VALMYND ×

Gjöf til Grunnskólans á Suðureyri

Þóra ásamt Vilborgu Ásu og Aðalsteini.
Þóra ásamt Vilborgu Ásu og Aðalsteini.

Fyrir mörgum árum barst Grunnskólanum á Suðureyri að gjöf veglegt steinasafn.  Safnið hefur verið geymt í kössum allt til þessa dags en nú munu verða breytingar þar á.  Þóra Þórðardóttir sem lengi kenndi við Grunnskólann á Suðureyri tilkynnti í gær að hún myndi gefa skólanum veglega upphæð til að setja safnið upp þannig að það megi verða nemendum og öðrum gestum til gleði og ánægju.  Þetta gerir Þóra í tilefni 80 ára afmælis hennar og vill með því sýna bæði gefanda safnsins, Guðmundi Júlíusi Gissurarsyni, og súgfirskum börnum þakklæti í verki.  Guðmundi Júlíusi fyrir gjöfina og súgfirsku börnunum fyrir að hafa fengið að njóta samvista við þau.  Fyrir hönd skólans færi ég Þóru Þórðardóttur bestu þakkir fyrir gjöfina.  Við þetta sama tækifæri færði Þóra íbúasamtökunum einnig gjöf sem ætluð er til að kaupa og setja upp leiktæki.  Á með fylgjandi mynd má sjá gefandann, Þóru Þórðardóttur með Vilborgu Ásu Bjarnadóttur og Aðalsteini Traustasyni sem tóku við gjöfunum.

Jóna