Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 14. desember 2018

Fréttir vikunnar 10.-14.desember 2018.

Jólatré úr jafnarma þíhyrningum
Jólatré úr jafnarma þíhyrningum
1 af 5

Starfið í þessari viku hefur litast nokkuð af jólaundirbúningi þó að við reynum að vera lágstemmd og halda væntingum í lágmarki í þeim efnum til að auka ekki á spennuna sem oft skapast hjá krökkum á þessum árstíma.  Nokkrar myndir af viðfangsefnum síðustu daga fylgja með þessari frétt. Hið árlega föndur foreldrafélagsins var haldið á þriðjudaginn og var það vel sótt.  Nemendur á unglingastigi bökuðu smákökur og seldu og mæltist það svo vel fyrir að fengu færri en vildu.  Rétt er að geta þess að ágóðinn rennur í ferðasjóð nemenda.  Í dag héldu svo Sara og nemendur Tónlistarskólans aukatónleika fyrir okkur sem enduðu með samsöng á jólalögum.

Í næstu viku verður venjulegur skóladagur mánudag, þriðjudag og miðvikudag.  Á mánudag og þriðjudag verða sérstakar jólasmiðjur frá kl.9:40 – 12:25.  Ef einhverjir foreldrar eiga heimangengt á þessum tíma lofum við því að það verður gaman að koma í heimsókn til okkar.  Á fimmtudaginn er svo síðasti starfsdagur fyrir jól og þá verða hin hefðbundnu ,,litlu jól” í skólanum.  Þá hefst skóli kl.9:00 og lýkur um kl.11:30.  Gert er ráð fyrir að nemendur skiptist á litlum pökkum, hver nemandi kemur með einn pakka sem má að hámarki kosta 700 krónur.  Pakkarnir eru svo settir í púkk, sem skipt er með því að allir draga einn pakka.  Þetta er alltaf mjög spennandi og skemmtilegt.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 7. desember 2018

Fréttir vikunnar 3.-7. desember 2018

Elstu og yngstu nemendur skólans hjálpast að við jólakortagerð.
Elstu og yngstu nemendur skólans hjálpast að við jólakortagerð.
1 af 3

Þessi vika hefur gengið vel fyrir sig, rétt eins og allar aðrar það sem af er hausti.  Snjórinn hefur verið endalaus uppspretta leikja og búið er að gera mikil mannvirki á skólalóðinni. Skólaráð fundaði í vikunni og í kjölfarið verða ábendingar sendar til tæknideildar Ísafjarðarbæjar og eftir áramót verður væntanlega gerð skoðanakönnun um vilja foreldra í tengslum við tómstundastarf. Við höfum verið með danskan sendikennara í heimsókn og tækifærið hefur meðal annars verið nýtt til að æfa danska framburðinn, skoða hvað við kunnum mörg tungumál þegar við leggjum öll saman og læra lög á dönsku eins og sjá má á þessum hlekk hér https://www.youtube.com/watch?v=4VFyhPeAxsw .  Að öðru leyti litast viðfangsefnin þessa dagana nokkuð af jólaundirbúningi.  Í ritun eru nemendur til dæmis að æfa sig að beygja samsett nöfn rétt meðan þeir skrifa á jólakort til samnemenda sinna.  5. og 6. bekkur notuðu microbit-tölvurnar til að forrita skemmtilega jólakveðju og festu hana svo á spjald í smíðatíma.  Í næstu viku verður hefðbundin dagskrá hjá okkur en í þeirri þar-næstu verðum við með jólaþema sem lýkur með litlu jólunum þann 20.des.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 30. nóvember 2018

Vikan 26.-30.nóvember

Þessi vika hefur verið óvenju tíðindalítil hjá okkur og flestir dagar einkennst af hefðbundnu skólastarfi.  Lestrarhátíðinni er nú formlega lokið hjá okkur og við þökkum öllum þeim sem hjálpuðu okkur með hana, þeim sem komu og hlustuðu á atriði nemenda og þeim sem komu og lásu.  Þó að þeirri dagskrá sé lokið eruð þið alltaf velkomin í skólann til að lesa fyrir nemendur, bara að gera boð á undan sér.  Það er ákaflega mikilvægt að nemendur hafi góðar fyrirmyndir hvað lestrarvenjur varðar, eins og í öðru, og þar er hlutverk foreldra veigamest.  Ef krakkarnir sjá ykkur lesa eru meiri líkur á að þeir velji að taka sér bók í hönd þegar tími gefst til og ef þeir heyra umræður um bækur aukast líkurnar enn meira.  Það er fínt að hafa þetta í huga núna þegar jólabókavertíðin er í hámarki.  Ég vil líka nota tækifærið og minna á mikilvægi heimalesturs, 15 mínútur á dag er lágmark.  Fyrir yngri nemendur er nauðsynlegt að fullorðinn hlusti og það er hvetjandi og gott fyrir alla. 

