VALMYND ×

Þjóðarsáttmáli um læsi

Í dag var undirritaður Þjóðarsáttmáli um læsi í bókasafninu á Ísafirði . Nemendum í 8. bekk sem taka Písa próf þegar þau fara í 10. bekk var sérstaklega boðið á undirritunina. Hjördís, Katla og Þórunn fóru sem fulltrúar skólans og fylgdust með. Allir nemendur fá svo upplýsingar um verkefnið með sér heim fyrir helgi.

Gylfi Jón Gylfason verkefnastjóri kynnti verkefnið og Margrét Halldórsdóttir sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs fór yfir það sem við höfum nú þegar gert til að bæta læsi í Ísafjarðarbæ. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra hélt síðan stutta ræðu þar sem m.a. kom fram að þetta tækist ekki án samstarfs við heimilin og að læsi væri mikilvægt til að veita öllum börnum sömu tækifæri óháð efnahags foreldra. Hann sagði líka að samkvæmt Písa prófinu frá 2012 gætu 30% drengja og 12% stúlkna í 10. bekk ekki lesið sér til gagns og að við íslendingar, bókaþjóðin, þurfum að taka okkur verulega á.

Síðan var Þjóðarsáttmáli um læsi undirritaður af Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra, Línu Björgu Tryggvadóttur frá Heimili og skóla og Nanný Örnu Guðmundsdóttur, forseta bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.