| laugardagurinn 29. ágúst 2020

Fréttir af skólastarfinu eftir fyrstu viku

Nemendur æfa sig í að hjóla í einfaldri röð
Nemendur æfa sig í að hjóla í einfaldri röð
1 af 2

Skólastarfið fór vel af stað, nemendur mættu glaðir og tilbúnir til að takast á við verkefni vetrarins.

Unglingastigið hóf veturinn með því að ganga yfir Klofningsheiði, leiðin mældist 12,8 km og nokkrir fengu yfir 20 000 skref á símana sína, gönguferðin endaði svo með pylsuveislu á Flateyri. Miðstigið fór í hjóla-og berjatýnsluferð út í Staðardal og yngsta stigið vann ýmis útiverkefni í grennd við skólann. Svona ferðir eru ekki bara farnar til skemmtunar, þær hafa mikið menntunar- og uppeldislegt gildi. Nemendur kynnast umhverfi sínu, læra um náttúruna, fá tækifæri til að takast á áskoranir, sýna hjálpsemi í verki og efla eigin þrautsegju. 

Við erum að vinna í að geta boðið mjólkuráskrift í vetur eins og undanfarin ár en Mjólkursamsalan hefur breytt skilmálum sínum þannig að verð mjólkurinnar til okkar þrefaldast þar sem við kaupum það lítið magn að á það leggst nú fastur sendingakostnaður. Við erum að vinna í að semja við Örnu um að fá mjólk frá þeim og vonandi getum við boðið áskrift frá 7.sept.

Matur verður framreiddur í skólanum frá 1.september og þá fyrst kemur reynsla á nýju stundatöfluskipanina, en nú gerum við ráð fyrir 40 mínútna matarhléi.  Þó að nemendur séu ekki í mataráskrift er þeim að sjálfsögðu heimilt að borða hádegisnesti í skólanum. Nokkrir nemendur fara heim í hádegishléinu, við erum búin að sjá að við þurfum að hafa yfirlit yfir hverjir eiga að fara heim og munum senda nemendur heim með blað þar sem við biðjum ykkur að staðfesta það, ef um það er að ræða.  Þá verður líka að passa að allir komi á réttum tíma til baka eftir matinn en skóli hefst eftir matarhlé klukkan 12:50.  Þá biðjum við foreldra um að gæta þess vel að nesti sem nemendur koma með í skólann sé hollt og samkvæmt ráðleggingum Landlæknisembættisins um næringu. Glærur frá fundinum okkar með næringarfræðingnum í fyrra má finna hér http://grsud.isafjordur.is/skrar/skra/33/

Vegna reglna um sóttvarnir getum við ekki haldið áætlun í verkefninu okkar ,,Náum betri árangri saman" en við erum beðin um að takmarka umgengni gesta um skólann eins og hægt er og því er ekki hægt að fá fyrirlesara með fræðsluefni fyrir foreldra í skólann eins og til stóð.

Flestir nemendur mið-og unglingastigs eru nú komnir af stað með að nota mentor til að skoða vikuáætlanir og mat á verkefnum og biðjum við foreldra um að virkja aðgang sinn svo þeir geti líka fylgst með, því nám barna er jú samvinnuverkefni heimila og skóla.

Næsta vika verður hefðbundin skólavika en í þarnæstu viku förum við á listdanssýningu, heimsókn á Bókasafnið og líklega líka á ljósmyndassýningu en nánari fréttir af því koma þegar nær dregur. 

 

| mánudagurinn 24. ágúst 2020

Mentor fyrir nemendur og foreldra

Sæl verið þið ágætu foreldrar

Við erum spennt að byrja og hlökkum til að vinna með ykkur og krökkunum. Á mið- og unglingastigi ætlum við okkur að nota mentor með markvissari hætti en áður og því er mikilvægt að bæði nemendur og foreldrar séu með virk lykilorð.  Það eruð þið gefið börnum ykkar lykilorð og það getið þið ekki nema vera komin með lykilorð sjálf.

Ef ykkur vantar nýtt lykilorð er hægt að fara á ,,innskráning” og gleymt lykilorð, þá fáið þið lykilorðið sent á netfangið sem er skráð hjá ykkur í mentorkerfi skólans.

Þið getið líka pantað tíma hjá mér og ég leiðbeini ykkur í gegnum þetta.  Munið að við erum hér í vinnu fyrir ykkur og þið eruð ekki að trufla okkur með því að koma eða hafa samband svo endilega sendið póst á jonab@isafjordur.is ef ykkur vantar aðstoð og ég aðstoða ykkur með ánægju.

