20.mars, frá skólanum
Góðan dag
Eins og síðustu daga gekk okkur bara nokkuð vel að halda umbeðinni fjarlægð milli nemenda. Hádegismaturinn skapar okkur talsvert viðbótarálag þar sem matráðurinn okkar má ekki koma í skólann. Við höfum því verið að reyna að græja matinn, skammta á diska og ganga frá, jafnframt því sem við þurfum að dekka 12 tíma í forföll vegna starfsmanna sem kenna líka við aðra skóla og mega ekki fara á milli. Hádegið er sá álagspunktur sem við ráðum síst við. Við viljum gera það sem við getum til að hægt sé að halda úti skóladegi við þessar skrýtnu aðstæður en lýsum okkur mát með matinn. Við biðjum ykkur því að senda nemendur með nesti til að borða í hádeginu í næstu viku. Þá getur hver nemendahópur einfaldlega borðað í sinni stofu. Ég er búin að ræða við Ísafjarðarbæ um þetta og þar eru menn að bíða eftir samræmdum viðbrögðum sveitarfélaga um hvernig farið verður með endurgreiðslur til foreldra sem hafa greitt fyrir mat.
Annars var bara gaman hjá okkur dagana sem hægt var að hafa skóla í þessari viku, snjórinn kallaði á fullt af verkefnum og hér er ein mynd sem sýnir verkefni nemenda.