| fimmtudagurinn 15. október 2020

Fréttir vikunnar 12.-16.okt

Leikið með fallhlíf
Leikið með fallhlíf
1 af 5

Þessir dásamlegu haustdagar stytta svo sannarlega veturinn sem okkur finnst vera nýbyrjaður og samt er komið að haustfríinu.

Nemendur hafa að vanda verið að fást við eitt og annað, nemendur miðstigs hafa verið að vinna eftirlíkingu af víkingarefli í samfélagsfræðinni og hluti af þeirri vinnu er nú tilbúinn. Þetta hefur bæði krafist þess að þeir áttuðu sig á lífsháttum fólks á söguöld og gætu sýnt samvinnu við að koma henni á blað.

Við höfum æft okkur í tæknimálum og kennari sem var heima vegna flensueinkenna kenndi að heiman frá sér einn dag, nemendur voru í sinni skólastofu og allir með kennarann á skjánum og það gekk mjög vel. Nú eru bæði nemendur unglinga- og miðstigs búnir að prófa sig áfram með vinnu í zoom og ef til þess þarf að koma að nemendur, einn eða fleiri, þurfa að vera heima vegna sóttvarnaráðstafana erum við tilbúin í fjarkennslu.

Það eru breytingar í starfsmannamálum hjá okkur um þessar mundir, hún Aldís hefur lokið störfum hjá okkur, við þökkum henni kærlega fyrir góð störf undanfarin ár. Við hennar kennslu taka þau Ólöf Birna og Einar Mikael Sverrisson. Einar er nýr hjá okkur og við bjóðum hann velkominn til samstarfsins.

Í dag stóð til að við færum á hina hefðbundnu ,,Öðruvísileika“ sem að þessu sinni áttu að vera á Þingeyri. Það var auðvitað ekki hægt vegna sóttvarnaráðstafana og þess í stað héldum við okkar eigin ,,Kórónuleika“ þar sem nemendur fóru á milli stöðva og tóku þátt í margskonar leikjum og það verður að segjast að hin íslenska glíma sló í gegn hjá mörgum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hafið það gott um helgina og munið að það er hvorki skóli á föstudag né mánudag.

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

| föstudagurinn 9. október 2020

Fréttir vikunnar 5.-9.okt

Yngsta stig lærir um samvinnu
Yngsta stig lærir um samvinnu
1 af 3

Veðrið hefur leikið við okkur þessa vikuna og margar stundir verið nýttar til útiveru, á myndinni sem fylgir hér með eru nemendur í yngstu deild að leika sér með fallhlíf um leið og þeir æfa sig í samvinnu. 

Það voru skil í áhugasviðsvinnu hjá okkur í þessari viku, nemendur voru að vinna með atriði úr Íslandssögunni og tóku fyrir mjög fjölbreytt viðfangsefni. Margir tóku fyrir einstakar ,,hetjur“ svo sem Gretti og Gísla Súrsson en flestir unnu þó með hörmungar eins og spænsku veikina, berkla, svarta dauða og eldgos, enda af nógu að taka af slíku þegar saga Íslands frá 870-1990 er skoðuð vandlega. Nemendur eru yfirleitt mjög áhugasamir um þessi verkefni og í næsta viðfangsefni velja þeir sjálfir hvað þeir vilja fjalla um.  Við höfum skoðað möguleika á að setja úrval af verkefnum nemenda á heimasíðu skólans þannig að þið getið skoðað þessi flottu verkefni sem nemendur eru að skila en útfærsla á því krefst nokkurrar vinnu í sambandi við persónuverndarlög svo það er flóknara en það virðist við fyrstu sýn, en nemendur geta alltaf sýnt ykkur sín verkefni.

Sundkennslu haustsins er nú lokið og allir hafa tekið góðum framförum, við gerum ráð fyrir að byrja aftur í apríl svo allir fari ferskir inn í sumarið.

Vegna sóttvarna erum við enn beðin um takmark sem mest aðgang fullorðinna í skólann og því hefur ekki verið hægt að halda okkar reglulegu haustfundi með foreldrum eða aðalfund foreldrafélagins.  Ef þetta ástand verður viðvarandi eitthvað lengur munum við reyna að koma því sem við hefðum viljað tala um á foreldrafundi til ykkar með rafrænum hætti.

