VALMYND ×

Helstu fréttir liðinnar viku

Nemendur saman í leik.
Nemendur saman í leik.
1 af 3

Á þriðjudaginn kom Þorgrímur Þráinsson rithöfundur og fótboltakeppi í heimsókn til okkar.  Þá komu líka til okkar nemendur frá Þingeyri og Flateyri.  Þorgrímur var með fyrirlestur sem tengist lífsleikni fyrir unglinga og skapandi skrifum fyrir miðstig.  Meðan Þorgrímur var með unglingana var miðstigið allt saman í leikjum með Óskari og svo öfugt.  Þarna fór saman hin besta skemmtun og fræðsla.  Á þriðjudag og miðvikudag voru svo haustfundir foreldra og þakka ég ykkur, ágætu foreldrar, kærlega fyrir góða mætingu og þátttöku í umræðum.  Þegar börnin okkar upplifa að við stöndum saman um nám þeirra og uppeldi gengur okkur best.  Á fimmtudag og föstudag þreyttu svo nemendur 4.bekkjar sín samræmdu próf og allir lögðu sig fram og gerðu sitt besta.  Á fimmtudaginn skelltum við okkur líka í Norræna skólahlaupið.  Nemendur skólans hlupu samtals 252 kílómetra, eða 6,2 kílómetra á hvern nemanda.  Það er aldeilis vel af sér vikið.

Næsta vika verður ekki viðburðalaus frekar en aðrar.  Á mánudaginn er yngsta stigi boðið á óperu um Gilitrutt í Edinborgarhúsinu.  Á miðvikudag er starfsdagur hjá okkur og frí hjá nemendum og á föstudaginn verða svo ,,öðruvísileikarnir”.  Þá koma nemendur frá Þingeyri, Flateyri og Súðavík og við verðum með sameiginlega dagskrá sem endar með grillveislu klukkan 12:00.  Það væri frábært ef einhverjir foreldrar gætu komið og aðstoðað okkur við það.

Nokkrar myndir frá vikunni fylgja hér með.

Nú erum við búin að finna sundkennara og verður kennsla vikurnar 8.-12.okt og 23.-26.okt.