Fréttir vikunnar 1.-5.mars 2021
Í fréttum vikunnar er það helst að nemendur 7.bekkjar tóku þátt í forkeppni vegna Stóru upplestrarkeppninnar. Litlu skólarnir í Ísafjarðarbæ velja sameiginlega úr sínum hópi og mega senda tvo nemendur sem aðalmenn til þátttöku og skemmst er frá því að segja báðir fulltrúarnir koma úr okkar skóla að þessu sinni. Þeir eru búnir að vera duglegir að æfa sig og við óskum þeim góðs gengis í lokakeppninni sem verður í Hömrum miðvikudaginn 10.mars.
Nemendur okkar keppast nú við að lesa og það gengur alveg glimrandi að fylla í sameiginlegu bókahilluna. Við settum upp ákveðna umbun eftir tiltekinn fjölda bóka og í vikunni var auka Tarsanleikur hjá nemendum og næsti áfangi var svo að bjóða upp á pitsu í hádeginu. Þegar ljóst var að aðeins vantaði nokkrar bækur upp á það, tóku nokkrir nemendur unglingastigs sig til, kláruðu bækur og skrifuðu bókamiða, svo nú lítur út fyrir að pitsan verði í næstu viku.
Við erum byrjuð að skipuleggja skólastarfið með hefðbundnari hætti á nýjan leik og þar sem okkur finnst við vera orðin of sein að setja af stað árshátíð með pompi og pragt ætlum við að nota síðustu vikuna fyrir páskafrí í þemavinnu. Þeirri vinnu á svo að ljúka með uppskeruhátíð sem við bjóðum foreldrum, og öðrum velunnurum skólans til, þann 26.mars. Þemað verður Ísland og við lofum að eitt og annað mun koma ykkur á óvart á sýningunni.
Nú svo erum við að setja stóra foreldraverkefnið í gang aftur og Brúarsmiðirnir sem ætluðu að koma með fræðslu fyrir okkur í fyrra eru núna tilbúnir að koma þann 13.apríl. Við biðjum ykkur að taka það síðdegi frá fyrir fræðslufund sem verður fyrir alla foreldra á Suðureyri.
Hafið það gott um helgina
Kveðja
Starfsfólkið í skólanum.