Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | fimmtudagurinn 8. nóvember 2018

Alþjóðlegur baráttudagur gegn einelti

Í dag er 8.nóvember sem er alþjóðlegur baráttudagur gegn einelti. 

Skólar landsins eru líklega vinnustaðirnir sem vinna hvað markvissast gegn einelti alla daga, enda er eitt af meginhlutverknum þeirra að tryggja öryggi og vellíðan barnanna sem í þeim starfa.  Allir skólar eru líka með áætlun um hvernig taka skuli á einelti ef það kemur upp, en sem betur fer er í flestum tilfellum hægt að grípa inn í áður en neikvæð hegðun gengur svo langt að hana megi flokka sem einelti.  Einelti er í eðli sínu hegðun sem börn reyna að fela og þess vegna verður starfsfólk skóla ekki endilega vart við hana á byrjunarstigi, en foreldrar verða kannski varir við vanlíðan eða breytingar í heðgun barnsins og þá er alltaf ástæða til að skoða hvað veldur.  Það er miklu flóknara að taka á málum ef þau hafa fengið að þróast lengi heldur en ef hægt að vinna með þau á byrjunarstigi þess vegna er svo mikilvægt að foreldrar láti starfsfólk skóla vita strax ef þeir hafa grun um að vanlíðan barns tengist samskiptum eða öðru sem skólinn getur hjálpað til við að vinna með.  Börn gera sér oft alls enga grein fyrir hvaða áhrif framkoma þeirra hefur á aðra, það er ekki endilega ætlun þeirra að gera öðrum miska, þau einfaldlega hugsa ekki út í afleiðingar gjörða sinna.  Þeir sem eru gerendur í slíkum málum þurfa yfirleitt góðar leiðbeiningar og geta með þeim breytt hegðun sinni þannig að öllum líði betur.

Það er þó ekki þannig að einelti sé bundið við skóla, það sést því miður líka í hegðun og samskiptum fullorðinna og ekki síst í netheimum.  Það ætti að vera okkur, fullorðna fólkinu, keppikefli að vera góðar fyrirmyndir fyrir börn og ungmenni hvað þetta varðar.  Það þýðir ekki að við getum ekki verið ósammála eða lýst skoðunum okkar, við ættum hins vegar að gæta þess að vera málefnaleg í umfjöllun okkar og leggja frekar mat á verknaði en persónur.  Við gætum eflaust öll leitt hugann oftar að því hvaða áhrif framkoma okkar hefur á aðra og rætt um það við börnin sem við umgöngumst svo þau sjái og læri að það er eðlilegt að velta fyrir sér líðan samferðamanna sinna, því börn læra jú mest af því sem þau sjá okkur gera en minna af því sem við segjum þeim að gera.  

Við hér í Grunnskólanum á Suðureyri höfum rætt mikið um einelti síðustu daga og hér eru hlekkir á tvö myndbönd sem tekin voru upp í skólanum.  Annars vegar er stuttur leikþáttur sem strákarnir í 5. og 6. bekk gerðu um móttöku á nýjum nemanda og hins vegar örstutt viðtöl við nemendur í 6. og 7. bekk þar sem þeir lýsa á íslensku, pólsku, tælensku og ensku hvað einelti er og hvað þeir sjá sem leiðir til aðkoma í veg fyrir það.

https://www.youtube.com/watch?v=VKLVCYsrOWA

https://www.youtube.com/watch?v=kErgzTGaofU

 

 

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | mánudagurinn 5. nóvember 2018

Lús

Góðan dag ágætu foreldrar og nemendur
Í dag fengum við upplýsingar um að lús hefði greinst í skólabarni um helgina. Við viljum því biðja alla um að fara í nákvæma lúsaleit í dag og beita viðeigandi aðerðum ef lús finnst. Upplýsingar um hvernig skal leita og hvað skal gera ef lús finnst eru á heimsíðu landlæknis.
https://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item12489/Hofudlus-(Pediculus-humanus-capitis)


Þetta er hvimleiður óboðinn gestur sem við viljum öll vera laus við og það getum við helst með samstilltu átaki. Það er því mikilvægt að allir grípi til aðgerða í dag. Eins mæli ég með að fólk eigi heima hjá sér lúsasjampó því oft kemur þetta upp að kvöldi dags þegar apótekið er lokað eða um helgar og maður vill geta brugðist við strax.
Kveðja
Jóna

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 2. nóvember 2018

Helstu fréttir vikunnar 29.október – 2.nóvember

Helstu tíðindi úr skólanum þessa vikuna eru að nokkuð hefðbundin vinna var í skólanum flesta daga.  Unglingarnir stóðu þó fyrir hrekkjavökuballi á þriðjudaginn.  Öllum nemendum var boðið, þó í mislangan tíma.  Yngri nemendur fóru heim kl.21 en þeir eldri voru til 22.  Skemmtunin tókst mjög vel, sumir nemendur, og foreldrar, höfðu lagt mikið í búningana sína og var útlit sumra vægast sagt ógnvekjandi.  Margskonar dansar voru dansaðir og unglingarnir voru hin besta fyrirmynd fyrir yngri krakkana um hvernig maður hagar sér á dansleikjum.

