Bláfáninn afhentur höfninni
Síðastliðinn föstudag fór Grunnskólinn ásamt leikskólanum á höfnina og var viðstaddur flöggun bláfánans, Suðureyri var að flagga fánanum í sjöunda skiptið, það er mikill heiður fyrir lítið samfélag að flagga slíkri umhverfisvottun og óskum við þeim sem standa sig svona vel að umhverfismálum til hamingju með viðurkenninguna.
Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisvottun sem veitt er smábátahöfnum, baðströndum og þjónustuaðilum í sjálfbærri sjávarferðamennsku (t.d. hvalaskoðunarbátum) fyrir árangursríkt starf í umhverfismálum. Meginmarkmið verkefnisins er að vernda lífríki haf- og strandsvæða, draga úr umhverfisáhrifum, bæta öryggi og efla umhverfisvitund. Bláfáninn er tákn um góða frammistöðu í umhverfismálum og bætir ímynd og ásýnd rekstraraðila þar sem hann blaktir við hún.
Ísland er umkringt hafi og byggir íslenskt samfélag að miklu leiti hag sinn á auðlindum hafsins og ferðaþjónustu og því mikilvægt að stuðla að aukinni umhverfisfræðslu til verndar hafinu en Bláfáninn er gott tæki fyrir sveitarfélög til þess að sinna því ábyrgðarhlutverki.
Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir verkefnisstjóri Bláfánans á Íslandi bað öll börn að hjálpa sér að fylgjast með á höfninni, til að passa upp á hafið okkar og náttúruna með því að.
- spara rafmagn, vatn og eldsneyti
- hvetja sjófarendur til að vernda umhverfið og ganga vel um
- nota ruslagáma og flokka endurvinnanlegt sorp, s.s. dósir og plastflöskur
- tilkynna um mengun í sjónum og brot á reglum til eftirlitsaðila og Landverndar