VALMYND ×

Fréttir vikunnar 5.-9.okt

Yngsta stig lærir um samvinnu
Yngsta stig lærir um samvinnu
1 af 3

Veðrið hefur leikið við okkur þessa vikuna og margar stundir verið nýttar til útiveru, á myndinni sem fylgir hér með eru nemendur í yngstu deild að leika sér með fallhlíf um leið og þeir æfa sig í samvinnu. 

Það voru skil í áhugasviðsvinnu hjá okkur í þessari viku, nemendur voru að vinna með atriði úr Íslandssögunni og tóku fyrir mjög fjölbreytt viðfangsefni. Margir tóku fyrir einstakar ,,hetjur“ svo sem Gretti og Gísla Súrsson en flestir unnu þó með hörmungar eins og spænsku veikina, berkla, svarta dauða og eldgos, enda af nógu að taka af slíku þegar saga Íslands frá 870-1990 er skoðuð vandlega. Nemendur eru yfirleitt mjög áhugasamir um þessi verkefni og í næsta viðfangsefni velja þeir sjálfir hvað þeir vilja fjalla um.  Við höfum skoðað möguleika á að setja úrval af verkefnum nemenda á heimasíðu skólans þannig að þið getið skoðað þessi flottu verkefni sem nemendur eru að skila en útfærsla á því krefst nokkurrar vinnu í sambandi við persónuverndarlög svo það er flóknara en það virðist við fyrstu sýn, en nemendur geta alltaf sýnt ykkur sín verkefni.

Sundkennslu haustsins er nú lokið og allir hafa tekið góðum framförum, við gerum ráð fyrir að byrja aftur í apríl svo allir fari ferskir inn í sumarið.

Vegna sóttvarna erum við enn beðin um takmark sem mest aðgang fullorðinna í skólann og því hefur ekki verið hægt að halda okkar reglulegu haustfundi með foreldrum eða aðalfund foreldrafélagins.  Ef þetta ástand verður viðvarandi eitthvað lengur munum við reyna að koma því sem við hefðum viljað tala um á foreldrafundi til ykkar með rafrænum hætti.

Í næstu viku er svo vetrarfrí hjá okkur og því hvorki skóli hjá nemendum á föstudag né mánudag í þarnæstu viku.

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.