VALMYND ×

Fréttir vikunnar 11.-15.nóvember

1 af 3

Í skólanum gengur allt sinn vanagang þessa dagana. Við vinnum á hverjum degi að því að efla orðaforða og reyna að skapa hæfilega metnaðarfullt námsumhverfi fyrir nemendur. Á þriðjudaginn var foreldrafundur þar sem flutt voru fræðsluerindi um svefn og næringu og svo var unnið með einkunnarorð skólans ,,ástundun, árangur, ánægja“. Við álítum að þessi einkunnarorð geti orðið okkur hjálpleg í vinnunni með nemendum en til þess þurfum við að hafa á þeim sameiginlegan skilning og vita hvað við viljum gera með þau. Við munum vinna nánar úr tillögum foreldra og birta þær svo hér á fréttasíðunni.

Í dag var svo Lestrarhátíðin okkar. Nemendur höfðu æft ýmiskonar upplestur sem þeir fluttu fyrir foreldra og gesti og unglingarnir buðu upp á vöfflur með rjóma. Það er mjög hvetjandi fyrir unga lesara að hafa áheyrendur að því sem þeir lesa og við þökkum öllum sem komu fyrir þátttökuna.

Í næstu viku verða svo foreldraviðtöl. Að þessu sinni ætlum við að reyna að nýta þau líka til að efla ábyrgð nemenda á eigin námi með því að nemendur sjálfir velja hvað af því sem þeir hafa unnið að í vetur þeir vilja sýna foreldrum sínum. Þetta er tilraunaverkefni hjá okkur og eins og í öllum slíkum verkefnum þarf ekki að búast við að það verði fullkomið í fyrsta sinn en við erum spennt fyrir því að vera með eitt svona viðtal á hverju ári.  Nemendur hafa fengið tímasetningar á viðtölunum sínum með sér heim.