VALMYND ×

Vikan 23.-27.september

Þessi vika hefur verið óvenju hefðbundin hjá okkur, það er orðið sjaldan sem ekkert sérstakt er um að vera fimm daga í röð en þannig var það núna.  Krakkarnir eru auðvitað duglegir að vinna verkin sín og flestum gengur bara nokkuð vel.

Í vikunni kláraði Ása að lestrarprófa alla nemendur og við sjáum greinilega að lesturinn þarf að þjálfa ennþá betur.  Af 35 nemendum sem tóku próf núna hækkuðu tveir sig frá því í vor, tveir stóðu í stað en 26 lækkuðu.  Þetta segir okkur einfaldlega að þeir hafa ekki verið duglegir að lesa heima í sumar og því ekki náð að halda við færninni sem þeir voru komnir með í vor.  Ég vil biðja ykkur ágætu foreldrar að hafa í huga að stærsti partur lestrarnámsins er þjálfun og hún verður að fara fram heima að mestu leyti. Þó að allir lesi í 10-15 mínútur í skólanum á hverjum degi er það alls ekki nóg eins og þessar tölur sýna.  Það er sérstaklega mikilvægt að muna eftir þessu með nemendum sem eiga erfiðara með lesturinn því þeir þurfa mestu þjálfunina, hversu ósanngjarnt sem það hljómar þá er það einfaldlega þannig.

Annað sem okkur langar að vekja athygli á er mikilvægi þess að nemendur komi með hollt nesti í skólann og helst í umhverfisvænum umbúðum.  Hollt nesti er til dæmis gróft brauð með áleggi, ávextir og grænmeti.  Við biðjum ykkur að senda börnin ekki með sætar kökur eða annað sætmeti í nesti, slíkt gefur þeim ekki þá næringu sem þau þurfa á að halda til að hafa einbeitingu við vinnuna.  Í skólanum er í boði að fá mjólk í áskrift og margir nýta sér það, eins er alltaf hægt að fá besta svaladrykkinn, vatnið.  Af umhverfisástæðum biðjum við ykkur líka að takmarka fernudrykki eins og hægt er. 

Í næstu viku verður sund á þriðjudag og fimmtudag og nemendur 1.-7.bekkjar fara á ,,Öðruvísileikana" í Súðavík á föstudaginn.

Á miðvikudaginn er starfsdagur og þá verður allt starfsfólk skólans á skyndihjálparnámskeiði og fær fyrirlestur um menningarlæsi sem tengist þróunarverkefninu okkar.

Kveðja

Jóna