VALMYND ×

Fréttir úr skólanum eftir fyrstu viku ársins 2020

Bekkjarsáttma´li unglingastigs.
Bekkjarsáttma´li unglingastigs.

Í skólanum er allt komið í fullan gang að nýju.  Óveður hefur sett nokkuð strik í reikninginn hjá okkur eins og öðrum þessa vikuna og við getum búist við að svo verði áfram í þeirri næstu. Ísafjarðarbær hefur sett samræmdar reglur um að skólum skuli ekki lokað nema um það komi tilmæli frá almannavörnum.  Þegar veður er mjög slæmt er foreldrum í sjálfsvald sett hvort þeir senda börnin í skólann eða ekki, aðeins þarf að láta okkur vita. Nemendur fá ekki fjarvistir eða leyfi skráð ef appelsínugul viðvörun er í gangi af hálfu Veðurstofu Íslands.

Nemendur á unglingastigi ákváðu að endurskoða bekkjarsáttmálann sinn til að bæta þar inn greinum um skoðanafrelsi og málfrelsi sem þó var skilyrt við að ekki mætti særa aðra. Þessi viðbót sýnir vel hversu vel Uppbygging sjálfsaga, sem við notum hér í skólanum, styður við lýðræðislega vinnu og ég tel þetta mjög þroskað af ekki eldra fólki og alveg greinilegt að hér eru framtíðar leiðtogar á ferð. 

Nemendur fást við fjölbreytt verkefni að eigin vali á föstudögum, nú er þemað persónur úr kvikmyndum. Nemendur hafa frjálsar hendur um hvað þeir gera og hvernig þeir vinna að þessu í 14 kennslustundir og svo eru skil þar sem þeir kynna hver fyrir öðrum sín viðfangsefni.  Til að skerpa aðeins á námsþáttum ákváðum við að setja sem skilyrði að allir þyrftu að skila einu verkefni á erlendu máli, einu sem tengdist íslensku og einu sem tengdist stærðfræði. það væri gaman og gagnlegt ef foreldrar vildu ræða þessi verkefni aðeins við nemendur heima til að heyra um hvað þeir hafa kosið að gera og hvernig þeir hyggjast skila afrakstrinum. Eins eru foreldrar alltaf velkomnir á kynningar og næsta kynning verður föstudaginn 17.janúar kl.11:00.