Yngstu nemendurnir fóru með Ásu í heimsókn á leikskólann, sem er líður í samstarfi leik-og grunnskóla um skólabyrjun.

Unglingarnir fóru í FabLab á Ísafirði í dag og vonandi koma þeir með eitthvað skemmtilegt heim.  Ef mikil eftirspurn verður munum við hugsanlega fara einn dag í viðbót í FabLabið enda er margt hægt að læra þar.

Foreldraviðtöl voru einnig í þessari viku, þar var rætt hvernig gengur almennt í skólanum með sérstakri áherslu á hvernig gengur að vinna að markmiðunum sem hver og einn setti sér í haust.  Þeir sem ekki hafa komist í þessari viku munu fá úthlutað tíma í þeirri næstu.

Á fimmtudagskvöldið var söfnunarþáttur á RÚV þar sem fjallað var um kynferðisofbeldi og forvarnir.  Tvö af viðtölunum sem þar voru eru nú komin inn á facebooksíðu skólans þar sem mikilvægt er að foreldrar horfi á þau til að átta sig betur á þeim veruleika sem börn og unglingar lifa við í dag.

Í næstu viku er baráttudagur gegn einelti, við erum að undirbúa vinnu vegna hans sem vonandi mun birtast ykkur þann 8.nóvember.  Í næstu viku munið þið líka fá boð á fund hjá foreldrafélaginu sem verður þann 13.nóvember kl.17:00.  Við erum líka byrjuð að undirbúa ,,Lestrarhátíð Suðureyrar” sem haldin verður á degi íslenskar tungu, þann 16.nóvember.  Ef einhver vill leggja hugmyndir inn í þá vinnu er bara að hafa samband við okkur, við tökum því fagnandi.

Kveðja

Jóna

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | þriðjudagurinn 30. október 2018

Halloween-ball

Það var gríðarleg stemming á hrekkjavökuballi í skólanum í kvöld.  Unglingarnir stýrðu leikjum og dansi og voru frábærar fyrirmyndir.  Gleðin náði hæstu hæðum þegar marserað var um allan skólann eins og meðfylgjandi myndir sýna.

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | mánudagurinn 29. október 2018

Heimsókn og styrkur frá Evrópusambandinu

Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu
Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu
1 af 3

Grunnskólarnir á Ísafirði og á Suðureyri fengu styrk frá Evrópusambandinu til að vinna samstarfsverkefni með fjórum öðrum Evrópulöndum, Grikklandi, Svíþjóð, Búlgaríu og Hollandi.  Í verkefninu munu nemendur vinna með mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og skoða hvernig ólík lífsskilyrði og viðhorf hafa áhrif á möguleika fólks til að fá notið þeirra réttinda að fullu.  Markmið með verkefninu er að auka skilning og umburðarlyndi gagnvart ólíkum aðstæðum fólks.  Nemendur 9.bekkjar verða þátttakendur af okkar hálfu og fjölmargir starfsmenn skólanna taka einnig þátt í verkefninu með einum eða öðrum hætti.  Í verkefninu felst einnig að nemendur fara í heimsóknir á milli landanna og kynnast þar af eigin raun ólíkum aðstæðum.  Fyrsta heimsóknin í verkefninu var undirbúningsfundur allra kennaranna sem taka þátt í vinnunni með nemendum sínum og fór sú heimsókn fram hér á Íslandi núna í október. 

Hópurinn ferðaðist akandi frá Keflavík til Ísafjarðarbæjar þar sem voru vinnustofur og skoðunarferðir í þrjá daga.  Það er alltaf gaman að taka á móti gestum því það krefst þess að maður velti fyrir sér hvað er skemmtilegt að sýna ferðamönnum.  Að þessu sinni fóru þátttakendur í sögugöngu með Jónu Símoníu Bjarnadóttur, fóru í Seefood-trail, göngu á Suðureyri, kynningu hjá Ísafjarðarbæ og borðuðu í Tjöruhúsinu.  Auk þess að vera í skólaheimsóknum og fræðast um skólakerfið á Íslandi. 