Í næstu viku verður kominn desember og skólastarfið fer að bera þess merki, lesefni tengist jólum og  það verður meira um ýmskonar föndur. 

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 23. nóvember 2018

Samstarf við Íslandssögu og fleira

1 af 7

Þessa vikuna bar hæst hjá okkur samstarf við Íslandssögu, en fyrirtækið bauð nemendum mið- og elsta stigs í heimsókn í vikunni.  Þetta var sannkölluð fræðsluheimsókn því nemendur fengu bæði fyrirlestur um starfssemi fyrirtækisins og skoðunarferð um vinnsluna.  Að heimsókninni lokinni fékk náttúrfræðikennarinn, hann Jóhannes, ýmsar fiskitegundir með sér í skólann til að leyfa krökkunum að rannsaka þá frekar. Við þökkum kærlega fyrir þetta boð og höfðinglegar móttökur.  Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum skín vinnugleðin af nemendum í rannsóknarvinnunni.  Heimboð af þessu tagi gera okkur kleift að auka fjölbreytni í skólastarfinu. 

Við fengum líka nokkra gesti sem lásu fyrir nemendur og þökkum þeim kærlega fyrir komuna og framlag þeirra til skólastarfins, það er ákaflega mikilvægt að nemendur sjái að fleiri lesa en bara þeir sem eru í skóla.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 16. nóvember 2018

Vikan 12.-16.nóvember

Fullt hús gesta að hlusta á nemendur.
Fullt hús gesta að hlusta á nemendur.
1 af 2

Að lokinni þessari viku er það helst að frétta hjá okkkur að fjölmennur foreldrafundur var haldinn á þriðjudaginn.  Þar voru samþykktar nýjar reglur fyrir foreldrafélagið svo hægt sé að sækja um kennitölu fyrir það og ný stjórn var kjörin til tveggja ára.  Formaður er Elísabet Jónasdóttir, gjaldkeri Ólöf Birna Jensen og ritari Gunnhildur Helga Gunnarsdóttir. Varamenn eru Svala Sigríður Jónsdóttir, Kristrún Linda Jónasdóttir og Lilja Einarsdóttir. 

Unglingarnir stóðu einnig fyrir spilakvöldi á þriðjudaginn og var þar mikið fjör og gleði.

Við fengum nýjar niðurstöður úr Skólapúlsinum sem sýna að almennt líður nemendum vel í skólanum.

Og síðast en ekki síst var svo Lestrarhátíð hjá okkur í dag í tilefni af Degi íslenskar tungu. Nemendur og kennarar höfðu undirbúið dagskrá sem var flutt tvisvar sinnum og svo bauð unglingastigið gestum í kaffi og vöfflur.  Markmið þessarar dagskrár var margþætt, í fyrsta lagi að hvetja nemendur til að æfa upplestur og söng, í öðru lagi að bjóða bæjarbúa velkomna í skólann og í þriðja lagi langar okkur að börnin sjái að lestur er ekki bara fyrir skólabörn.  Í þeim tilgangi höfum við sett upp stundatöflu í anddyri skólans og bjóðum gestum að skrifa sig á tíma og koma og lesa fyrir krakkana, til dæmis upphaldssögu frá því að þeir voru litlir, ljóð eða eitthvað annað. Það má að sjálfsögðu lesa á hvaða tungumáli sem er.

Það er mikilvægt fyrir nemendur að fá áheyrendur þegar þeir hafa undirbúið dagskrá og við erum himinlifandi með móttökunar sem þessi viðburður fékk hjá bæjarbúum og teljum að við höfum fengið um 50 gesti. 

Takk fyrir komuna.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 16. nóvember 2018

Vikan 12.-16.nóvember

Fullt hús gesta að hlusta á nemendur.
Fullt hús gesta að hlusta á nemendur.
1 af 2

Að lokinni þessari viku er það helst að frétta hjá okkkur að fjölmennur foreldrafundur var haldinn á þriðjudaginn.  Þar voru samþykktar nýjar reglur fyrir foreldrafélagið svo hægt sé að sækja um kennitölu fyrir það og ný stjórn var kjörin til tveggja ára.  Formaður er Elísabet Jónasdóttir, gjaldkeri Ólöf Birna Jensen og ritari Gunnhildur Helga Gunnarsdóttir. Varamenn eru Svala Sigríður Jónsdóttir, Kristrún Linda Jónasdóttir og Lilja Einarsdóttir. 

