VALMYND ×

Fréttir vikunnar 28.sept-2.okt.

Miðstig skreytir refil
Miðstig skreytir refil
1 af 2

Nú eru samræmdu prófin hjá 4.og 7.bekk afstaðin, þetta eru stór og mikil próf þar sem gert er ráð fyrir að nemendur geti lesið úr flóknum leiðbeiningum og farið eftir þeim. En hvort sem manni finnast prófin réttmæt eða ekki gefa þau ákveðna mynd af stöðu nemenda miðað við landsmeðal á þeim tíma sem þau eru tekin og við eigum von á niðurstöðum í byrjun nóvember.

Við erum sífellt að reyna að bæta aðstöðu nemenda og í þessari viku tókum við í notkun ný borð fyrir nemendur á miðstigi og settum upp töflur sem eiga að hjálpa til með hljóðvist í stofunni þeirra.   Það þýðir líka að við erum með nokkur skólaborð sem við getum séð af og ef einhver vill nota þau er velkomið að hafa samband. 

Allir nemendur skólans tóku þátt í Ólympíuhlaupi Íþróttasambands Íslands í dag og hlupu samtals 232 kílómetra, það var mjög gaman hjá okkur og við vorum öll svo upptekin að það hreinlega gleymdist að taka myndir.

Nemendur miðstigs hreinsuðu rusl af skólalóðinni og nærliggjandi svæði í vikunni og það er skemmst frá að segja að þeir voru miður sín yfir öllum sígarettustubbunum og tóbaksleifunum  sem þeir tíndu upp við innganginn að sundlauginni og á götunni hér fyrir framan.

En við eigum líka bara venjulega daga og með þessari frétt fylgja tvær myndir, annars vegar af nemendum miðstigs að skreyta refil að hætti sögualdar og hins vegar af nemendum yngsta stigs að skoða glansmyndasafnið hennar Ásu og það má sjá að áhuginn leynir sér ekki.

Síðasta vikan í skólasundi hefst á mánudag og sundkennarinn, hún Guðríður Sigurðardóttir er mjög ánægð með hvað okkar nemendur eru vel syndir, kurteisir og prúðir.

Það gekk mjög vel að fá fulltrúa foreldra í skólaráð og verða þær Emilia Agata Górecka og Anna Anikiej fulltrúar næstu tvö skólaárin.

Og að lokum, einmitt á þessari stundu er verið að mála margföldunartöfluna og áttavita á skólalóðina okkar. Það getum við gert vegna veglegs styrks sem við fengum frá Kvenfélaginu Ársól og þökkum við kvenfélagskonum kærlega fyrir.

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.