Það er ekki alltaf augljóst hvað vekur áhuga fólks, þessir gestir höfðu aldrei séð fiskvinnslu og ekki heldur borðað svona góðan fisk áður.  Næsta heimsókn verður til Grikklands og áður en hún fer fram verða nemendur búnir að fjalla um þær greinar mannréttindayfirlýsingarinnar sem fjalla um frelsi til að hafa skoðanir ,jafnræði og virðingu og fróðlegt verður að sjá ólíka nálgun nemenda á þessu viðfangsefni eftir því hver bakgrunnur þeirra er. 

Vilborg Ása Bjarnadóttir Vilborg Ása Bjarnadóttir | mánudagurinn 29. október 2018

Lestrarátak

Í dag mánudaginn 29. október hefst lestrarátak hjá nemendum á yngsta stigi. Það stendur yfir til 16. nóvember en þá er stefnana að hafa lestrarhátíð hér hjá okkur. Nemendur fengu efnið með sér heim í dag og vona ég að allir taki virkan þátt. Það er mikilvægt að hlúa vel að lestrinum þar sem lestur er undirstaða allt náms.

Ágætu foreldrar

Nú var skólinn að fá niðurstöður nemenda úr samræmdum könnunarprófum í íslensku og stærðfræði. Menntamálastofnun óskar eftir að þetta próf sé lagt fyrir alla nemendur í 4. og 7.bekk á íslandi á sama tíma. Eftir að prófinu lauk sendi ég, í nafni skólans, bréf til Menntamálastofnunar þar sem ég benti á margskonar óréttlæti, gagnvart nemendum sem eiga annað móðurmál en íslensku, sem er innbyggt í þessi próf.  Til dæmis að spurt sé um orð sem varla eru notuð í nútíma talmáli þegar verið er að kanna orðaforða og að í lesskilningstextum séu notaðir textar úr vinsælum íslenskum barnabókum sem augljóslega eru ekki lesnar nema fyrir börn þar sem íslenska er samskiptamálið á heimilinu.  Ég bið ykkur að hafa þessi atriði í huga þegar þið skoðið einkunnir barnanna ykkar því niðurstaða úr þessu prófi er ekki raunhæfur mælikvarði á kunnáttu þeirra í íslensku. 

Hér er hlekkur á bréfið sem ég sendi Menntamálastofnun.

http://skolavardan.is/raddir/Hugleidingar-eftir-samraemt-prof

Þessi færsla mun einnig birtast á pólsku þar sem við vorum svo heppin að fá þýðingu á henni.

 

Drodzy Rodzice

Szkoła otrzymala dzisiaj wyniki egzaminów z języka islandzkiego oraz z matematyki. Zgodnie z rozporządzeniem Ministerstwa Edukacji, wszyscy uczniowie 4. oraz 7. klas w Islandii są zobowiązani do przystąpienia do tych egzaminów w tym samym czasie. Po przeprowadzonych egzaminach wysłałam list, w imieniu szkoły, do Ministerstwa Edukacji, w którym zwróciłam uwagę na wiele niesprawiedliwości przeciwko uczniom, dla których język islandzki nie jest językiem ojczystym, a na podbudowie którego wyżej wymieniony egzamin jest zbudowany. Jako przykład, w teście zawarte są pytania o znaczenie wyrazów, których się już nie używa w mowie potocznej, jak również teksty do czytania ze zrozumieniem, są na podbudowie popularnych islandzkich książek dziecięcych, które nie są czytane dla dzieci, u których w domach nie rozmawia się w języku islandzkim.  Chciałam Was prosić o to, aby mieć to na uwadze podczas oglądania wyników z wyżej wymienionych testów, gdyż wyniki nie są adekwatne do rzeczywistej znajomości języka islandzkiego u Waszych dzieci.

Tutaj jest link do listu, który wysłałam do Ministerstwa Edukacji

http://skolavardan.is/raddir/Hugleidingar-eftir-samraemt-prof

 

 

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 26. október 2018

Föstudagspistill 26.október 2018

Það hafa verið annasamir dagar í skólanum að undanförnu og þá sérstaklega hjá unglingunum.  Á miðvikudag fóru þeir í heimsókn til Flateyrar á fyrirlestur sem nefnist ,,Skáld í skólum”. Í honum kynna rithöfundar vinnulag sitt og leiðbeina um skapandi skrif.  Í gær var svo Íþróttahátíðin í Bolungarvík, þar var dagskrá frá 10 – 18:45 og svo ball að henni lokinni og í dag eru unglingarnir okkar í FabLabinu á Ísafirði að kynna sér möguleikana á því sem hægt er að gera þar.  Leiðbeinendur þar eru Laufey Eyþórsdóttir og Þórarinn Breiðfjörð og Bryndís fer með þeim og er þeim til halds og trausts.

Niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum eru komnar í hús og nemendur fara með þær heim í dag.  Þær eru misjafnar eins og gengur og mikilvægt er að hafa í huga að allir gerðu sitt besta í próftökunni.  Allskonar þættir geta svo haft áhrif á hvort svör nemenda eru rétt eða röng.  Þetta eru ekki heildarniðurstöður um námsgetu nemenda, heldur aðeins ein mæling á tiltölulega afmörkuðum námsþáttum.  Í heildina erum við ánægð og stollt af okkar krökkum og höfum þarna fengið vísbendingar um atriði sem vinna þarf betur með.

Fyrra tímibili í sundkennslunni er nú að ljúka og við tökum þann þráð upp að nýju þegar fer að halla undir vor.

Búið er að stofna nýja facebook síðu fyrir skólann, síðan er hugsuð til að koma upplýsingum um fréttir og tilkynningar til foreldra og annarra sem hafa áhuga á skólastarfinu.  Heiti síðunnar er Grunnskólinn á Suðureyri.

Í næstu viku verða foreldraviðtöl, umsjónarkennarar úthluta foreldrum og nemendum tímum, mikilvægt að er foreldrar og börn komi saman í þessi viðtöl til að hægt sé að ræða hvernig gengur í skólanum og hvað er hægt að gera til að hver nemandi megi ná sem mestum framförum.

Á þriðjudaginn verður svo ,,Halloween- ball” í skólanum.  Ballið byrjar kl.19:00 og gaman væri ef sem flestir kæmu í búningum.  Nemendur fengu auglýsingu um ballið með sér heim í dag.

Kveðja

Jóna

Vilborg Ása Bjarnadóttir Vilborg Ása Bjarnadóttir | þriðjudagurinn 23. október 2018

Foreldrafræðsla

Þriðjudaginn 23. október 2018 verður Heimili og skóli og Rannsókn og greining með fræðslu fyrir foreldra ungmenna 13-18 ára.
Fræðslan fer fram í Grunnskólanum á Ísafirði og hefst kl. 17:00

Dagskrána má sjá hér að neðan og hvetjum við alla foreldra/forráðamenn til að mæta, það er alltaf hægt að bæta við sig þekkingu.

Dagskrá:
Hvernig líður börnunum okkar?
Margrét Lilja Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu og kennari á íþróttafræðisviði Háskólans í Reykjavík fjallar um niðurstöður rannsókna meðal barna og unglinga í ykkar sveitarfélagi.
Foreldrar skipta máli
Bryndís Jónsdóttir verkefnastjóri hjá Heimili og skóla fjallar um mikilvægi foreldra í forvörnum og 18 ára ábyrgð.

Miðað er við að fræðslan með umræðum og hléi taki um 2 klukkustundir.

 

Jóna Benediktsdóttir Jóna Benediktsdóttir | föstudagurinn 12. október 2018

Fréttir vikunnar 8.-12.október 2018

Þessi vika hefur verið nokkuð róleg hjá okkur í skólanum.  Sundkennsla er þó hafin og raskar hún venjubundinni stundatöflu nokkuð.  Það verður líka sund mánudaginn 15.okt. og svo byrjum við aftur þriðjudaginn 23.október.  Eins og núna munu nemendur þá fara í sund á hverjum degi.

Við fengum erlenda gesti á miðvikudaginn, en þá komu kennararnir frá Grikklandi, Búlgaríu, Hollandi og Svíþjóð sem við munum verða í samstarfi við næstu tvö árin, í Erasmusverkefninu, í heimsókn.  Þeir skoðuð skólann og fannst mikið til um hvað aðstaðan hér er almennt góð.  Svo fóru þeir í ,, Seafood trail” gönguna og voru yfir sig ánægðir.

Í dag fóru svo nemendur unglingastigsins yfir á Þingeyri á fyrirlestur hjá Siggu Dögg, kynfræðingi og vonandi koma allir fróðari heim.

Við erum búin að fá fyrstu niðurstöður okkar úr lesfimi þetta árið.  Þar sjáum við hvernig okkar krakkar standa miðað við landsmeðaltal.  Við erum hærri en landsmeðaltal í einum árgangi, á landsmeðaltali eða alveg við það í fjórum árgöngum en undir því í fimm árgöngum.  Það er margsannað að æfingin skapar meistarann og það á við í lestrinum eins og í öllu öðru.  Mig langar því að biðja ykkur, ágætu foreldrar, að muna eftir að hlusta á krakkana ykkar lesa í að minnsta kosti 15 mínútur á hverjum virkum degi.  

Ég minni svo að lokum á að enn vantar okkur fjóra fulltrúa í stjórn foreldrafélagins.

Eldri færslur

« 2019 »
« ágúst »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31
Vefumsjón