Í næstu viku er svo vetrarfrí hjá okkur og því hvorki skóli hjá nemendum á föstudag né mánudag í þarnæstu viku.

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

| föstudagurinn 2. október 2020

Fréttir vikunnar 28.sept-2.okt.

Miðstig skreytir refil
Miðstig skreytir refil
1 af 2

Nú eru samræmdu prófin hjá 4.og 7.bekk afstaðin, þetta eru stór og mikil próf þar sem gert er ráð fyrir að nemendur geti lesið úr flóknum leiðbeiningum og farið eftir þeim. En hvort sem manni finnast prófin réttmæt eða ekki gefa þau ákveðna mynd af stöðu nemenda miðað við landsmeðal á þeim tíma sem þau eru tekin og við eigum von á niðurstöðum í byrjun nóvember.

Við erum sífellt að reyna að bæta aðstöðu nemenda og í þessari viku tókum við í notkun ný borð fyrir nemendur á miðstigi og settum upp töflur sem eiga að hjálpa til með hljóðvist í stofunni þeirra.   Það þýðir líka að við erum með nokkur skólaborð sem við getum séð af og ef einhver vill nota þau er velkomið að hafa samband. 

Allir nemendur skólans tóku þátt í Ólympíuhlaupi Íþróttasambands Íslands í dag og hlupu samtals 232 kílómetra, það var mjög gaman hjá okkur og við vorum öll svo upptekin að það hreinlega gleymdist að taka myndir.

Nemendur miðstigs hreinsuðu rusl af skólalóðinni og nærliggjandi svæði í vikunni og það er skemmst frá að segja að þeir voru miður sín yfir öllum sígarettustubbunum og tóbaksleifunum  sem þeir tíndu upp við innganginn að sundlauginni og á götunni hér fyrir framan.

En við eigum líka bara venjulega daga og með þessari frétt fylgja tvær myndir, annars vegar af nemendum miðstigs að skreyta refil að hætti sögualdar og hins vegar af nemendum yngsta stigs að skoða glansmyndasafnið hennar Ásu og það má sjá að áhuginn leynir sér ekki.

Síðasta vikan í skólasundi hefst á mánudag og sundkennarinn, hún Guðríður Sigurðardóttir er mjög ánægð með hvað okkar nemendur eru vel syndir, kurteisir og prúðir.

Það gekk mjög vel að fá fulltrúa foreldra í skólaráð og verða þær Emilia Agata Górecka og Anna Anikiej fulltrúar næstu tvö skólaárin.

Og að lokum, einmitt á þessari stundu er verið að mála margföldunartöfluna og áttavita á skólalóðina okkar. Það getum við gert vegna veglegs styrks sem við fengum frá Kvenfélaginu Ársól og þökkum við kvenfélagskonum kærlega fyrir.

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

| þriðjudagurinn 29. september 2020

Námskeið um kvíða barna

Fræðslumiðstöð Vestfjarða býður upp á námskeið um kvíða barna núna í október.  Sjá meðfylgjandi hlekk.

https://www.frmst.is/nam/tomstundir/Kvidi_barna_-_namskeid_fyrir_foreldra/

 

| föstudagurinn 25. september 2020

Vikan 21.-25.september

Google translate beint af heimasíðu
Google translate beint af heimasíðu
1 af 4

Það er alltaf líf og fjör hjá okkur í skólanum og í þessari viku fengum tvær heimsóknir sama daginn. Annars vegar veltibílinn og hins vegar heimsókn frá Árnastofnun. Komu veltibílsins getum við þakkað Bindindisfélagi ökumanna sem fann gleymdan sjóð í Landsbankanum á Ísafirði og ákvað að nota hann til að koma með bílinn í grunnskóla á Vestfjörðum og leyfa nemendum að prófa hvernig það er að vera í bíl sem veltur og minna okkur um leið á að beltin geta bjargað mannslífi.

Gestirnir frá Árnastofnun komu til að fjalla um handritaarf okkar Íslendinga með nemendum miðstigs, en miðstigið er einmitt að vinna með Íslandssögun núna.

