VALMYND ×

Fréttir vikunnar 8.-12.október 2018

Þessi vika hefur verið nokkuð róleg hjá okkur í skólanum.  Sundkennsla er þó hafin og raskar hún venjubundinni stundatöflu nokkuð.  Það verður líka sund mánudaginn 15.okt. og svo byrjum við aftur þriðjudaginn 23.október.  Eins og núna munu nemendur þá fara í sund á hverjum degi.

Við fengum erlenda gesti á miðvikudaginn, en þá komu kennararnir frá Grikklandi, Búlgaríu, Hollandi og Svíþjóð sem við munum verða í samstarfi við næstu tvö árin, í Erasmusverkefninu, í heimsókn.  Þeir skoðuð skólann og fannst mikið til um hvað aðstaðan hér er almennt góð.  Svo fóru þeir í ,, Seafood trail” gönguna og voru yfir sig ánægðir.

Í dag fóru svo nemendur unglingastigsins yfir á Þingeyri á fyrirlestur hjá Siggu Dögg, kynfræðingi og vonandi koma allir fróðari heim.

Við erum búin að fá fyrstu niðurstöður okkar úr lesfimi þetta árið.  Þar sjáum við hvernig okkar krakkar standa miðað við landsmeðaltal.  Við erum hærri en landsmeðaltal í einum árgangi, á landsmeðaltali eða alveg við það í fjórum árgöngum en undir því í fimm árgöngum.  Það er margsannað að æfingin skapar meistarann og það á við í lestrinum eins og í öllu öðru.  Mig langar því að biðja ykkur, ágætu foreldrar, að muna eftir að hlusta á krakkana ykkar lesa í að minnsta kosti 15 mínútur á hverjum virkum degi.  

Ég minni svo að lokum á að enn vantar okkur fjóra fulltrúa í stjórn foreldrafélagins.