VALMYND ×

Fréttir af skólastarfinu eftir fyrstu viku

Nemendur æfa sig í að hjóla í einfaldri röð
Nemendur æfa sig í að hjóla í einfaldri röð
1 af 2

Skólastarfið fór vel af stað, nemendur mættu glaðir og tilbúnir til að takast á við verkefni vetrarins.

Unglingastigið hóf veturinn með því að ganga yfir Klofningsheiði, leiðin mældist 12,8 km og nokkrir fengu yfir 20 000 skref á símana sína, gönguferðin endaði svo með pylsuveislu á Flateyri. Miðstigið fór í hjóla-og berjatýnsluferð út í Staðardal og yngsta stigið vann ýmis útiverkefni í grennd við skólann. Svona ferðir eru ekki bara farnar til skemmtunar, þær hafa mikið menntunar- og uppeldislegt gildi. Nemendur kynnast umhverfi sínu, læra um náttúruna, fá tækifæri til að takast á áskoranir, sýna hjálpsemi í verki og efla eigin þrautsegju. 

Við erum að vinna í að geta boðið mjólkuráskrift í vetur eins og undanfarin ár en Mjólkursamsalan hefur breytt skilmálum sínum þannig að verð mjólkurinnar til okkar þrefaldast þar sem við kaupum það lítið magn að á það leggst nú fastur sendingakostnaður. Við erum að vinna í að semja við Örnu um að fá mjólk frá þeim og vonandi getum við boðið áskrift frá 7.sept.

Matur verður framreiddur í skólanum frá 1.september og þá fyrst kemur reynsla á nýju stundatöfluskipanina, en nú gerum við ráð fyrir 40 mínútna matarhléi.  Þó að nemendur séu ekki í mataráskrift er þeim að sjálfsögðu heimilt að borða hádegisnesti í skólanum. Nokkrir nemendur fara heim í hádegishléinu, við erum búin að sjá að við þurfum að hafa yfirlit yfir hverjir eiga að fara heim og munum senda nemendur heim með blað þar sem við biðjum ykkur að staðfesta það, ef um það er að ræða.  Þá verður líka að passa að allir komi á réttum tíma til baka eftir matinn en skóli hefst eftir matarhlé klukkan 12:50.  Þá biðjum við foreldra um að gæta þess vel að nesti sem nemendur koma með í skólann sé hollt og samkvæmt ráðleggingum Landlæknisembættisins um næringu. Glærur frá fundinum okkar með næringarfræðingnum í fyrra má finna hér http://grsud.isafjordur.is/skrar/skra/33/

Vegna reglna um sóttvarnir getum við ekki haldið áætlun í verkefninu okkar ,,Náum betri árangri saman" en við erum beðin um að takmarka umgengni gesta um skólann eins og hægt er og því er ekki hægt að fá fyrirlesara með fræðsluefni fyrir foreldra í skólann eins og til stóð.

Flestir nemendur mið-og unglingastigs eru nú komnir af stað með að nota mentor til að skoða vikuáætlanir og mat á verkefnum og biðjum við foreldra um að virkja aðgang sinn svo þeir geti líka fylgst með, því nám barna er jú samvinnuverkefni heimila og skóla.

Næsta vika verður hefðbundin skólavika en í þarnæstu viku förum við á listdanssýningu, heimsókn á Bókasafnið og líklega líka á ljósmyndassýningu en nánari fréttir af því koma þegar nær dregur.