Ef þið eruð í vandræðum er góða hjálp að fá á heimasíðu mentor og í skjali sem fylgdi með í tölvupósti sem ég sendi áðan eru leiðbeiningar um hvernig má nálgast hana.

 

Kveðja

Jóna

| fimmtudagurinn 13. ágúst 2020

Skólinn fer að byrja :)

Ágætu foreldrar og nemendur

Við erum nú á fullu við að undirbúa skólastarf komandi haustannar og hlökkum til að sjá ykkur. Skólabyrjun verður með hefðbundnum hætti og þið munuð fá boð í markmiðsviðtal í næstu viku, viðtölin fara svo fram mánudaginn 24.ágúst sem er fyrsti skóladagur nemenda.  Við viljum vekja athygli ykkar á því að stundatafla nemenda verður með breyttum hætti þetta skólaárið, allir byrja klukkan 8:00 eins og verið hefur en bæði frímínútur, matarhlé og skólalok breytast hjá öllum hópum. Yngsta stig verður í skólanum alla daga til 13:30, miðstig til 14:10 alla daga og kennslu lýkur hjá unglingastigi ýmist 14:10 eða 14:50.  Nestistímanum að morgni seinkar um 20 mínútur svo nú er enn mikilvægara en áður að nemendur verði búnir að borða morgunmat þegar þeir koma í skólann. Hádegismatur færist hins vegar fram um 20 mínútur svo nú verður engin þörf fyrir aukanesti.  Við stefnum á að nota mentor með markvissari hætti, allavega hjá mið-og unglingastigi, þannig að auðveldara verði fyrir ykkur að fylgjast með námi barnanna ykkar og biðjum við ykkur að vera undirbúin undir það með því að vera örugglega með virkt lykilorð, ef þið lendið í vanda með það komið þá endilega í skólann og fáið aðstoð. Við erum við í skólanum alla næstu viku. Svo er rétt að vekja athygli á því að skóladagatalið er komið á heimasíðuna og þar sjáið þið hvenær er vetrarfrí og þau sérstöku verkefni sem búið er að tímasetja.

Við hlökkum til að byrja að vinna með ykkur og vitum að gott samstarf gerir alla hluti betri.

Kveðja

Jóna

| fimmtudagurinn 11. júní 2020

Sumarið er komið

Ágætu lesendur

Skólinn verður nú lokaður næstu þrjár vikurnar vegna sumarleyfa.

Ég vona að allir velunnarar okkar séu nú búnir að horfa á myndbandið með skilunum á lokaverkefnum nemenda í áhugasviðsverkefninu annars er hlekkurinn hér.

https://www.youtube.com/watch?v=cfGaQH7dnyU&feature=youtu.be&fbclid=IwAR1OK0QvkYlL3Vx7ZQXaaKxT-Zz8Zwg3Ratfez7WzO6j6z49FIi_CBtogYA

| mánudagurinn 8. júní 2020

Lokaverkefni

 

 Myndband um lokaverkefni nemenda er komið á youtube. Það eru smá tæknilegir örðugleikar, það er ef notaður er hlekkur virðist myndbandið byrja á tveggja mínútna niðurtalningu en ef leitað er á youtube eftir ,,Skil á lokaverkefnum 2020" kemur myndbandið beint upp.  Kæru nemendur - takk fyrir vel unnin verkefni. Þetta verður lagað við fyrsta tækifæri.

| föstudagurinn 5. júní 2020

Sumarfrí hjá nemendum

Hér má sjá okkar glæsilegu útskriftarnemendur með umsjónarkennaranum sínum.
Hér má sjá okkar glæsilegu útskriftarnemendur með umsjónarkennaranum sínum.

Síðasti skóladagur nemenda var í gær. Þá fengu nemendur í 1.-9. bekk vitnisburði sína hjá umsjónarkennurum. Þeir voru einnig minntir á mikilvægi þess að vera duglegir að lesa og hreyfa sig í sumar. Þið foreldrar verðið að hjálpa þeim við að viðhalda þeim árangri og framförum sem þeir hafa náð í vetur með því að vera duglegir að minna á lesturinn.  Það er líka mikilvægt að muna að vera í samskiptum við aðra því annars er hætta á að maður einangrist og tíminn verði lengi að líða. 

Nemendur 10.bekkjar komu svo með foreldrum sínum síðdegis, tóku við sínum vitnisburði og kvöddu starfsfólk skólans. Það er mikil eftirsjá fyrir okkur að svona heilsteyptum og duglegum ungmennum úr skólanum en þetta er lífsins gangur og við óskum þeim alls hins besta á komandi tímum.

