VALMYND ×

Viðburðaríkir dagar

Nemendur komu heim í gærkvöldi eftir viðburðaríka og skemmtilega viku.

Á mánudaginn lagði skólahreysti lið skólans af stað til Reykjavíkur. Við stoppuðum reglulega og hristum okkur og skiptum um sæti til að halda okkur ferskum fyrir keppnina. Þegar til Reykjavíkur var komið fengum við okkur salat og svo pizzu í eftirrétt, því salatið var ekki alveg að gera sig fyrir svanga ferðalanga.

 

Á þriðjudaginn var farið snemma af stað og fengið sér boost áður en við fórum og könnuðum aðstöðuna í Mýrinni þar sem skólahreystikeppnin fór fram. Krakkarnir prófuðu brautina og settu sér markmið fyrir keppnina.

Í keppninni var ég sjálfur að farast úr stressi, en liðið stóð sig mjög vel. Grunnskólinn á Suðureyri var að taka þátt í fyrsta skipti í mörg ár og ég er hreinlega að springa úr stolti yfir því hvað krakkarnir stóðu sig vel. Við enduðum í þriðja sæti í litla Vestfjarðar riðlinum.

Aðrir nemendur af unglingastigum frá Þingeyri, Flateyri og Bolungarvík hittu okkur á keppninni. Að henni lokinni var farið með farangurinn upp í Breiðholt, en þar gistum við í félagsheimili. Farið var í sund í Breiðholtslaug, borðaðar pizzur og síðan var farið í bíó í Álfabakka. Við sáum þar myndina Fist fight sem fjallar um kennara sem slást í lok skóladags. Nemendum fannst myndin almennt mun betri, fyrir þær sakir að með þeim sátu skólastjórar frá Suðureyri og Þingeyri. Þrátt fyrir fjölda áskorana fórum við Erna samt ekki að slást eftir myndina, enda kemur okkur vel saman.

 

Við tókum daginn snemma á miðvikudag og fórum á Bessastaði. Forsetinn tók vel á móti okkur og við fengum að skoða okkur um. Hápunkturinn var auðvitað samveran með forsetanum og draugarnir í kjallaranum. Eftir góða heimsókn, samveru, ávaxtasafa og kex með Guðna, skelltum við okkur niður í bæ. Við vorum aðeins of mörg fyrir Alþingispallana þannig að við urðum að sætta okkur við að skoða Alþingishúsið bara að utan. Því næst fóru nemendur á skólaþing. Á skólaþingi fara nemendur á þing, taka þátt í flokkstarfi og taka afstöðu til frumvarpa um t.d. kattarhald og tölvunotkun. Ónefndir Súgfirðingar tókust svo á í þingsal skólaþings áður en atkvæði voru talin.

Eftir skólaþing var farið á skauta í Egilshöll. Fáir voru vanir, en allir voru orðnir býsna flinkir og mér til mikillar gleði þá sluppu allir, kannski marðir, en ómeiddir frá þessu. Við skelltum okkur svo í kvöldmat í Skeifunni. Flestir fengu sér kjúkling áður en við fórum svo í sund í Laugardalslaug fyrir svefninn.

 

Eftir morgunmat á fimmtudag fórum við á Íslandsmót iðn- og verkgreina þar sem nemendur gátu skoðað hvað framhaldsskólar landsins hafa upp á að bjóða.

Það voru þreyttir en sælir krakkar sem komu sér vel fyrir í rútunni og héldu heim á leið eftir stórgóða ferð. Súgfirðingar voru sjálfum sér og samfélaginu til mikils sóma. Að lokum viljum við öll þakka félögum okkar frá Bolungarvík, Flateyri og Þingeyri kærlega fyrir samveruna.

 

Hér má skoða myndir úr ferðinni.