VALMYND ×

Skólasýning og afmæli

Skólasýning Grunnskólans á Suðureyri var haldin hátíðleg í gær. Um 150 manns komu í skólann og skoðuðu verk nemenda gæddu sér á veitingum og fögnuðu 110 ára afmæli skólans.
Verk nemenda
Nemendur sýndu verk sem þau hafa unnið í vetur. Fjölbreytt verkefni smíðuð, máluð, saumuð og teiknuð voru til sýnis. Stoltir nemendur gengu með sýnu fólki um skólann og sýndu þeim verk sem þeir hafa unnið á skólaárinu.
Skólapeysur
Skólapeysur voru afhendar öllum sem pöntuðu slíkar og var það mál manna að þær væru vel heppnaðar. Það var einstaklega skemmtilegt að horfa yfir hópinn og sjá hafsjó af stoltum nemendum merkta skólanum. Við þökkum foreldrafélaginu kærlega fyrir að standa að peysukaupunum.
Merki skólans
Vinna við merki skólans hófst skólaárið 2015 -2016. Í samkeppni vorið 2016 voru það hugmyndir sem Hera Magnea Kristjánsdóttir og Katla Vigdís Vernharðsdóttir sem vann. Leitað var til fjölmargra einstaklinga þá strax og á næsta skólaári til að fá þá til að vinna sigurhugmyndina en það gekk seint og illa að fá verkið klárað. Það var að lokum Steinbjörn Logason, kennari og grafískur hönnuður sem kláraði verkið á haustmánuðum 2017 og kunnum við honum bestu þakkir fyrir það. Ákveðið var að geyma merkið fram að skólasýningu og 110 ára afmæli skólans.
Fáninn og fánastöngin
Fyrir nokkru kom upp sú hugmynd að fá fánastöng við skólann. Kvenfélagið tók af skarið og ákvað að gefa skólanum fánastög og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir það. Bjarni skellti henni svo niður fyrir okkur. Það voru skólahópsnemendur frá leikskólanum sem sáu um að draga upp fánan og gátum við því flaggað nýju merki skólans á skólasýningunni.
110 ára afmæli
Grunnskólinn á Suðureyri á sér sögu alveg aftur til 1908. Því var tilvalið að hnýta afmælið, merkið, peysurnar og skólasýninguna saman í stóra hátíð. Því var keypt afmæliskaka fyrir skólann og auk hennar komu foreldrar með allskonar gúmmelaði og var því veisluborðið einstaklega veglegt og kunnum við foreldrum bestu þakkir fyrir það. En eins og áður fer öll kaffisalan á skólasýningunni í ferðasjóð nemenda.

Takk fyrir frábæran dag

Við þökkum nemendum, foreldrum og öðrum áhugasömum kærlega fyrir komuna. Veðrið var gott, stemningin var góð og dagurinn því hátíðlegur og skemmtilegur. Starfsfólk skólans fær svo að lokum kærar þakkir fyrir að standa að þessu öllu saman. Takk öll fyrir frábæran dag.
Hér er hægt að skoða myndir frá deginum.