VALMYND ×

Fréttir vikunnar 11.-15.febrúar

Tillögum forgangaraðað í hópi.
Tillögum forgangaraðað í hópi.
1 af 9

Þessa viku hefur verið mikil áhersla á lýðræðiskennslu hjá okkur.  Á þriðjudag og miðvikudag vorum við með nemendaþing með þjóðfundarsniði þar sem nemendur unnu saman í hópum og fjölluðu um hvernig þeir vildu helst hafa skólann, hvað kennarar, þeir sjálfir og foreldrar gætu gert til að skólagangan yrði þeim sem farsælust.  Þetta var alveg frábær vinna og allir tóku henni alvarlega og lögðu sig fram.  Eftir að allir hópar höfðu lokið við spurningavinnunna kynntu þeir niðurstöður sínar hver fyrir öðrum.  Að því loknu voru tillögur allra teknar saman í eitt skjal og svo fékk hver nemandi tvö atkvæði fyrir hverja spurningu sem þeir notuðu til að forgangsraða tillögunum.  Sú atkvæðagreiðsla tók einnig talsverðan tíma því nemendur vönduðu sig mjög og lauk henni ekki fyrr en í dag. Nú liggur fyrir hjá okkur í skólanum að vinna með þessar tillögur og sjá hverju af þeim við getum hrint í framkvæmd.  Einnig munum við vinna áfram með nemendum til að hjálpa þeim að koma í framkvæmd því sem þeir sögðust geta gert og væri líklegt til að gera skólagönguna árhifaríkari og betri.  Þessi vinna er tímafrek en við erum sannfærð um að hún sé líka áhrifarík um leið og hún kennir nemendum að starfa saman í lýðræði.  Tvær spurninganna voru um hvað foreldrar geta gert, annars vegar til að hjálpa nemendum með námsárangur og hins vegar með líðan.  Við munum ekki vinna frekar með það heldur senda ykkur þær tillögur sem mest fylgi fengu.  Hafa verður í huga að allar tillögurnar eru með orðalagi barna og því þarf kannski stundum að spyrja hvað þau eru í raun og veru að meina með orðum sínum.  Varðandi tillögur þeirra að því sem foreldrar gætu gert til að auðvelda nemendum að ná góðum námsárangri má geta þess að flestir nemendur sögðu að það myndi hjálpa þeim ef ,,foreldrar gefast ekki upp þó að það gangi ekki vel að læra" og ef foreldrar ,,gefa börnunum frið til að læra".  Við spurningunum um líðan völdu flestir tillöguna ,,að gefa bönrum knús eftir skólann" sem mikilvægasta.  Þetta eru þeirra orð og það er örugglega áhugavert að spjalla betur saman um þetta heima.  Niðurstöður úr öðrum þáttum verða svo birtar eftir að við erum búin að fara yfir þær með starfsfólki skólans og nemendaráði.  

Nú í náttúrufræði fengu nemendur að taka sundur gamlar tölvur og skoða innvolsið og þar kom margt skemmtilegt í ljós.  Eins og sjá má af meðfylgjandi myndum fannst krökkunum þetta mjög spennandi og einbeitingin var í hámarki.

Svo er það ,,orð vikunnar" sem er leikur sem við höfum verið með undanfarnar fimm vikur.  Sett hefur verið upp á töflu orð sem við teljum líklegt að geti valdið nemendum heilabrotum og þeir hvattir til að skila tillögu að því hvað orðið þýðir.  Orðin sem við vorum með voru dægrastytting, strembinn, rotinpúrrulegur, kraðak og hundslappadrífa.  Þetta verkefni var fyrst og fremst hugsað til að hvetja nemendur til að hugsa um hvernig orð eru búin til og hvað þau geta þýtt.  Þess vegna voru gefin 3 stig fyrir rétt svar, 2 stig fyrir að giska og 1 stig fyrir að googla svarið, þannig að góð þátttaka skipti miklu máli.  Í dag voru svo úrslit kynnt og það var hann Kasper Tyszkiewicz sem var með flest stig.  Í næstu umferð verða orðin líka kynnt á facebook síðu skólans svo þið getið rætt um þau heima.

Að lokum minni ég svo enn og aftur á að þriðjudaginn 26.febrúar óskum við eftir því að þið, ágætu foreldrar, komið í vinnu með okkur þar sem við vinnum með þjóðfundarsniði að því að finna út hvernig við í sameiningu getum gert skólann eins góðan og við getum fyrir börnin okkar og þar með samfélagið.