VALMYND ×

Hvað er í kassanum?

Í dag komu nemendur úr Tjarnabæ, sem byrja í skólanum í haust, í heimsókn. Nemendur sungu saman og lærðu um vöðvana, t.d. hvað við notum mikið af vöðvum þegar við brosum eða erum í fýlu.

Því næst var komið að kassanum. Friðrika nemandi okkar í 1. bekk hafði tekið með sér áhugaverðan hlut sem hún vildi sýna samnemendum sínum. Nemendur fengu að giska á hvað væri í kassanum og voru þau með ýmsar hugmyndir um hvað gæti verið í kassanum. Var kannski froskur, leikfangabíll nú eða kannski kónguló. Skólastjórinn stakk upp á því að það væri kannski kind í kassanum. En nemendur voru því ekki sammála, enda kæmist kind ekki fyrir í svona litlum kassa, nema hún væri mjög lítil.

Í kassanum leyndist strútsegg sem nemendur fengu að skoða. Miklar umræður sköpuðust um hvernig dýr strútar eru og við skoðuðum muninn á hænueggi og strútseggi. Miklar pælingar voru um það hversu stórt spælt egg eða eggjakaka úr strútseggi væri. Það treysti sér enginn til að borða svoleiðis aleinn.

Hægt er að sjá fleiri myndir hér.

Við hvetjum foreldra eindregið til að leyfa nemendum að koma með áhugaverða hluti í skólann í samstarfi við kennara.