Fyrsta lesfimiprófi Menntamálastofnunar er nú lokið og allir nemendur hafa fengið orðafjölda sinn skráðan í Mentor.  Margir nemendur hafa lækkað frá því vor, þetta gerist oft yfir sumarið og er eingöngu vegna þess að nemendur lesa ekki með reglulegum hætti þegar ekki er skóli. Þetta sýnir okkur enn og aftur hversu mikilvægt það er að foreldrar séu meðvitaðir um mikilvægi lestrarþjálfunar og passi að árangur sem náðst hefur tapist ekki vegna æfingaleysis, við minnum ykkur á þetta aftur fyrir jólafrí og sumarfrí.

Enn eru tvær vikur eftir af sundkennslu og mikilvægt er að passa að allir nemendur séu með sundföt meðferðis á mánudag, þriðjudag og miðvikudag.

Og rúsínan í pylsuendanum þessa vikuna er hnappur sem var verið að bæta við á heimasíðuna okkar og gerir ykkur kleift að tengja hana beint við google translate, því það er mikilvægt að sem flestir foreldrar geti fylgst með, sjá mynd hér að neðan.

Bestu kveðjur frá okkur í skólanum

Jóna

| fimmtudagurinn 17. september 2020

Fréttir vikunnar 14.-17.sept 2020

Niðurstaða nemendaþings í september.
Niðurstaða nemendaþings í september.
1 af 2

 

Við höfum einsett okkur að leggja mikla áherslu á lýðræðisvinnu í skólanum og kenna nemendum að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Helsta verkfærið til þess er að virkja þá til samræðna um fjölbreytt málefni þannig að þeir þjálfist í að mynda sér skoðun, koma henni á framfæri og rökstyðja mál sitt. Þetta gerum við í mörgum kennslustundum og einnig með sérstökum nemendaþingum. Fyrsta þing þessa vetrar var á þriðjudaginn og þá unnu nemendur í hópum með orðaforða sem tengist Uppbyggingarstefnu. Hver hópur fékk orð sem tilheyra einni af félagslegum grunnþörfunum og átti að flokka orðin eftir því hvort framkoman sem þau lýsa hefur jákvæð eða neikvæð áhrif fyrir aðra en þá sem beita henni. Þetta var fjörug og skemmtileg umræða því eitt skilyrðið var að hópurinn yrði að ná samkomulagi um hvernig flokka skyldi orðin. Þetta verkefni studdi því við bæði lýðræðismarkmiðin okkar og vinnuna við að efla orðaforða nemenda.

Dagur íslenskrar náttúru var tekinn alvarlega í skólanum og nemendur á miðstigi fengu þá sérstaka fræðslu og unnu verkefni þar sem þeir völdu sér að vera eitt lifandi náttúrufyrirbæri og lýstu því, sumir völdu að vera dýr, aðrir plöntur og aðrir eitthvað enn furðulegra.

Nemendur á yngsta stigi eru í upplifunarsmiðju þessar vikurnar og þar er ýmislegt brallað, í morgun ætluðu þeir að grilla brauð við opinn eld en það gekk svona og svona og þá þurfti að grípa til plans B, en það er líka lærdómur og allir skemmtu sér konunglega eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Bestu kveðjur frá okkur í skólanum

Jóna

| föstudagurinn 11. september 2020

Fréttir vikunnar 7.-11.sept 2020

Frá danssýningu á mánudag
Frá danssýningu á mánudag

Það er alltaf eitthvað í gangi hjá okkur og í þessari viku var nemendum boðið á danssýningu í tengslum við verkefnið List fyrir alla. Að þessu sinni var um að ræða sýningu á nútímadansi og á eftir fengu nemendur stutta kennslustund með listamönnunum. Þar sem við vorum hvort sem er komin á Ísafjörð með allan skólann fórum við líka í heimsókn á Bæjarbókasafnið þar sem nemendur fengu kynningu á starfssemi bóksafnsins og að lokum fórum við á ljósmyndasýninguna ,,Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ í Edinborgarhúsinu svo þetta var sannkölluð menningarferð hjá okkur.

