Fréttir vikunnar 1.-5.febrúar 2021
Hápunktur þessarar viku var hjá okkur í dag. Við héldum nemendaþing þar sem nemendur 3.-10.bekkjar fengu fyrst fræðsluerindi frá Björgu Sveinbjörnsdóttur um jafnrétti og fjölluðu í framhaldinu um fimm spurningar sem varða það málefni. Eitt aðalefni í erindi Bjargar var að það er fólk sem breytir heiminum, allar kynslóðir breyta einhverju og það er mikilvægt að gera sér grein fyrir hverju maður vill breyta. Nemendur frá Grunnskóla Önundarfjarðar voru með okkur í þessari vinnu og Önfirðingar úr 1.og2.bekk voru í heimsókn hjá okkar 1. og 2.bekk meðan á þinginu stóð.
Nemendur komu okkur skemmtilega á óvart með einlægum hugmyndum sínum um málefnið og margt af því sem þeir höfðu fram að færa var hreinlega magnað og enn og aftur sýndi það sig að ,,börn vita sínu viti“. Þá var líka ákaflega gaman að sjá hversu góðir og hjálpsamir eldri nemendur eru við þá yngri, til dæmis með því veita þeim tækifæri til að taka þátt í kynningum og hvetja þá til að lesa hluta af niðurstöðum hópanna.
Framtíðin er sannarlega björt með þetta unga fólk sem hluta af samfélaginu.
Hér koma örfá sýnishorn af því sem nemendur nefndu í dag þið munið sjá meira af því í næstu viku.
- 1) Hvað getur skólinn ykkar gert til að auka líkur á jafnrétti?
Tala um vandamálin og segja okkur hvernig við getum breytt þeim og verið sanngjörn
- 2) Hvað geta foreldrar gert til að auka líkur á jafnrétti?
Fræða börnin sín um réttindi þeirra og ekki flokka leik og athafnir í kynbundna flokkar
- 3) Hvað getið þið sjálf gert til að auka líkur á jafnrétti?
Láta alla vitað að þeir skipti máli og eiga rétt á að lifa eðlilegu lífi
Í lok dagsins skelltum við okkur svo í bingó, enda vinna morgunsins búin að vera mjög krefjandi.
Hafið það gott um helgina
Kveðja
Starfsfólkið í skólanum.