VALMYND ×

Fréttir vikunnar 4.-8.janúar 2021

Sameiginleg bókahilla
Sameiginleg bókahilla
1 af 2

Gleðilegt nýtt ár ágætu lesendur

Þessi fyrsta vika okkar hefur gengið glimrandi vel. Mánudaginn 4.jan. vann starfsfólk að innra mati á skólastarfinu. Í þeirri vinnu leggjum við drög að áhersluatriðum komandi mánaða og næsta skólaárs á grundvelli þeirra áhrifa sem við sjáum af núverandi verkefnum.  Við munum halda áfram að leggja áherslu á uppbyggingu orðaforða hjá öllum nemendum og það gerum við helst í gegnum lestur, samræður og almenna vinnu með samhengi tungumálsins.  Þá ætlum við einnig að leggja enn meiri áherslu á almenna kurteisi þar sem rannsóknir sýna bein tengsl milli þess að vera fær um- og hafa vilja til að sýna kurteisi og almennrar vellíðunar.

Þá var einnig tekin ákvörðun um að undirbúa ekki hefðbundna árshátíð á þessu skólaári. Það gerum við í ljósi frétta af bólusetningum þar sem við teljum ólíklegt að leyfi verði komið fyrir stórum samkomum í lok mars. Ef það breytist munum við rigga upp einhverri skemmtun fyrir foreldra og aðra velunnara okkar.

Eftir að nemendur hófu skólagöngu þann 5.jan. hefur allt gengið sinn vanagang, það tók smá tíma fyrir marga að komast í gang aftur en í dag eru allir komnir í vinnugír og ákveðnir í að leggja sig vel fram á nýju ári.  Eins og áður sagði er lestur eitt af okkar áhersluverkefnum og í vikunni settum við upp bókahillu þar sem við söfnum í titlum þeirra bóka sem við lesum.  Hugmyndin er svo að veita viðurkenningu þegar búið er að fylla í ákveðnar hillur. Þetta er 100% samvinnuverkefni því bækur eru ekki merktar einstaklingum enda gengur okkur mun betur þegar við hjálpumst að heldur en þegar við erum í samkeppni.

Með þessari frétt fylgir einnig mynd frá fyrsta náttúrufræðiverkefni vorannar hjá miðstigi, nemendur fóru út og náðu snjó sem þeir bræddu og fylgdust með hvernig rúmmál hans minnkaði eftir því sem hitinn óx.

Að lokum ítrekum við svo óskir okkar um aðstoð við að koma upp búningasafni í skólanum.

Í vinnu nemenda við áhugasviðsverkefnin eru oftar en ekki teknir upp ýmiskonar leikþættir og nú langar okkur til að koma okkur upp ,,búningasafni“ í skólanum. Það er að koma okkur upp safni af húfum, höttum, veskjum og jafnvel hárkollum og öðru sem nota má til að búa sér til fjölbreytt gervi.  Við yrðum þakklát ef þið eigið eitthvað slíkt sem þið væruð til í að gefa okkur.

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.