Þessa viku höfum við verið að koma nemendum miðstigs einum af öðrum inn í mentor og virkja lykilorðin þeirra. Þar inn setjum við bæði áætlanir og mat á verkefnum og því er mikilvægt að foreldrar virki sinn aðgang líka svo þeir geti fylgst með og aðstoðað eftir þörfum. Ef vandræði eru með það erum við alltaf tilbúin til að aðstoða, þeir sem merktu við á blaðinu í síðustu viku fá hringingu frá okkur og við mælum okkur mót til að græja þetta og aðstoða fólk við að komast af stað og ef fleiri vilja aðstoð er bara að hafa samband.

Nokkur veikindi hafa verið að hrjá nemendur þessa vikuna og við minnum á tilmæli sóttvarnaryfirvalda um að þeir sem eru með kvef, hálsbólgu, hita eða önnur flensulík einkenni haldi sig heima þar til einkenni eru að fullu gengin yfir, hvort sem þeir fara í covid - test eða ekki. Þetta er gert til að minnka líkur á smithættu og á við um börn jafnt og fullorðna.

Í næstu viku eru svo aðeins fjórir skóladagar hjá nemendum þar sem sameiginlegu starfsdagur litlu skólanna á norðanverðum Vestfjörðum verður haldinn föstudaginn 18.september. Þar mun starfsfólk fá fræðslu um jafnréttiskennslu, kynjafræðslu og fleira.

Bestu kveðjur frá okkur í skólanum

Jóna

| laugardagurinn 5. september 2020

Fyrsta heila skólavikan

Það er mikilvægt að vita hvað er að vera hjálplegur
Það er mikilvægt að vita hvað er að vera hjálplegur

Nú er fyrsta heila skólavikan liðin og hún gekk mjög vel. Við höfum verið að leggja grunn að vinnulagi vetrarins og ræða með nemendum um hvernig við viljum vinna saman sem hópur sem ætlar að hjálpast að við að skapa gott vinnuumhverfi sem styður við þroska og framfarir.

Það gerist ekki af sjálfu sér heldur þurfum við öll að vinna skipulega að því að skapa það umhverfi sem við teljum vænlegast í því samhengi og myndin sem fylgir þessari frétt er af því niðurstöðum miðstigs eftir að hafa skilgreint hvaða framkoma er hjálpleg í kennslustundum og jafnframt hvernig framkoma er ekki hjálpleg. Eins og þið sjáið af þessu vita nemendur algjörlega hvernig þarf að haga sér til að umhverfið þeirra sé styðjandi og það er svo okkar allra að hjálpa þeim við það. Auðvitað vitum við að það mun bregða út af þessu en við ætlum öll að gera okkar besta til að láta þetta verða að veruleika og læra af mistökum okkar.  

Sundkennslan hefur gengið samkvæmt áætlun og sundkennarinn hefur haft orð á að börnin í okkar skóla séu flest mjög vel synd og alveg frábærlega kurteisir nemendur.

Á mánudaginn förum við í ferð til Ísafjarðar á viðburðinn ,,List fyrir alla" að þessu sinni er nemendum boðið á listdanssýningu og stutta kennslustund að henni lokinni. Við ætlum að nýta ferðina og fara í líka í kynningarferð á bókasafnið og skoða ljósmyndasýningu í Edinborgarhúsinu.  Nemendur munu því ekki verða í skólahúsnæðinu í nestistíma á mánudag og haga þarf nesti samkvæmt því.  Við komum svo heim um hádegisbil og fáum mat í skólanum þegar við komum.  Kennsla verður samkvæmt stundaskrá þegar við komum heim.

Vel gekk að safna saman blöðunum um hádegishlé, mjólkuráskrift og mentoraðstoðina og þeir sem vildu þiggja aðstoð við mentor fá hringingu frá okkur bráðlega.

Kveðja starfsfólkið í skólanum.

| laugardagurinn 29. ágúst 2020

Fréttir af skólastarfinu eftir fyrstu viku

Nemendur æfa sig í að hjóla í einfaldri röð
Nemendur æfa sig í að hjóla í einfaldri röð
1 af 2

Skólastarfið fór vel af stað, nemendur mættu glaðir og tilbúnir til að takast á við verkefni vetrarins.