Þessi vetur hefur um svo margt verið óvenjulegur í skólastarfinu, það gildir bæði um skólabyrjunina. Þá fóru fyrstu tvær vikurnar hjá starfsfólkinu að mestu í að færa til dót og þrífa eftir framkvæmdir sumarsins sem voru bæði óvæntar og mjög umfangsmiklar.

Svo dundi á okkur hvert óveðrið á fætur öðru og oft varð lítið úr skólastarfi vegna þess. Þegar fór að vora tóku við sóttvarnir vegna Covid-19 og í apríl var svo skólinn lokaður í 8 daga vegna þess.

Nemendur og starfmenn sýndu ótrúlega aðlögunarhæfni í þessum skrýtnu kringumstæðum og er það aðdáunarvert.

Við eigum enn uppi í erminni myndbönd sem aðeins er verið að vinna í sem munu birtast hér síðunni um leið og þau eru tilbúin og mun koma tilkynning um það á facebook síðu skólans og svo minni ég að enn er talsvert af óskilamunum í skólanum.

Njjótið sumarsins.

Kveðja frá starfsfólkinu í skólanum

| miðvikudagurinn 3. júní 2020

Skólaslit á morgun

Á morgun slítum við þessu skólaári formlega. Nemendur 1.-9.bekkjar koma og fá sinn vitnisburð kl.10:00 og útskriftarnemendurnir okkar koma svo með gestum sínum kl.17:30, kveðja skólann og starfsmennina og fá sinn vitnisburð.

 

| föstudagurinn 29. maí 2020

Fréttir vikunnar 25.-29.maí

Að skoða hjól
Að skoða hjól
1 af 8

Það er skrýtið að hugsa til þess að síðasta heila vika skólaársins er nú liðin. Það var margt í gangi hjá okkur eins og venjulega. 9. og 10.bekkur lögðu af stað í skólaferðalagið snemma á mánudagsmorgun, þau fóru með Bryndís í ferð um Suðurland og koma heim í dag. Við eigum von á frekari fréttum af ferðum þeirra í næstu viku.

Við fengum heimsókn frá Einari Mikael töframanni sem sýndi töfrabrögð og kenndi okkur nokkur trix, en til stendur að hann kenni unglingunum í Fablab smiðjunni næsta vetur. Eins og sjá má af meðfylgjandi myndum voru nemendur mjög áhugasamir.

Yngsta stig fór í sinn árlega vorleiðangur með elsta hópi leikskólans. Að þessu sinni fóru þau til Súðavíkur og heimsóttu Melrakkasetrið og súkkulaðiverksmiðjuna Sætt og salt. Krökkunum fannst mjög gaman að skoða sýninguna í Melrakkasetrinu en upp úr stóð þó að hafa fengið súkkulaði að smakka.

Loka ,,föstudagsverkefni“ var í gangi hjá okkur miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Vinnan við það gekk vonum framar og nemendum hefur farið mikið fram í sjálfstæði í vinnubrögðum í vetur. Þá eru þeir einnig orðnir áræðnari við ýmiskonar tilraunir og öruggari við að kynna verkefnin sín.  Að þessu sinni voru nokkrir nemendur að afla sér upplýsinga um mótorcross og þá vildi svo til að Edda Björk kennari hafði góð tengsl við áhugamenn um það og fékk þá hingað til okkar til að sýn hjól og búnað.  Það vakti mikla lukku.  Skil á verkefnunum verða á þriðjudaginn og við ráðgerum að taka skilin upp og gera þau sýnileg á heimasíðu skólans.

Í dag var síðasti vinnudagur hennar Emiliu í mötuneytinu hjá okkur og þökkum við henni kærlega fyrir að hafa hugsað svona vel um okkur. Gangi þér vel á nýjum vettvangi Emilia.

Síðasti skóladagur þessa skólaárs er þriðjudaginn 2.júní. Þá byrjum við á að skila lokaverkefnum, gerum svo ráð fyrir að fara í gróðursetningu og eftir það í leiki. Klukkan 12:00 munum við svo grilla pylsur fyrir nemendur og að því loknu fara þeir heim.

Miðvikudaginn 3.júní er starfsdagur og þá leggja starfsmenn lokahönd á vitnisburði nemenda og fleira.

Fimmtudaginn 4.júní eru svo skólaslit. Þau verða með óvenjulegum hætti í ár þar sem enn er mælt með að gæta varúðar vegna smithættu. Nemendur í 1.-9.bekk koma í skólann klukkan 10:00 og fá sinn vitnisburð. Nemendum 10.bekkjar er boðið í skólann síðdegis ásamt forráðamönnum þar sem þeir verða formlega útskrifaðir úr grunnskóla. Nánari tímasetning á því verður ljós á mánudaginn.

| föstudagurinn 22. maí 2020

Fréttir vikunnar 18.-22.maí

Sundkennsla

Sundkennslan í vikunni gekk mjög vel og er hún Guðríður sundkennari hæst ánægð með frammistöðu nemenda, framkomu þeirra og vilja til að taka leiðsögn. Það verður svo líka sund á mánudag og þriðjudag.

