VALMYND ×

Fréttir vikunnar 3.-7. febrúar 2020

Nemendur á fjarkynningu frá Terra
Nemendur á fjarkynningu frá Terra
1 af 2

Miðstigið er nú að vinna umhverfisverkefni sem meðal annars felur í sér mikla umfjöllun um sorp og annan úrgang. Þau hafa bæði vigtað umbúðir af ýmsu tilfallandi dóti sem berst í skólann og sitt eigið nesti. Þetta er fjölþætt verkefni sem tengir vel saman stærðfræði og umhverfisvernd. Einn daginn vó samanlagt nestið þeirra alls 2702 grömm og afgangarnir þegar þau voru búin að borða 527 grömm, þannig að þau höfðu aðeins borðað 80% af því sem þau voru send með. Þetta kallaði á margskonar hugleiðingar um hvað hægt væri að gera til að sporna við matarsóun og hversu mikið afgangar af nesti allra skólabarna á Íslandi myndu vega á einum vetri.

Á þriðjudaginn var Ingvar Sigurðsson, prófessor við Háskóla Íslands hjá okkur, hann er að aðstoða okkur við skipulag og mat á föstudagsverkefninu. Hann hélt einnig matsfund með nemendum og höfum við nú fengið niðurstöður úr þeim fundi til úrvinnslu. Nemendur eru ánægðir með flest í skólanum en þó er alltaf eitthvað sem má bæta og ég tel mjög gott fyrir okkur að fá utan að komandi aðila til að ræða við krakkana um hvernig þeim líka kennsluhættir og viðmót kennara því öll viljum gera okkar besta til að bjóða nemendum gæðakennslu.

Á miðvikudaginn byrjuðum við svo í Lífshlaupinu og hvetjum nú nemendur – og okkur sjálf- til hreyfingar í að minnsta kosti 30 mínútur daglega. Hreyfingin er svo skráð þegar nemendur koma í skólann. 

Við vorum að taka í notkun nýjar flokkunartunnur til að vera með innanhúss og á föstudaginn fengum við svo kynningu frá Terra um sorpflokkun. Kynningin fór fram í gegnum netið og var frumraun bæði okkar og þeirra á að vera með þannig kynningu fyrir grunnskóla. Þetta tókst mjög vel og nú ættu nemendur að geta leiðbeint foreldrum sínum um flokkun ef einhver vafaatriði koma upp.

Í gær var dagur leikskólans haldinn hátíðlegur um allt land og unglingarnir okkar fóru í heimsókn á leikskólann, þáðu veitingar og sungu með nemendum þar.

Að lokum geri ég hér tilraun til að sýna ykkur brot af gleðinni og sköpunarkraftinum sem fyllir húsið hjá okkur á föstudögum. Þetta er örstutt myndband af vélmenni sem tveir nemendur lögðu mikið á sig við að hanna og búa til.

https://drive.google.com/file/d/1y66FCXdOZ8DfTY96LxvuOhbBcMexIkFU/view?usp=sharing