Föstudagspistill 26.október 2018
Það hafa verið annasamir dagar í skólanum að undanförnu og þá sérstaklega hjá unglingunum. Á miðvikudag fóru þeir í heimsókn til Flateyrar á fyrirlestur sem nefnist ,,Skáld í skólum”. Í honum kynna rithöfundar vinnulag sitt og leiðbeina um skapandi skrif. Í gær var svo Íþróttahátíðin í Bolungarvík, þar var dagskrá frá 10 – 18:45 og svo ball að henni lokinni og í dag eru unglingarnir okkar í FabLabinu á Ísafirði að kynna sér möguleikana á því sem hægt er að gera þar. Leiðbeinendur þar eru Laufey Eyþórsdóttir og Þórarinn Breiðfjörð og Bryndís fer með þeim og er þeim til halds og trausts.
Niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum eru komnar í hús og nemendur fara með þær heim í dag. Þær eru misjafnar eins og gengur og mikilvægt er að hafa í huga að allir gerðu sitt besta í próftökunni. Allskonar þættir geta svo haft áhrif á hvort svör nemenda eru rétt eða röng. Þetta eru ekki heildarniðurstöður um námsgetu nemenda, heldur aðeins ein mæling á tiltölulega afmörkuðum námsþáttum. Í heildina erum við ánægð og stollt af okkar krökkum og höfum þarna fengið vísbendingar um atriði sem vinna þarf betur með.
Fyrra tímibili í sundkennslunni er nú að ljúka og við tökum þann þráð upp að nýju þegar fer að halla undir vor.
Búið er að stofna nýja facebook síðu fyrir skólann, síðan er hugsuð til að koma upplýsingum um fréttir og tilkynningar til foreldra og annarra sem hafa áhuga á skólastarfinu. Heiti síðunnar er Grunnskólinn á Suðureyri.
Í næstu viku verða foreldraviðtöl, umsjónarkennarar úthluta foreldrum og nemendum tímum, mikilvægt að er foreldrar og börn komi saman í þessi viðtöl til að hægt sé að ræða hvernig gengur í skólanum og hvað er hægt að gera til að hver nemandi megi ná sem mestum framförum.
Á þriðjudaginn verður svo ,,Halloween- ball” í skólanum. Ballið byrjar kl.19:00 og gaman væri ef sem flestir kæmu í búningum. Nemendur fengu auglýsingu um ballið með sér heim í dag.
Kveðja
Jóna