Unglingastigið hóf veturinn með því að ganga yfir Klofningsheiði, leiðin mældist 12,8 km og nokkrir fengu yfir 20 000 skref á símana sína, gönguferðin endaði svo með pylsuveislu á Flateyri. Miðstigið fór í hjóla-og berjatýnsluferð út í Staðardal og yngsta stigið vann ýmis útiverkefni í grennd við skólann. Svona ferðir eru ekki bara farnar til skemmtunar, þær hafa mikið menntunar- og uppeldislegt gildi. Nemendur kynnast umhverfi sínu, læra um náttúruna, fá tækifæri til að takast á áskoranir, sýna hjálpsemi í verki og efla eigin þrautsegju. 

Við erum að vinna í að geta boðið mjólkuráskrift í vetur eins og undanfarin ár en Mjólkursamsalan hefur breytt skilmálum sínum þannig að verð mjólkurinnar til okkar þrefaldast þar sem við kaupum það lítið magn að á það leggst nú fastur sendingakostnaður. Við erum að vinna í að semja við Örnu um að fá mjólk frá þeim og vonandi getum við boðið áskrift frá 7.sept.

Matur verður framreiddur í skólanum frá 1.september og þá fyrst kemur reynsla á nýju stundatöfluskipanina, en nú gerum við ráð fyrir 40 mínútna matarhléi.  Þó að nemendur séu ekki í mataráskrift er þeim að sjálfsögðu heimilt að borða hádegisnesti í skólanum. Nokkrir nemendur fara heim í hádegishléinu, við erum búin að sjá að við þurfum að hafa yfirlit yfir hverjir eiga að fara heim og munum senda nemendur heim með blað þar sem við biðjum ykkur að staðfesta það, ef um það er að ræða.  Þá verður líka að passa að allir komi á réttum tíma til baka eftir matinn en skóli hefst eftir matarhlé klukkan 12:50.  Þá biðjum við foreldra um að gæta þess vel að nesti sem nemendur koma með í skólann sé hollt og samkvæmt ráðleggingum Landlæknisembættisins um næringu. Glærur frá fundinum okkar með næringarfræðingnum í fyrra má finna hér http://grsud.isafjordur.is/skrar/skra/33/

Vegna reglna um sóttvarnir getum við ekki haldið áætlun í verkefninu okkar ,,Náum betri árangri saman" en við erum beðin um að takmarka umgengni gesta um skólann eins og hægt er og því er ekki hægt að fá fyrirlesara með fræðsluefni fyrir foreldra í skólann eins og til stóð.

Flestir nemendur mið-og unglingastigs eru nú komnir af stað með að nota mentor til að skoða vikuáætlanir og mat á verkefnum og biðjum við foreldra um að virkja aðgang sinn svo þeir geti líka fylgst með, því nám barna er jú samvinnuverkefni heimila og skóla.

Næsta vika verður hefðbundin skólavika en í þarnæstu viku förum við á listdanssýningu, heimsókn á Bókasafnið og líklega líka á ljósmyndassýningu en nánari fréttir af því koma þegar nær dregur. 

 

| mánudagurinn 24. ágúst 2020

Mentor fyrir nemendur og foreldra

Sæl verið þið ágætu foreldrar

Við erum spennt að byrja og hlökkum til að vinna með ykkur og krökkunum. Á mið- og unglingastigi ætlum við okkur að nota mentor með markvissari hætti en áður og því er mikilvægt að bæði nemendur og foreldrar séu með virk lykilorð.  Það eruð þið gefið börnum ykkar lykilorð og það getið þið ekki nema vera komin með lykilorð sjálf.

Ef ykkur vantar nýtt lykilorð er hægt að fara á ,,innskráning” og gleymt lykilorð, þá fáið þið lykilorðið sent á netfangið sem er skráð hjá ykkur í mentorkerfi skólans.

Þið getið líka pantað tíma hjá mér og ég leiðbeini ykkur í gegnum þetta.  Munið að við erum hér í vinnu fyrir ykkur og þið eruð ekki að trufla okkur með því að koma eða hafa samband svo endilega sendið póst á jonab@isafjordur.is ef ykkur vantar aðstoð og ég aðstoða ykkur með ánægju.

Ef þið eruð í vandræðum er góða hjálp að fá á heimasíðu mentor og í skjali sem fylgdi með í tölvupósti sem ég sendi áðan eru leiðbeiningar um hvernig má nálgast hana.

 

Kveðja

Jóna

Eldri færslur

« 2021 »
« September »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    
Vefumsjón