VALMYND ×

Árshátíðarvika

Í gær var uppskeruhátíð hjá okkur, vinna við undirbúning hátíðarinnar hefur tekið nokkrar vikur og flesta tíma í skólanum í þeirri sem nú er að líða.  Það er ekki einfalt að koma saman eigin leikverki og reynir á marga námsþætti aðalnámskrár grunnskóla.  Til dæmis sköpun, samvinnu, ritun, handverk, tjáningu, samstarf og það að vera fær um að setja sig í spor annarra.  Það gengur oft á ýmsu þegar verið er að vinna textann, þá þarf að hafa hugrekki til að koma hugmyndum sínum á framfæri og stundum að leggja talsvert á sig til að sannfæra aðra um ágæti þeirra. Texti og boðskapur miðast við hugarheim nemenda  og gefur okkur innsýn í hvað þeim finnst sniðugt þó að við skiljum kannski ekkert í því.  Það er líka flókið að raða í hlutverk og nemendur eru sjaldnast allir sammála um hver á að gera hvað svo þar reynir verulega á samningatækni.  Þannig að það að setja saman eigið árshátíðarleikrit, eins og krakkarnir völdu að gera að þessu sinni, er mjög lærdómsríkt ferli fyrir alla nemendur.  Það skilar sér einnig til framtíðar því þeir nemendur sem fara í gegnum svona ferli nokkrum sinnum á skólagöngu sinni verða opnari fyrir því að gefa af sér og taka þannig virkan þátt í samfélagi sínu.  Í næstu viku verður svo skólastarf með hefðbundnari hætti, og eins og fram kom í síðustu viku munum við leggja áherslu á að vinna með samskipti og vináttu með eldri nemendum með formlegum hætti.

Við þökkum ykkur kærlega fyrir komuna og vonum að þið hafið haft jafn gaman af þessu og við.