Unglingarnir stóðu einnig fyrir spilakvöldi á þriðjudaginn og var þar mikið fjör og gleði.

Við fengum nýjar niðurstöður úr Skólapúlsinum sem sýna að almennt líður nemendum vel í skólanum.

Og síðast en ekki síst var svo Lestrarhátíð hjá okkur í dag í tilefni af Degi íslenskar tungu. Nemendur og kennarar höfðu undirbúið dagskrá sem var flutt tvisvar sinnum og svo bauð unglingastigið gestum í kaffi og vöfflur.  Markmið þessarar dagskrár var margþætt, í fyrsta lagi að hvetja nemendur til að æfa upplestur og söng, í öðru lagi að bjóða bæjarbúa velkomna í skólann og í þriðja lagi langar okkur að börnin sjái að lestur er ekki bara fyrir skólabörn.  Í þeim tilgangi höfum við sett upp stundatöflu í anddyri skólans og bjóðum gestum að skrifa sig á tíma og koma og lesa fyrir krakkana, til dæmis upphaldssögu frá því að þeir voru litlir, ljóð eða eitthvað annað. Það má að sjálfsögðu lesa á hvaða tungumáli sem er.

Það er mikilvægt fyrir nemendur að fá áheyrendur þegar þeir hafa undirbúið dagskrá og við erum himinlifandi með móttökunar sem þessi viðburður fékk hjá bæjarbúum og teljum að við höfum fengið um 50 gesti. 

Takk fyrir komuna.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | fimmtudagurinn 15. nóvember 2018

Dagur íslenskrar tungu

Minni á lestrarhátíðina okkar á morgun, á degi íslenskar tungu. Nemendur verða með upplestur og söng og svo verður boðið upp á vöfflur. Dagskráin verður tvítekin, fyrst frá 10:00 - 10:30 og svo frá 11.30 - 12:00.  Við vonumst til að sem flestir sjái sér fært að kíkja til okkar.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | miðvikudagurinn 14. nóvember 2018

Ný stjórn foreldrafélags

Mjög góð mæting var á foreldrafundi skólans í gær.  Samþykktar voru reglur fyrir foreldrafélag skólans og ný stjórn kjörin til tveggja ára.  Formaður er Elísabet Jónasdóttir, gjaldkeri Ólöf Birna Jensen og ritari Gunnhildur Helga Gunnarsdóttir.  Varamenn eru Svala Sigríður Jónsdóttir, Kristrún Linda Jónasdóttir og Lilja Einarsdóttir.  Takk fyrir fínan fund.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 9. nóvember 2018

Helstu fréttir vikunnar 5.-9.nóvember

Nú eiga allir nemendur að sjást vel í myrkrinu.
Nú eiga allir nemendur að sjást vel í myrkrinu.

Þessa viku hefur verið talsvert um forföll starfsmanna og kennsla elstu nemendanna því raskast nokkuð þó að ávalt sé reynt að manna kennslu eins og mögulegt er getur það verið snúið með ekki fjölmennari starfsmannahóp. 

Á miðvikudaginn fengum við heimsókn frá Klofningi sem færði nemendum og starfsmönnum endurskinsmerki og þökkum við kærlega fyrir þá umhyggju sem sú gjöf sýnir.

En við fengum líka óboðinn og óvelkominn gest, en lús greindist hjá okkur í vikunni og hvet ég foreldra til að taka á því máli af ábyrgð.  Nákvæmar lýsingar á hvernig skal fast við lús eru á heimasíðu landlæknis https://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item12489/Hofudlus-(Pediculus-humanus-capitis).

Á fimmtudag var alþjóðlegur baráttudagur gegn einelti og dagana á undan ræddum við um margar birtingarmyndir þess og hvað hægt er að gera til að koma í veg fyrir eineltishegðun, bæði barna og fullorðinna og afrakstur þess var svo birtur í tveimur myndböndum sem hægt er að skoða af heimasíðunni okkar.

Í dag, föstudag fóru unglingarnir í þriðju og síðustu ferðina sem skólinn skipuleggur í Fablab smiðjuna á Ísafirði.  Markmið þeirra heimsókna var að kynna nemendum hvað hægt er að gera þar og sýna þeim möguleika á að vinna sjálfstætt í smiðjunni.

