnunum ykkar lið með það er það alveg sjálfsagt.  Það að leika sér með orð er mikilvægur þáttur í að byggja upp tilfinningu fyrir málinu, hvernig orð verða til og hvað þau þýða.

Hann Óskar sem hefur verið að kenna íþróttir hjá okkur hefur sagt upp störfum og vill fá að hætta sem fyrst.  Við höfum verið að leita að kennara til að fylla í hans skarð og vonandi leysist það í næstu viku.

Við höfum ákveðið að fresta foreldraviðtölum um eina viku enn og verða þau mánudaginn 11. og þriðjudaginn 12. febrúar.  Við vonumst til að sem flestir geti mætt þá.  Ef Ása verður ekki komin til vinnu geymum við foreldrafundi á yngsta stigi aðeins.

Ég minni svo aftur á samtalsfundinn sem við stefnum á að halda þriðjudaginn 26.febrúar frá klukkan 17:00 – 20:00.  Það er ákaflega mikilvægt að við sköpum okkur sameiginlegan skilning á hlutverkum hvers og eins í skólasamfélagin og á svona samræðufundum skapast góður grundvöllur til þess.

Ég vil líka minna ykkur á miðana með mjólkuráskriftinni, þeim þarf að skila til baka á mánudaginn.  Ef einhvern vantar miða er hægt að prenta þá út af heimasíðunni (sjá síðustu frétt).

Ég læt fylgja hér með nokkrar myndir frá síðustu kennslustund þessarar viku.  Unglingarnir buðu öllum með í skotbolta. Eins og sjá má var mikill ákafi í krökkunum og það var virkilega skemmtilegt að ljúka vikunni með þessum hætti.