VALMYND ×

Fréttir vikunnar 11.-15.maí

Þessa vikuna hefur flest verið með venjulegu sniði í skólanum. Við reynum að halda hefðbundinni dagskrá eins og hægt þó að það sé oft erfitt þegar fer að vora.  Veðrið hefur verið þannig að undanförnu að nemendur og starfsmenn hálfpartinn gleyma því að skólaárið sé að verða búið.  Kannanir hafa verið hjá nemendum í nokkrum fögum en við leggjum þó megin áherslu á að námsmat endurspegli vinnu nemenda en sé ekki byggt á staðreyndaþekkingu.  Í næstu viku verður kennt samkvæmt stundatöflu og við minnum á að 22.maí verður skóladagur.

Miðstigið var með uppskeruhátíð vegna lestrarátaks í dag. Nemendur höfðu fengið að velja milli nokkurra atriða til skemmtunar og niðurstaðan var að fá að fara í íþróttasalinn í leiki. Edda bætti svo við skúffuköku sem hún notaði til að kenna þeim orðatiltækið ,,rúsínan í pylsuendanum“. Gaman væri ef foreldrar spyrðu nú börnin sín hvað það þýðir.

Sundkennsla

Sundlaugin verður opin í næstu viku og við höfum fengið sama sundkennara og í haust til að taka þá tíma sem hægt er. Við ætluðum að vera löngu byrjuð og því verður um nokkra skerðingu að ræða hjá nemendum. Kennslan er skipulögð í samráði við kennarann og þess gætt að þeir sem þurfa mest á kennslu að halda fái flesta tíma. Unglingastigið fær aðeins einn tíma, enda metur kennarinn það þannig að þeir nemendur séu allir mjög vel syndir, áherslan verður því á nemendur af mið-og yngsta stigi og best er að þeir komi með sundföt alla næstu viku og mánudag og þriðjudag 25. og 26. maí.

Fréttir frá foreldrafélagi

Vegna aðstæðna hefur verið ákveðið að fresta aðalfundi foreldrafélagsins fram í september.