17.janúar 2020
Þessi vika var mjög óvenjuleg hjá okkur þar sem óveður og ófærð settu strik í reikninginn í þrjá daga. Ég þakka foreldrum fyrir hversu vel þeir fylgdust með á facebooksíðu skólans því upplýsingar komu ekki alltaf með löngum fyrirvara. Einnig mundu langflestir eftir að láta vita hvort börnin yrðu heima eða kæmu í skólann. Eins og áður hefur komið fram hefur Ísafjarðarbær sett þá vinnureglu að skólum sé ekki lokað nema um það komi tilmæli frá Almannavörunum eða lögreglu, það átti við um miðvikudaginn 15.janúar og því var skóla aflýst þann dag. Ef foreldrar telja ekki óhætt að senda börn í skóla vegna veðurs eru þeir beðnir um að tilkynna það til skólans. Miða má við að ef appelsínugul viðvörun er í gangi frá Veðurstofu Íslands geti verið erfitt fyrir börn að fara um og ef aðstæður eru þannig að ekki sé hægt að fylgja þeim þá er betra að hafa þau heima heldur en að senda þau út í óvissu. Nemendur fá ekki fjarveruskráningu við slíkar aðstæður.
En nú vonum við að þessari ótíð sé lokið og við getum haldið áfram okkar starfi með venjubundnum hætti.
Næstu þrjá föstudaga frá 9:40-11:00 munu 8.-10.bekkur fara í umferðarfræðslu til Auðar Yngvadóttur ökukennara. Auður er umsetinn kennari og til að nýta tímann sem best mun Sophus keyra krakkana okkar á Ísafjörð og Bryndís fylgir þeim þangað. Vonandi mun þessi fræðsla nýtast þeim í umferðinni.
Kveðja
Jóna