VALMYND ×

Fréttir

Nýtt námsmat og mentor - foreldrakynning

Miðvikudaginn 4. okt kl 17:00 er foreldrum boðið upp á mentor kynningu í skólanum. Á þessu skólaári höfum við hafið samstarf við mentor. Mentor er kerfi sem heldur utan um stundatöflur, mætingar og námsframvindu nemenda. Á fundinum verður farið yfir aðgang foreldra og nemenda og hvernig námsmati verður háttað framvegis. Við hvetjum foreldra eindregið til að fjölmenna og kynna sér nýtt námsmat og mentor.

Matseðill

Mánudagur 2.okt

grjónagrautur, slátur, brauð með osti og kæfu, kanillsykur, rúsinur, grænmeti og ávextir

Þriðjudagur 3.okt

STARFSDAGUR

Miðvikudagur 4.okt

Grisagullas, kartöflur, salat, ávextir

Fimmtudagur 5.okt

Skyr, brauð með eggi, grænmeti og ávextir

Föstudagur 6.okt

Fiskur í raspi, kartöflur, köld sósa, grænmetissalat, ávextir

 

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU

Leiksýning fyrir miðstig

Á morgun þriðjudag 3. okt. er leiksýning kl 13:15 fyrir nemendur á miðstigi í Edinborgarhúsinu. Um er að ræða frumsýningu á leikritinu Oddur og Siggi á vegum Þjóðleikhúsins. Sýningin er nemendum að kostnaðarlausu og hægt er að nálgast nánari upplýsingar hér. Við hvetjum þá sem geta og/eða hafa tíma til að fjölmenna.

Lestrarátak

Nú er komið að fyrsta lestrarátaki vetrarins en það stendur til 27.október. Nemendur á yngra stigi fengu með sér blað heim í dag og nemendur í miðhóp fá það heim á miðvikudaginn. Við ætlum að byrja á fimmunni. Fimman felst í því að nemendur lesa þá bók sem þau eru með í heimalestri eða aðra að vild, lesa í 1 mínútu og merkja við hvað þau lásu langt. Síðan byrja þau aftur á sama stað og reyna að komast lengra en síðast. Þetta er endurtekið fimm sinnum. Með þessu er verið að þjálfa lesfimina og lestraröryggið.

Starfsdagur

Þriðjudaginn 3. okt. verður starfsdagur í skólanum. Kennarar og starfsmenn halda þá til Þingeyrar þar sem við munum sitja námskeið og vinna með samstarfsfólki okkar í Dýra- og Önundarfirði.

Við minnum á sundkennslu sem hefst á mánudaginn 2. okt. og heldur áfram miðvikudaginn 4. okt. og svo aftur mánudaginn 9. okt., þriðjudaginn 10. okt. og miðvikudaginn 11. okt.

Sundkennsla

Skólinn hefur gengið frá ráðningu á Páli Janus Þórðarsyni til að koma og sinna lotubundinni sundkennslu. Á mánudag 2. okt. og miðvikudag 4. okt. þurfa nemendur að koma með sundföt. Við höldum svo áfram með sund vikuna á eftir. 9., 10. og 11. okt. Búast má við einhverri röskun á stundatöflum þá daga sem sund er.

Við hvetjum foreldra eindregið til að nýta sundlaugina á milli sundtímana og eftir þá og fara með börnum í sund. Biðja þau að sýna ykkur hvað þau hafa lært og gefa þeim tækifæri til að æfa sig. Til að ná fram góðri færni í sundi er mikilvægt að nemendur fái þjálfun utan skóla. Sundkennslan fer svo aftur af stað í vor. Foreldrar fá fréttir af því þegar nær dregur.

Náttúrufræðival

Nemendur í 7. - 10. bekk taka þátt í vali líkt og undanfarin ár. Fjölbreytt val er í boði á vorin og allt það vinsælasta hjá nemendum er boðið upp á í vali skólaárið á eftir. Í ár völdu nemendur sér m.a. skólahreysti, heimilisfræði, áhugasvið, spænsku og útivist. Við skiptum árinu í 8 tímabil og nemendur staldra stundum stutt við í vali á meðan önnur taka meiri tíma.

Eitt slíkt val byrjaði í gær, náttúrufræðival. Í náttúrufræðivali fá nemendur stutta kynningu á lögmáli eða hugtökum og gera svo tilraunir, stórar og smáar sem tengjast hugtakinu eða lögmálinu. Í gær fengu nemendur kynningu á Newton og lögmálum sem hann setti fram. Að því loknu gerðu þau tilraunir.

Samræmd könnunarpróf

Nemendur í 7. bekk fóru í samræmt könnunarpróf í íslensku í dag. Eftir smá tæknilega erfiðleika komumst við af stað og að prófi loknu voru allir á því að þetta hefði bara verið gaman. Á morgun fara þau svo í stærðfræði könnunarpróf. Í næstu viku er svo komið að 4. bekk en þau fara í íslensku prófið á fimmtudaginn og stærðfræði prófið á föstudag.

Námskeið fyrir foreldra og forráðarmenn

,,Náum tökum á lestrarnáminu á skemmtielgan hátt við eldhúsborðið heima"

Námskeið ætlað foreldrum og öðrum sem vilja styðja við nám barna.

 

Námskeiðið er haldið í fundarsal á 4. hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði mánudaginn 9. október kl 19:30 til 21:30.

 

Vinsamlegast skoðið meðfylgjandi mynd fyrir frekari upplýsingar.

Skráning fer fram á netfanginu: gudrunbi@isafjordur.is

 

 

Duglegir krakkar

Norræna skólahlaupið fór fram í dag, 3 árið í röð í Grunnskólanum á Suðureyri. Veðrið var einstaklega gott fyrir útihlaup. Fínn hiti og nokkrir dropar öðru hvoru svona aðeins til að kæla sig niður. Í ár buðum við upp á ávexti milli hringja og voru nemendur mjög ánægðir með það. Margir höfðu sett sér markmið sem þeir stóðust og allir gerðu sitt besta. Fyrir litla fætur er langt að fara 2 hringi á meðan aðrir fóru heila 6 hringi. En þess ber að geta að hringurinn er 2,5 kílómetrar og því fóru nemendur allir á bilinu 5 til 15 kílómetra í dag. 2015 hlupu nemendur að meðaltali 6,96 km og 2016 hlupu þeir 6,98 km. Í ár var meðaltalið 7,02 km. Alltaf tekst okkur að bæta okkur sem er auðvitað frábært. Við erum á þessum 3 árum búin að hlaupa yfir 800 km. Til hamingju Súgfirðingar með þessa frábæru krakka sem eru okkur öllum til sóma!

 

Hér má sjá myndir frá því í dag.