Stelpur og tækni

Við fengum boð um að taka þátt í ráðstefnu frá Háskólanum í Reykjavík. Ráðstefnan nefndist ,,Stelpur og tækni“ og var ætluð stelpum í 10.bekk og hefur verið haldin árum saman fyrir Reykjavíkurskólana en var núna rafræn vegna Covid-19 og þá ákváðu aðstandendur hennar að bjóða hana um allt landið.  Þar sem okkar stelpur eru ekki það margar buðum við 9.bekk að vera með að þessu sinni. Stelpurnar fengu kynningu á umhverfi Háskólans í Reykjavík og svo kynningu á vefsíðugerð og tónlistarforritun. Þetta var bæði skemmtileg og lærdómsrík tilbreyting og vonandi koma fleiri svona tækifæri upp í hendurnar á okkur.

,,Föstudagsverkefni í næstu viku“

Föstudagsverkefnin hafa verið mjög vinsæl hjá okkur og nemendur hafa yfirleitt verið duglegir að vinna við þau. Í næstu viku verður lokaverkefni og fá krakkarnir fjóra tíma á miðvikudegi, fimmtudegi og föstudegi til að vinna við verkefnið að þessu sinni, alls 12 tíma. Kynning verður síðan 2.júní, við hefðum viljað bjóða ykkur að koma og vera með okkur þá en þar sem það enn mælt með að takmarka heimsóknir fullorðinna í skólann langar okkur til að taka kynningarnar upp og gera þær aðgengilegar fyrir ykkur.  Eitt af markmiðum þessara verkefna er að efla vitund nemenda um eigið nám, sjálfstæði og ábyrgðartilfinningu fyrir framförum. Í þeim tilgangi báðum við nú alla nemendur að skilgreina eigin markmið með verkefninu og setja niður leiðir fyrirfram. Þetta reyndist mörgum nemendum erfitt og því má búast við smá mótlæti í næstu viku. Við teljum þetta nauðsynlegt framfaraskref og vitum að þegar það hefur verið unnið einu sinni verður það mun léttara næst

| föstudagurinn 15. maí 2020

Fréttir vikunnar 11.-15.maí

Þessa vikuna hefur flest verið með venjulegu sniði í skólanum. Við reynum að halda hefðbundinni dagskrá eins og hægt þó að það sé oft erfitt þegar fer að vora.  Veðrið hefur verið þannig að undanförnu að nemendur og starfsmenn hálfpartinn gleyma því að skólaárið sé að verða búið.  Kannanir hafa verið hjá nemendum í nokkrum fögum en við leggjum þó megin áherslu á að námsmat endurspegli vinnu nemenda en sé ekki byggt á staðreyndaþekkingu.  Í næstu viku verður kennt samkvæmt stundatöflu og við minnum á að 22.maí verður skóladagur.

Miðstigið var með uppskeruhátíð vegna lestrarátaks í dag. Nemendur höfðu fengið að velja milli nokkurra atriða til skemmtunar og niðurstaðan var að fá að fara í íþróttasalinn í leiki. Edda bætti svo við skúffuköku sem hún notaði til að kenna þeim orðatiltækið ,,rúsínan í pylsuendanum“. Gaman væri ef foreldrar spyrðu nú börnin sín hvað það þýðir.

Sundkennsla

Sundlaugin verður opin í næstu viku og við höfum fengið sama sundkennara og í haust til að taka þá tíma sem hægt er. Við ætluðum að vera löngu byrjuð og því verður um nokkra skerðingu að ræða hjá nemendum. Kennslan er skipulögð í samráði við kennarann og þess gætt að þeir sem þurfa mest á kennslu að halda fái flesta tíma. Unglingastigið fær aðeins einn tíma, enda metur kennarinn það þannig að þeir nemendur séu allir mjög vel syndir, áherslan verður því á nemendur af mið-og yngsta stigi og best er að þeir komi með sundföt alla næstu viku og mánudag og þriðjudag 25. og 26. maí.

Fréttir frá foreldrafélagi

Vegna aðstæðna hefur verið ákveðið að fresta aðalfundi foreldrafélagsins fram í september.

Eldri færslur

« 2021 »
« Desember »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Vefumsjón