VALMYND ×

Fréttir vikunnar 14.-17.apríl

Fyrst er hér tilkynning frá Almannavörnum um hópamyndanir sem við vorum beðin um að koma á framfæri við ykkur.

Við höfum fengið ábendingu um að hópamyndum unglinga á leiksvæðum að kvöldlagi hefur verið að aukast. Ástæðan er líklega gott veður og þær jákvæðu fréttir sem hafa verið að berast af þróun mála hjá okkur. Það er aftur á móti mjög mikilvægt að við höldum fókus og sofnum alls ekki á verðinum.

Viljum við hvetja ykkur til að vekja foreldra til vitundar um að við verðum öll halda áfram að fara eftir fyrirmælum og sporna gegn allri hópamyndum.

En af skólastarfinu þessa viku eru auðvitað sérkennilegar fréttir þar sem skólinn er lokaður vegna sóttvarna.  Það hefur samt verið heilmargt í gangi og við erum öll að læra saman.  Unglingarnir hafa verið í kennslu gegnum forritið zoom frá klukkan 9-12 alla daga og það hefur gengið framar okkar björtustu vonum, enda frábærir krakkar. Þeir hafa svo líka fengið verkefni gegnum google-classroom sem þeir skila beint til kennara. Í næstu viku verður sama skipulag hjá þeim nema að íþróttir færast eftir hádegið og þá skapast rými fyrir eina kennslustund til viðbótar. Bryndís verður með tvo tíma á dag og Jóhannes og Sigmar tvo tíma hvor í vikunni. 

Miðstigið fékk námsefnispakka og ipadana sína heim. Við höfum verið að prófa að senda þeim verkefni gegnum google- classroom og það hefur gengið mjög vel hjá sumum en við sjáum að aðrir eru í smá vandræðum með þetta. Enda ekki nema von þar sem við vorum ekki búin að æfa þetta neitt með þeim áður en skólanum var lokað. Héldum jafnvel að þau væru of ung til að fást við þetta en þau hafa sýnt og sannað að það eru þau ekki.  Í dag sendum við þeim frekari leiðbeiningar í tölvupósti og ef foreldrar óska er sjálfsagt að fá tíma hjá Jónu eða Eddu á mánudaginn til að fá frekari aðstoð með þetta ef þarf. Við biðjum ykkur bara að senda tölvupóst svo við getum passað að það komi ekki margir á sama tíma.

Nemendur á yngsta stigi eru vonandi duglegir að lesa heima og nokkrir fengu stærðfræðiefni til viðbótar í dag. Ef foreldrar óska eftir frekari verkefnum fyrir þá má senda tölvupóst á Ásu.

Svo minnum við á að það er hægt að koma í skólann til að endurnýja lestrarbækur, en nauðsynlegt er að senda póst á undan sér til að passa fjöldatakmarkanir.

Gangi ykkur vel með lesturinn og skólavinnuna, ekki hika við að senda póst á okkur ef eitthvað er óljóst.

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.