Foreldrafundur

Þriðjudaginn 13.nóvember boðum við til foreldrafundar.  Fundurinn hefst kl.17:00 og honum lýkur ekki síðar en kl.18:00.  Túlkað verður bæði á tælensku og pólsku á fundinum.  Á fundinum verður farið yfir tillögur að starfsreglum fyrir foreldrafélagið.  Hugmynd okkar í skólanum er að reyna að færa foreldrafélagið yfir á formlegri grunn þannig að það fái sérstaka kennitölu og samþykktar starfsreglur þar sem meðal annars er kveðið á um hvernig skal skipa í stjórn þannig að sama fólkið sitji ekki uppi með stjórnina árum saman.  Einn aðili hefur gefið sig fram sem er tilbúinn til stjórnarstarfa en enn vantar tvo meðstjórnendur og þrjá varamenn. 

Ágætu foreldrar, þið eigið þetta samfélag saman og það er allra hagur að í því finnist sterkt afl sem lætur sig hagsmuni barnanna varða.  Það er hlutverk foreldrafélagsins.  Fundarboðið hefur verið sent í mentor á alla foreldra ásamst tillögum að starfsreglum sem verða til umræðu á fundinum. Mikilvægt er að allar fjölskyldur skólabarna eigi að minnsta kosti einn fulltrúa á fundinum.

Hafið það gott yfir helgina

Kveðja

Jóna

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | fimmtudagurinn 8. nóvember 2018

Alþjóðlegur baráttudagur gegn einelti

Í dag er 8.nóvember sem er alþjóðlegur baráttudagur gegn einelti. 

Skólar landsins eru líklega vinnustaðirnir sem vinna hvað markvissast gegn einelti alla daga, enda er eitt af meginhlutverknum þeirra að tryggja öryggi og vellíðan barnanna sem í þeim starfa.  Allir skólar eru líka með áætlun um hvernig taka skuli á einelti ef það kemur upp, en sem betur fer er í flestum tilfellum hægt að grípa inn í áður en neikvæð hegðun gengur svo langt að hana megi flokka sem einelti.  Einelti er í eðli sínu hegðun sem börn reyna að fela og þess vegna verður starfsfólk skóla ekki endilega vart við hana á byrjunarstigi, en foreldrar verða kannski varir við vanlíðan eða breytingar í heðgun barnsins og þá er alltaf ástæða til að skoða hvað veldur.  Það er miklu flóknara að taka á málum ef þau hafa fengið að þróast lengi heldur en ef hægt að vinna með þau á byrjunarstigi þess vegna er svo mikilvægt að foreldrar láti starfsfólk skóla vita strax ef þeir hafa grun um að vanlíðan barns tengist samskiptum eða öðru sem skólinn getur hjálpað til við að vinna með.  Börn gera sér oft alls enga grein fyrir hvaða áhrif framkoma þeirra hefur á aðra, það er ekki endilega ætlun þeirra að gera öðrum miska, þau einfaldlega hugsa ekki út í afleiðingar gjörða sinna.  Þeir sem eru gerendur í slíkum málum þurfa yfirleitt góðar leiðbeiningar og geta með þeim breytt hegðun sinni þannig að öllum líði betur.

Það er þó ekki þannig að einelti sé bundið við skóla, það sést því miður líka í hegðun og samskiptum fullorðinna og ekki síst í netheimum.  Það ætti að vera okkur, fullorðna fólkinu, keppikefli að vera góðar fyrirmyndir fyrir börn og ungmenni hvað þetta varðar.  Það þýðir ekki að við getum ekki verið ósammála eða lýst skoðunum okkar, við ættum hins vegar að gæta þess að vera málefnaleg í umfjöllun okkar og leggja frekar mat á verknaði en persónur.  Við gætum eflaust öll leitt hugann oftar að því hvaða áhrif framkoma okkar hefur á aðra og rætt um það við börnin sem við umgöngumst svo þau sjái og læri að það er eðlilegt að velta fyrir sér líðan samferðamanna sinna, því börn læra jú mest af því sem þau sjá okkur gera en minna af því sem við segjum þeim að gera.  

Við hér í Grunnskólanum á Suðureyri höfum rætt mikið um einelti síðustu daga og hér eru hlekkir á tvö myndbönd sem tekin voru upp í skólanum.  Annars vegar er stuttur leikþáttur sem strákarnir í 5. og 6. bekk gerðu um móttöku á nýjum nemanda og hins vegar örstutt viðtöl við nemendur í 6. og 7. bekk þar sem þeir lýsa á íslensku, pólsku, tælensku og ensku hvað einelti er og hvað þeir sjá sem leiðir til aðkoma í veg fyrir það.

https://www.youtube.com/watch?v=VKLVCYsrOWA

https://www.youtube.com/watch?v=kErgzTGaofU

 

 

Eldri færslur

« 2020 »
« Febrúar »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
Vefumsjón